Tónlist

Faðir poppfræðanna ræðir við Íslendinga um ferilinn

Stefán Þór Hjartarson skrifar
Faðir poppfræðinnar fer á eftirlaun á næstunni svo það fer hver að verða síðastur að kíkja á fyrirlestur hjá honum.
Faðir poppfræðinnar fer á eftirlaun á næstunni svo það fer hver að verða síðastur að kíkja á fyrirlestur hjá honum.
Simon Frith hefur verið kallaður faðir poppfræðanna. Hann hefur skrifað um tónlist síðan á áttunda áratugnum. Simon kemur hingað til lands á vegum Arnar Eggerts Thoroddsen, en Simon er leiðbeinandi hans í fræðunum.

„Simon Frith má líklega kalla föður poppfræðanna. Hann er leiðbeinandinn minn í doktorsnáminu mínu úti í Edinborg. Hann mun flytja fyrirlestur þar sem hann fer til dæmis í gegnum feril sinn og síðan verður opinn spurningatími þar sem fólk fær að spyrja hann að öllum þeim spurningum sem kunna að vakna. Hann er nú að fara á eftirlaun og þetta er líklega síðasta akademíska heimsóknin hans,“ segir Arnar Eggert Thoroddsen, tónlistarblaðamaður, útvarpsmaður, doktorsnemi í tónlistarfræðum og margt, margt fleira – en hann stendur fyrir komu Simons Frith, eins helsta tónlistarspekings heimsins, hingað til lands þar sem hann mun halda fyrirlestur um ferilinn og fræðin í Veröld, húsi Vigdísar á hádegi í dag.

En hvað fela poppfræðin í sér?

„Það er hvernig við tökum popp- og rokktónlist og greinum hana með félagsfræðilegum hætti. Þá eru ýmsar spurningar sem við getum velt fyrir okkur – til að mynda tónleikamenningu; hvernig hagar fólk sér þegar það fer á Aron Can tónleika? Hagar það sér öðruvísi en þegar það fer á Rammstein tónleika? Hvaða merkingu hefur tónlistin fyrir þig – hefur það eitthvað með sjálfsmyndina að gera? Ég er þungarokkari, ég er hipphoppari og svo framvegis. Hvernig notum við þetta í mannlegum samskiptum? Hvaða áhrif hefur tónlistin á líf okkar þegar við erum til dæmis að safna plötum og svo framvegis. Þetta eru sumar þeirra spurninga sem hann hefur verið að skoða á sínum ferli.“

Hvernig fer fræðimennska og dægurmenning saman?

„Það sem er merkilegt við þetta er að þegar við hugsum um fræðin, þá hugsum við um eitthvað annað en það sem er skemmtilegt, eins og popp og rokk er. Það hefur kannski verið helsta áskorunin hjá fræðimönnum eins og Simon Frith og mér, okkur sem höfum verið að kenna þetta í háskólum, hvernig er hægt að fjalla um eitthvað sem á að vera skemmtileg, upplyftandi afþreying með leiðinda-fræðagleraugum? Nú er ég til að mynda að kenna námskeið í háskólanum sem heitir Félagsfræði dægurmenningar og þar eru krakkarnir að fá tækifæri til að skrifa um Kendrick Lamar eða Rammstein og það hefur verið mjög skemmtilegt fyrir þau og mjög spennandi – það segir manni ýmislegt, það að fara á bólakaf í þetta er mjög skemmtilegt.“

Hefur verið mikið fjallað um popptónlist í fræðilegum gír hér á landi?

„Nei, og það er það sem við erum að reyna að breyta núna í háskólanum. Fyrir þá nemendur sem koma þarna inn er þetta bara opinberun – „Má ég skrifa um Eminem í BA-ritgerðinni minni?!“ Já! Þú mátt það! Ég hlakka til að reyna að breyta þessu og kynna þetta almennilega í háskólanum. Til hvers að vera í háskóla ef það er ekki skemmtilegt?“

Hvað mun Simon Frith fjalla um á föstudaginn?

„Í þessum fyrirlestri ætlar hann að fara svolítið yfir feril sinn og tala um helstu hindranir sem hann hefur mætt þegar hann hefur verið að kenna þetta í háskólum, hann ætlar að tala um helstu áhugamál sín innan fræðanna og mun fara í svona það að velta fyrir sér hvaða merkingu þetta hefur fyrir hann.

Hann hefur til að mynda sérstakan áhuga á lélegri tónlist – hvernig hægt er að mæla hana, hvað getur maður sagt: er til eitthvað sem heitir léleg tónlist?

Hann hefur líka mikið verið að rannsaka tónleikamenningar-kúltúr. Hvað gerist á tónleikum? Hvað er það sem gerist úti í sal, hvað er það sem gerist upp á sviðinu og hvernig samskipti eru þarna á milli?

Það er hægt að fara með þetta í allar áttir – plötusöfnun, útvarpsspilun og svo framvegis. Hann hélt til dæmis heila ráðstefnu þar sem hann talaði um efnislegan hluta tónlistar eins og til að mynda vínylsöfnun,“ segir Arnar Eggert að lokum en fyrirlesturinn fer fram eins og áður sagði í Veröld, húsi Vigdísar, í dag, föstudaginn 26. maí, klukkan 12 og það er frítt inn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×