Bíó og sjónvarp

Finnur til með týpunni sem hún leikur

Guðný Hrönn skrifar
Anna Hafþórsdóttir fer með aðalhlutverkið í Snjó og Salóme.
Anna Hafþórsdóttir fer með aðalhlutverkið í Snjó og Salóme. Vísir/GVA
Anna Hafþórsdóttir leikur aðalhlutverkið í myndinni Snjór og Salóme. Hún hefur töluverða samúð með persónunni sem hún leikur og myndi seint taka sumar af þeim ákvörðunum sem Salóme tekur.

Anna hafði býsna mikla samúð með persónunni sem hún leikur í nýju myndinni Snjór og Salóme. „Salóme er að fara í gegnum erfiða hluti í lífinu á meðan á myndinni stendur, bæði í persónulega lífinu og í vinnunni. Hlutirnir eru ekki að spilast eins og hún hafði vonað og það veldur henni miklum vonbrigðum. En hún reynir eins og hún getur að láta ekki á því bera. Ég upplifi Salóme svolítið eina með sjálfri sér alltaf, því það er eins og enginn skilji hana almennilega, hún er líka umkringd undarlegum karakterum sem hún á erfitt með að tengja við.“

Spurð út í hvort hún sé lík Salóme á einhvern hátt segir Anna: „Við eigum sjálfsagt eitthvað sameiginlegt en erum að mestu frekar ólíkir karakterar. Salóme er þrjóskari en ég og lokaðri. Við erum samt báðar frekar kaldhæðnar og okkur finnst báðum gott að sofa út.“

„En ég myndi bregðast öðruvísi við sumum aðstæðum sem koma upp í lífi hennar. Fyrir það fyrsta myndi ég ekki leigja með fyrrverandi kærasta mínum og ég myndi ekki heldur hafa þolinmæði í að bíða og vona að sambandið virkaði eftir mörg ár af misheppnuðum tilraunum. En svo veit maður aldrei þegar ástin er annars vegar, hún getur gert mann alveg ruglaðan,“ útskýrir Anna.

Þess má geta að myndin, sem verður frumsýnd á morgun, fjallar um óvenjulegan ástarþríhyrning þar sem þau Salóme og Hrafn hafa átt í on/off-sambandi í fimmtán ár og leigt saman íbúð. Þegar Hrafn barnar aðra konu, Ríkeyju, og hún flytur inn breytist allt.

Harkan er sjarmerandi

Anna fer svo sannarlega með aðalhlutverkið í myndinni en hún er í öllum senum myndarinnar nema einni. „Það er krefjandi að halda orkunni alltaf í 100% þegar maður er í tökum marga daga í röð. Það komu tímar þar sem ég var orðin svolítið þreytt, en það er einhvern veginn bara partur af þessu og í raun hluti af sjarmanum við kvikmyndagerð, harkan,“ útskýrir hún.

Anna lék aðalhlutverkið í kvikmyndinni Webcam árið 2015 en það er sami hópurinn sem kom að gerð þeirrar myndar og sér um Snjó og Salóme. „Þetta er sami hópurinn og Sigurður Anton skrifaði og leikstýrði báðum myndunum. Mér finnst hann aftur ná að koma frá sér öðruvísi og ferskri sögu af ungu fólki sem býr á Íslandi. Og ég hugsa að flestir geti tengt við einhver vandamálin sem persónurnar þurfa að glíma við,“ segir Anna.

Til gamans má geta að Gunnar Helgason leikur pabba persónunnar sem Anna leikur, bæði í Webcam og í Snjó og Salóme.

„Við erum allt öðruvísi feðgin í Webcam en í Snjó og Salóme. Í Webcam var engin mamma, hún var dáin, og Rósalind, aðalpersóna Webcam, og pabbi hennar áttu mjög fallegt og náið samband. Ein uppáhaldssenan mín í Webcam er þegar Rósalind segir pabba sínum frá því að hún sé að starfa sem „camgirl“. Í Snjó og Salóme er annað upp á teningnum, þar virðist hann gefinn fyrir áfengið sem fer í taugarnar á Salóme, og einu samskiptin sem þau eiga í myndinni er þegar Salóme hreytir einhverju í pabba sinn.

„Þessi mynd er í raun fyrir alla aldurshópa en Salóme er 28 ára og flestir karakterarnir eitthvað í kringum það, ég hugsa að hún muni helst höfða til fólks á aldrinum 16-30,“ segir Anna að lokum aðspurð fyrir hverja Snjór og Salóme sé.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×