Sigurjón Sighvatsson er með sjónvarpsseríu í bígerð sem fjallar um Drakúla greifa. Þættirnir verða byggðir á íslenskri útgáfu af bók Bram Stokers um greifann en Sigurjón sagði við Reykjavík síðdegis í gær að sú útgáfa sé hálfgerð endurskrif á sögunni.
Um er að ræða Powers of Darkness en í þýðingu Valdimars Ásmundssonar fékk hún heitið Makt myrkranna. Sigurjón sagði að í íslensku útgáfunni sé Drakúla greifi ekki eins blóðþyrstur og í upprunalegu útgáfunni.
„Hann er með þjóðfélagslegan tilgang sem er að taka yfir hinn vestræna heim og búa til nýtt veldi þar sem blóðið ræður ríkjum,“ sagði Sigurjón í Reykjavík síðdegis í gær.
Sigurjón sagði að í Makt myrkranna vilji Drakúla ná einræði því hann trúir á mátt blóðsins.
Þættirnir sem Sigurjón er með í vinnslu munu gerast í nútímanum og sagði hann margt í Makt myrkranna minna á það sem er að gerast í hinum vestræna heimi í dag. Miklir öfgar séu nú í Rússlandi, Bandaríkjunum og vísir að þeim í Frakklandi og að Drakúla greifa sé að finna í mörgum hornum í dag.
Hann sagði talsvert í að almenningur fái að njóta þessara þátta sem munu gerast að mestu leyti í Austur Evrópu og á Englandi.
Þá er Sigurjón með í vinnslu kvikmyndina Ég man þig, sem byggð er á samnefndri skáldsögu Yrsu Sigurðardóttur. Tökum á þeirri mynd er lokið og er hún nú í eftirvinnslu. Þá er einnig í vinnslu hrollvekjan The Wanting sem er væntanleg í kvikmyndahús síðar á árinu.
