Bíó og sjónvarp

Leikarinn og grínistinn Don Rickles er látinn

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Rickles var gjarn á að móðga áhorfendur sína og er hann talinn upphafsmaður slíks grínstíls.
Rickles var gjarn á að móðga áhorfendur sína og er hann talinn upphafsmaður slíks grínstíls. Vísir/Getty
Leikarinn og grínistinn Don Rickles lést í dag, níræður að aldri, en hann gerði garðinn frægan sem uppistandari og síðar leikari. Spannaði feril hans rúma sex áratugi. Variety greinir frá. 

Rickles tróð meðal annars reglulega upp í Las Vegas þar sem hann varð frægur fyrir grínstíl sinn, sem fólst í að móðga áhorfendur sína með stórskemmtilegum hætti og er hann jafnan talinn upphafsmaður slíks grínefnis.

Hann skaust á stjörnuhiminn fyrir alvöru árið 1965 þegar spjallþáttastjórnandinn Johnny Carson, forveri Jay Leno og Jimmy Fallon, fékk hann í þáttinn til sín. Hann átti eftir að mæta reglulega í heimsókn til allra þriggja þáttastjórnenda.

Rickles talsetti þá einnig hinn svokallaða „Kartöfluhaus“ eða „Potato Head“ í Toy Story myndunum og varð það meðal hans frægustu hlutverka.

Rickles skilur eftir sig eiginkonu, uppkominn son og dóttur, ásamt tveimur barnabörnum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×