Aðstandendur myndarinnar eru tilneyddir til að fresta frumsýningu hér heima um tvær vikur, eða til 6. september 2017.
Hafsteinn Gunnar Sigurðsson (Á annan veg / 2011, París norðursins / 2014) er leikstjóri myndarinnar og skrifaði handritið ásamt Huldari Breiðfjörð.
„Þetta er gríðarlega mikill heiður, bæði fyrir mig sem leikstjóra sem og alla þá sem að myndinni standa. Ég er hrikalega spenntur að sýna myndina og ekki skemmir þessi vettvangur fyrir. En svo er maður smá stressaður líka. Það fylgir alltaf,” segir Hafsteinn Gunnar Sigurðsson.

„Það er gaman að vera í skýjunum yfir því að þurfa að fresta frumsýningu. Feneyjarhátíðin er mjög ströng þegar kemur að þessu, þ.e.a.s. þeir krefjast þess að sýning myndarinnar á hátíðinni sé heimsfrumsýning. Oft fá framleiðendur undantekningu á að sýna myndina í heimalandinu fyrst en það var algjörlega útilokað. Það kom því ekki annað til greina en að fresta frumsýningu hér heima. Heiðurinn og það sem er í húfi á Feneyjarhátíðinni gerði þá ákvörðun mjög auðvelda. Þetta er elsta kvikmyndahátíð í heimi og ein sú virtasta,“ segir Grímar Jónsson.
Með aðalhlutverk í Undir trénu fara Steinþór H. Steinþórsson (Steindi), Edda Björgvinsdóttir, Sigurður Sigurjónsson, Selma Björnsdóttir, Þorsteinn Bachmann og Lára Jóhanna Jónsdóttir.