Bílar

Team Sleipnir náði 15. sæti í Formula Student

Sæunn Gísladóttir skrifar
Bíllinn sló aldrei feilpúst og hafnaði Team Sleipnir í 15. sæti yfir það heila sem er magnaður árangur.
Bíllinn sló aldrei feilpúst og hafnaði Team Sleipnir í 15. sæti yfir það heila sem er magnaður árangur. Mynd/Aðsend
Á fornfrægu Silverstone kappakstursbrautinni í Englandi er árlega haldin keppni háskólanema í hönnun og gerð kappakstursbíla. Bílarnir þreyta ýmis próf og keppa sín á milli ásamt því að liðin þurfa að halda fyrirlestra um önnur verkfræðileg verkefni tengd hönnun, kostnaði og viðskiptum. Tekin eru saman stig úr öllum flokkum í lokin og krýndur sigurvegari.

Fram kemur í tilkynningu að um 2.000 nemendur frá yfir 90 háskólum frá 30 löndum kepptu þetta árið. Fyrir Íslands hönd keppti liðið Team Sleipnir sem er skipað verkfræði- og tæknifræðinemendum Háskólans í Reykjavík. Bíll þeirra, RU17, fór í gegnum skoðanir og athuganir án mikilla vandræða og fékk þátttökurétt í hinum fjölmörgu kappakstursgreinum sem keppt er í, en það tókst alls ekki öllum liðum.

Fyrst var keppt í „Skid Pad“ þar sem keyrt er í form tölustafsins 8 til að sýna fram á grip og stöðugleika bílsins og lenti Team Sleipnir í 20. sæti. Athuguð var hröðun þar sem Team Sleipnir endaði í 16. sæti. Ekið var á braut á móti klukkunni og hafnaði Team Sleipnir í 17. sæti í þeirri grein. Síðasta og jafnframt erfiðasta keppnin var þolakstur þar sem keyrðir voru 22 hringir í braut á meðan aðrir bílar voru í brautinni á sama tíma. Tekið var tillit til heildartíma sem og bensínnotkun og endaði RU17 í 11. sæti. Bíllinn sló aldrei feilpúst og hafnaði Team Sleipnir í 15. sæti yfir það heila sem er magnaður árangur.

Fyrsta sætinu landaði Cardiff University sem er jafnframt fyrsti sigur bresks háskóla í sögu keppninnar. Var þetta aðeins í annað skiptið sem Team Sleipnir tók þátt í keppninni en liðið náði 74. sæti í fyrra, 15. sæti í ár og liggur leiðin aðeins upp á við. Nánari umfjöllun um Team Sleipni verður í næsta bílablaði Fréttablaðsins.






×