Matur

20.000 súkkulaðiplötur framleiddar fyrir jól

Lilja Katrín Gunnarsdóttir skrifar
Aðventan nálgast óðfluga og margir farnir að huga að því hvað þeir ætla að borða um jólin. Órjúfanlegur partur af jólahaldi hjá mörgum er jólanammið.

Íslensku sælgætisframleiðendurnir eru fyrir löngu byrjaðir að undirbúa jólavertíðina og bjóða sumir uppá nýjunga fyrir jólin.

Mandarínurúsínur og meira gott

„Jólin eru uppáhaldstími ársins. Þá erum við í óðaönn að gera konfekt og galdra fram nýjar hátíðarvörur sem renna ljúft ofan í landann,“ segir Silja Mist Sigurkarlsdóttir, markaðsstjóri Nóa Siríus. Fyrirtækið framleiðir tvær nýjar hátíðarvörur fyrir jólin.

„Önnur þeirra eru Siríus rúsínur með mandarínubragði og hin er rjómasúkkulaði með Bismark,“ segir Silja og bætir við að þessar tvær vörur verði eingöngu í boði yfir hátíðarnar.

„Við erum með fjórar hátíðarvörur í heildina. Þær sem hafa verið áður og vakið mikla lukku eru 56% Parlín með myntufyllingu og rjómasúkkulaði með piparkökum,“ segir Silja og bætir við að nýjungar hafi einnig bæst í baksturslínu Nóa Siríus, Siríus sælkerabakstur, í aðdraganda jóla.

„Þessar vörur eru piparlakkrískurl og rjómasúkkulaðidropar.“

Konfektið vinsælast

Silja segir konfektið frá Nóa Siríus vera vinsælustu vöruna yfir jólin.

„Við leggjum mikið upp úr því að það sé nóg til fyrir alla og erum á fullu allan sólarhringinn að framleiða konfekt. Konfektið okkar er handgert og handpakkað svo vinnan er vandasöm og mikil en umfram allt er þessi tími skemmtilegasti tími ársins að okkar mati.“

Silja segir Íslendinga taka þessum namminýjungum vel.

„Við fáum fjöldan allan af góðum hugmyndum frá neytendum sem halda okkur á tánum allt árið um kring. Við erum dugleg að safna öllum hugmyndum saman og meta okkar getu í að koma hugmyndunum í framkvæmd. Íslendingar eru duglegir að smakka á öllum okkar nýjungum í bland við að kaupa alltaf sitt uppáhald þegar kemur að þessum tíma árs.“

Íslendingar fylgja siðum

Hjá Góu er það Lindu konfektið sem er eingöngu framleitt í aðdraganda jóla.



„Það er aðeins selt yfir hátíðarnar á meðan birgðir endast,“ segir Atli Einarsson hjá Góu og bætir við að auk þess séu Góu rúsínur og Appolo lakkrís vinsælustu vörurnar á aðventunni.

Atli telur Íslendinga vilja halda í hefðir á jólum.

„Íslendingar fylgja frekar siðum en eru alltaf til í að prófa nýjungar. Síðan versla þeir oftast það sama til að hafa á borðum.“

Íhaldssemi í mat og drykk

Pétur Thor Gunnarsson, markaðsstjóri Freyju er sammála Atla.

„Íslendingar eru í það heila nokkuð íhaldssamir er kemur að mat og drykk um jól og er ég þar ekki undanskilinn. Margir verða hreinlega að eiga til ákveðnar sortir af sælgæti um jól, eins og á mínu heimili þar sem skál af Freyju rjómarakaramellum verður að vera til staðar yfir alla jólahátíðina.  Margir halda í hefðir sem þeir eru vanir frá foreldrahúsum eða frá ömmum og öfum en svo heldur lífið áfram og fólk byrjar að búa saman og eignast börn þar sem hefðir blandast saman og nýjar verða til. Þar skiptir mestu að skapa dýrmætar minningar fyrir börnin okkar sem þau geta svo yljað sér við og hlýjað öðrum með í framtíðinni.“

Freyja býður upp á jólavöru sem heitir einfaldlega Hátíð.

„Freyja framleiðir og blandar saman sínum bestu molum fyrir öll jól. Þessir molar eru blandaðir saman í vöru sem við köllum að sjálfsögðu Hátíð. Hátíð inniheldur litla innpakkaða mola.  Þessir molar eru margir smækkaðar útgáfur af sælgæti sem við seljum allan ársins hring en aðrir sem við seljum einungis um jólin. Í ár er nýr moli í Hátíðarpokanum, en það er Rís með saltkaramellubragði sem slegið hefur í gegn hjá íslendingum á árinu.  Framleiðslan á Hátíð er almennt flókin og tímafrek en okkur þykir vænt um Hátíðina og finnst hún vera ómissandi um jólin,“ segir Pétur og bætir við að Hátíð sé enn fremur vinsælasta vara sælgætisframleiðandans yfir hátíðarnar.

„Bökunarvörur eru einnig sívinsælar og Íslendingar hafa sem betur fer ekki slegið af þeirri hefð að baka fyrir jólin. Endalausar smákökusortir eru ómissandi partur af jólunum að mínu mati.“

Vetrarstykkið rokselst

Hjá súkkulaðigerðinni Omnom er sú hefð í gildi að framleiða nýtt súkkulaðistykki fyrir jólin sem kallað er vetrarstykkið.

„Í ár fórum við óhefðbundna leið með valinu á súkkulaðinu, þar sem starfsmenn Omnom fengu að senda inn sínar eigin hugmyndir að vetrarsúkkulaðinu okkar,“ segir Kjartan Gíslason, einn af stofnendum Omnom.

„Úr 26 innsendum hugmyndum völdum Heslihnetusúkklaði sem hönnuðurinn okkar Veronica Fillipin sendi inn.  Veronica er ítölsk og sótti hún þangað innblásturinn sinn í “Gijandua” súkkulaði, sem er klassíkt ítalskt mjólkursúkkulaði blandað með heslihnetum.  Í okkar útgáfu krydduðum við það með rifnum appelsínuberki, kanill og negull og dreifðum yfir það karamellað heslihnetukurl. Við köllum það einfaldlega Hazelnut,“ bætir Kjartan við. Hazelnut er framleitt í litlu magni, eða um það bil tuttugu þúsund plötum.

„Venjulega höfum við átt einhvern afgang eftir jól, en miðað við viðbrögðin, þá kæmi ekki á óvart að við þyrftum að henda í eina enn lögun fyrir jól,“ segir Kjartan.

Omnom framleiðir einnig vetrarstykki síðustu ára, Milk + Cookies, Dark Nibs + Raspberries, Dark Cherries + Almonds og Spiced White + Caramel. Þau stykki eru framleidd í minna magni, eða tvö til sex þúsund stykkjum og fást eingöngu í verslun Omnom að Hólmaslóð 4.

Varðandi hvaða súkkulaðistykki er vinsælast hjá Omnom, stendur ekki á svörunum.

„Venjulega hefur Lakkrís + Sea Salt verið söluhæsta súkkulaðistykkið okkar en Caramel + Milk, sem við byrjuðum með í samstarfi með Reykjavík Pride, verið að síga á. Síðustu ár hefur verið 30% söluaukning á Lakkrís + Sea Salt og í ár er líklegt að við höfum framleitt og selt hundrað þúsund lakkrísstykki,“ segir Kjartan. Hann telur Íslendinga opna fyrir nýjungum, en í senn halda í hefðir.

„Persónulega tel ég Íslendinga vera mátulega nýjungagjarna og íhaldssama þegar að kemur að jólahefðum og þá er nammi engin undantekning. Ég skal viðurkenna það að konfektkassi frá Nóa Síríus er möst í mínum jólahefðum, svona til að narta í yfir háíðirnar, ekki ósvipað og Malt og Appelsín.“








×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.