Tónlist

Ekki töff að vera neikvæður og í fýlu

Benedikt Bóas og Stefán Árni Pálsson skrifa
Svala hafði í nógu að snúast eftir keppnina á þriðjudaginn enda vildu ótal blaðamenn ná tali af henni.
Svala hafði í nógu að snúast eftir keppnina á þriðjudaginn enda vildu ótal blaðamenn ná tali af henni. vÍSIR/BENEDIKT
Söngkonan Svala Björgvinsdóttir er afar ánægð með að hafa tekið þátt í Eurovision. Hún hefur nú fengið ótal boð um að syngja lagið Paper víða um Evrópu og segir að niðurrif og fýla borgi sig ekki.

„Við skulum ekki vera neikvæð og fara að rífa niður. Það er svo ótrúlegt auðvelt að detta í neikvæðu hugsanirnar og við skulum ekki fara þangað. Maður á að vera jákvæður, ekki sjá eftir hlutum og standa með sínu. Að hugsa neikvætt og fara í fýlu – það er ekki töff,“ segir Svala sem gekk stolt af sviðinu í Kænugarði á þriðjudaginn.

Þriðja árið í röð er það hlutskipti Íslands að komast ekki áfram úr forkeppninni. Töluvert var baulað í blaðamannahöllinni eftir keppnina þegar ljóst var að lönd eins og Georgía, Albanía og Finnland auk Íslands sátu eftir með sárt ennið. Svala kynntist nokkrum af þessum flytjendum og segir hún að hún sé lítið að pæla í hvort það sé pólitík á bak við hvert atkvæði.

„Ég er ekkert að pæla í því. Ég veit ekki af hverju þessi lög voru valin en ekki önnur. Ég var að gefa mig alla í þetta eins og sú albanska og stelpan frá Georgíu sem eru rosalegar söngkonur. Fólk velur eins og það velur og ég hef ekki svar við því af hverju það gerir það þannig.“

Lagið snerti við mörgumSvala segir orkuna í salnum hafa gefið sér mikið og henni leið vel á sviðinu þrátt fyrir að tugir milljóna hafi verið að horfa. „Mér leið vel og þetta lag er búið að snerta marga út um allan heim. Instagram-síðan mín er að fyllast af skilaboðum alls staðar að úr Evrópu þar sem fólk er að segja mér að lagið hafi snert við sér. Það er ótrúlega mikill sigur fyrir mig að hafa komið laginu til skila svona víða.“

Hún segir að vissulega hefði hún viljað komast áfram en þó þær dyr séu nú lokaðar hefur þátttaka hennar opnað fleiri. „Þetta er búið að vera svo mögnuð reynsla og mikið ævintýri. Ég hef kynnst fullt af fólki alls staðar að úr heiminum. Það eru strax farnar að opnast dyr fyrir mig sem lagahöfund þannig að ég geng sátt frá borði og ég sé ekki eftir neinu.“

„Ég myndi segja við alla tónlistarmenn sem vilja prófa að fara í svona keppni að gera það. Maður verður reynslunni ríkari og það er fullt af tækifærum sem skapast. Ég sé ekki eftir neinu.“

Svala segist þegar vera komin með boð um að syngja lagið og fleiri séu á leiðinni. „Ég fór algjörlega með boðskapinn alla leið og ég fór alla leið að tala um það sem ég hef gengið í gegn um. Það var að hjálpa mörgum og ég veit að ég þarf að flytja þetta lag trúlega 100 þúsund sinnum í viðbót út um alla Evrópu. Nú þegar eru komin tilboð þar sem ég mun syngja Paper aftur og aftur og aftur og það verður frábært.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×