Tónlist

Skólarapp sett í glænýjan búning

Stefán Þór Hjartarson skrifar
Dóri ræðir af innlifun við þau Þorvald Davíð og Söru Dís, rappstjörnur.
Dóri ræðir af innlifun við þau Þorvald Davíð og Söru Dís, rappstjörnur.
Á föstudaginn er dagur rauða nefsins hjá UNICEF og ýmislegt húllumhæ er í boði af því tilefni. Eitt af því sem gert verður í tilefni dagsins er að Dóri DNA ætlar að henda í einn þátt í viðbót af hinni vinsælu sjónvarpsþáttaröð Rapp í Reykjavík. Að þessu sinni mun Dóri taka viðtal við þau Þorvald Davíð Kristjánsson og Söru Dís Hjaltested en þau voru auðvitað flytjendur hins vinsæla rapplags Skólarapp af plötunni Barnabros 2 sem gerði allt vitlaust hér um árið, árið 1995 réttara sagt. Af einhverri ástæðu kannast viss kynslóð Íslendinga vel við það að fá þetta lag reglulega á heilann.

En það er ekki allt. Lagið hefur fengið glænýtt „remix“ sem verður frumflutt við sama tækifæri á föstudaginn. Það eru þeir Helgi Sæmundur og Auður sem smíðuðu þetta remix og í því kemur fram hvorki meira né minna en 21 rappari – en ekki fékkst uppgefið nákvæmlega um hvaða rappara væri að ræða þrátt fyrir endurteknar spurningar blaðamanns.

Það voru grínstjórar dags rauða nefsins sem sáu um að framleiða og koma þessum stóra viðburði í kring, þær Saga Garðarsdóttir og Dóra Jóhannsdóttir. Tjarnargatan framleiðir grínefnið í þáttinn, ásamt því að sjá um tökur og alla eftirvinnslu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×