Veiði

100 laxa dagirnir daglegt brauð í Ytri Rangá

Karl Lúðvíksson skrifar
Lax þreyttur við Djúpós í Ytri Rangá
Lax þreyttur við Djúpós í Ytri Rangá
Veiðin í Ytri Rangá hefur verið heldur róleg framan af sumri en göngurnar voru nokkuð seinna á ferðinni en í fyrra.

Það er í raun ekki hægt að miða við sumarið í fyrra því þá voru göngurnar að mæta mjög snemma en venjulegur tími fyrir fyrstu stóru smálaxagöngurnar hefur yfirleitt verið um seinni stóra strauminn í júlí en hann er einmitt nýafstaðinn.  Það er sem við manninn mælt að göngurnar hafa verið mjög kröftugar og hyljir Ytri Rangár að fyllast af laxi.  Í fyrradag veiddust 117 laxar og talan eftir kvöldvaktina í gær er svipuð fyrir daginn.

Í þessum gír þegar það koma um og yfir 100 laxar á dag er áin fljót að fara í 2000 laxa og líklega verður hún komin í 3500-4000 laxa í lok ágúst í þessum takti.  Áin er vel seld út tímabilið en það eru einhverjar stangir á lausu í haust þó þær séu ekki margar.  Þess má geta að það fór nýlega sannkallaður risi í gegnum laxateljarann við Ægissíðufoss en sá lax er mældur í tækjum teljarans 120 sm langur.  Það er vitað um að minnsta kosti eitt tilfelli þar sem svo stór lax gekk í Ytri Rangá en það var 2015 þegar það lá stærðar hængur neðst við grjótin í Hellisey.  Þar lá hann allt tímabilið þangað til það var sett í hann.  Hann slapp frá þeim bardaga og sást ekki meira.






×