Dæner-sakleysi Bergur Ebbi skrifar 20. janúar 2017 07:00 Nostalgía selur. Kannski aldrei meira en nú. Það er yndislegt að fara á Star Wars í bíó í nýju Air Jordan re-issue skónum sínum. Maður er í svo góðum málum. Maður getur verið viss um að búið sé að taka Star Wars hugmyndina og nútímavæða hana hæfilega mikið. Það eru ekki lengur 70’s karlrembubrandarar í handritinu og Air Jordan skórnir eru heldur ekki löðrandi í tuttugu ára gamalli táfýlu. Þeir eru glænýir. Nýtt gúmmí eftir gömlum teikningum. En Disney og Nike eru ekki fyrstu fyrirtækin sem fatta að fólk vill ylja sér við gamlar hugmyndir. Þetta hefur alltaf verið svona. Ein þrautseigasta nostalgía okkar menningar er til dæmis ameríska dæner-hugmyndin. Ég er að tala um þá tilhneigingu að innrétta veitingastaði eins og árið sé 1955 og við séum stödd í miðríkjum Bandaríkjanna. Glymskratti í horninu, rokkabillí á fóninum, sjeik á matseðlinum, gullplötur á veggjum og bara almennt stuð. Svona veitingastaðir eru opnaðir á degi hverjum í hinum vestræna heimi, og ávallt sem vísun í liðinn tíma og horfið sakleysi.Hard Rock heimur Ameríski dænerinn var upprunalega keyrður áfram af bjartsýni um efnahagslegar framfarir og samfélagslegan stöðugleika. Þetta var bjartsýni sem við gætum í dag nefnt sakleysi frekar en að ganga alla leið og kalla það barnaskap. Bjartsýnin gekk út á að fólk gæti vandræðalaust keyrt um á tveggja tonna stálflykkjum með sígarettur í munnvikinu og borðað kólesteról-mettaðan mat með vanillusjeik og dillað sér svo fram eftir kvöldi við trumbuslátt „negratónlistar“ eins og hún var kölluð þá. Þetta var stemningin á árunum í kringum 1955-1960. Fólk var ekki hrætt við gróðurhúsaáhrif, kransæðastíflur eða mótmæli gegn þjóðskipulaginu og það hélt kannski í skamma stund að dæner-menningin myndi vara að eilífu. Bílarnir urðu allavega stærri með hverju árinu, hraðbrautirnar breiðari, franskarnar djúpsteiktari og tónlistin ágengari. Og stemningin hvarf aldrei alveg. Það er enn verið að reiða fram franskar og hamborgara á dænerum víðsvegar um hinn vestræna heim án þess að það sé hluti af þematengdum nostalgíuleik. Bílar eru enn framleiddir og fólk hlustar á músík löðrandi í unglingagreddu og rómantík. En fólk gerir það ekki eins. Bílarnir eru fastir í umferð (og bílstjórarnir vita að þeir ættu að vera annarstaðar). Allir eru meðvitaðir um ósonlagið, æðaþrengingar, sykursýki og kynbundið- og kynþáttatengt ofbeldi. Það er alveg hægt að bíta í hamborgara og láta bílinn sinn malla í hægagangi fyrir utan vegasjoppu án þess að vera handtekinn. En það krefst ákveðinnar ögunar, nánast sjálfsblekkingar, að telja sér trú um að í því felist stemning. Og nú, þegar maður getur varla klæðst leðurjakka lengur án þess að hugsa um afleiðingar þess má eiginlega segja að síðasta vígið sé fallið. Sakleysið er horfið. Og í því samhengi sem það er sett fram hér þá er það hvorki gott né slæmt. Samhengið sem ég er að reiða fram er annars eðlis.Það er alltaf gaman Horfum til dagsins í dag. Undanfarin ár hefur ríkt annars konar sakleysi. Það er sakleysi gagnvart upplýsingabyltingunni. Við höfum sífellt fengið léttari og minni snjalltæki sem tengjast betur og hraðar en árið á undan. Þetta hefur verið frábært. Músík, myndir, matur, skutl, skoðanir, tilfinningar og húkköpp er allt komið í seilingarfjarlægð. Þetta er allt í höndum okkar. Það er eiginlega ekki hægt að leiðast. Það er alltaf snilld kraumandi í eyrum manns. Það er alltaf ein lollandi góð athugasemd einhvers staðar sem fær mann til að sjá hið skondna í nánast hvaða aðstæðum sem er. Það er hægt að tala við vini sem búa annarstaðar á hnettinum. Það er hægt að eignast vini sem búa í næsta húsi og maður vissi ekki að maður ætti neitt sameiginlegt með fyrr en reiknilíkan benti manni á það. Það er hægt að tækla allt með upplýsingum og sítengingu. Ljót leyndarmál leka út, lýðræði eykst, vondu kallarnir komast ekki upp með neitt lengur. Fjarlægðir hverfa, aðskilnaður, erfiðleikar, söknuður og einmanaleiki heyra sögunni til. Eða þannig höfum við allavega stundum haldið að það sé. Og stundum hefur það verið einmitt þannig. Það hefur ríkt æðisgengin bjartsýni. Fólk hefur gúglað sig í gegnum ótrúlegustu hluti. Milljónir manna hafa öðlast vald og tilgang. Það fylgir því víma að fá upplýsingar um leið og allir hinir og vera hluti af einhverju risastóru og jákvæðu. Það fylgir því vald að nafnbirta ofbeldismenn og skrifa „Kæra Eygló“ bréf og hafa áhrif, og þetta vald er komið til að vera, en ábyrgðin sem því fylgir er það einnig. Síðustu ár hafa verið algjört „wipe the windows, check the oil, dollar gas“ og kveikt í rettu á bensínstöð, en sú stemning er óðum að klárast. Upplýsingabyltingin mun brátt hætta að vera ævintýraleg og verða hversdagsleg.Manstu eftir Instagram? Ég er ekki að segja að frá og með morgundeginum hætti snjallsímar að léttast og tengingar að aukast. Sú þróun á margt eftir. Rétt eins og bílar hafa þróast mikið frá árinu 1955. Ég er ekki heldur að segja að snjallsímar og sítenging leiði framvegis aðeins til kvíða og fráhvarfa. Ég er þvert á móti að segja að nú er heildarmyndin sýnileg. Nú vitum við hvernig hin hliðin á þróuninni er, og það er sakleysismissir sem verður aldrei afturkallaður. Og hver veit. Kannski verður tímabilið, sem er rétt afstaðið, gírugu og hugmyndaríku viðskiptafólki til andagiftar. Eftir fimmtíu ár verður kannski sérlega mikil stemning fyrir því að dreifa ferningslaga myndum á gamaldags Instagram-forriti, til að rifja upp þá tíma þegar það var enn stuð og stemning, en ekki hversdagsleg og stundum óhugnanlega slítandi iðja.Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Bergur Ebbi Mest lesið Sjálfstæðismenn boða víst skattalækkanir á þá efnamestu Haukur V. Alfreðsson Skoðun Viltu borga 200 þús á mánuði eða 600 þús á mánuði af íbúðinni? Hildur Þórðardóttir Skoðun Fellur helsti stuðningsmaður menningarmála af þingi? Magnús Logi Kristinsson Skoðun Almageddon? Eyþór Kristleifsson Skoðun ESB kærir sig ekkert um Ísland í jólagjöf Ole Anton Bieltvedt Skoðun Vímuefnið VONÍUM Haraldur Ingi Haraldsson Skoðun Betri Strætó 2025 og (svo) Borgarlína Dagur B. Eggertsson Skoðun Afvegaleidd umræða um áskoranir heilbrigðiskerfisins Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir Skoðun Það sem ekki má fjalla um fyrir kosningar til Alþingis Árni Jensson Skoðun Svartir föstudagar í boði íslenskra stjórnvalda Haukur Guðmundsson Skoðun
Nostalgía selur. Kannski aldrei meira en nú. Það er yndislegt að fara á Star Wars í bíó í nýju Air Jordan re-issue skónum sínum. Maður er í svo góðum málum. Maður getur verið viss um að búið sé að taka Star Wars hugmyndina og nútímavæða hana hæfilega mikið. Það eru ekki lengur 70’s karlrembubrandarar í handritinu og Air Jordan skórnir eru heldur ekki löðrandi í tuttugu ára gamalli táfýlu. Þeir eru glænýir. Nýtt gúmmí eftir gömlum teikningum. En Disney og Nike eru ekki fyrstu fyrirtækin sem fatta að fólk vill ylja sér við gamlar hugmyndir. Þetta hefur alltaf verið svona. Ein þrautseigasta nostalgía okkar menningar er til dæmis ameríska dæner-hugmyndin. Ég er að tala um þá tilhneigingu að innrétta veitingastaði eins og árið sé 1955 og við séum stödd í miðríkjum Bandaríkjanna. Glymskratti í horninu, rokkabillí á fóninum, sjeik á matseðlinum, gullplötur á veggjum og bara almennt stuð. Svona veitingastaðir eru opnaðir á degi hverjum í hinum vestræna heimi, og ávallt sem vísun í liðinn tíma og horfið sakleysi.Hard Rock heimur Ameríski dænerinn var upprunalega keyrður áfram af bjartsýni um efnahagslegar framfarir og samfélagslegan stöðugleika. Þetta var bjartsýni sem við gætum í dag nefnt sakleysi frekar en að ganga alla leið og kalla það barnaskap. Bjartsýnin gekk út á að fólk gæti vandræðalaust keyrt um á tveggja tonna stálflykkjum með sígarettur í munnvikinu og borðað kólesteról-mettaðan mat með vanillusjeik og dillað sér svo fram eftir kvöldi við trumbuslátt „negratónlistar“ eins og hún var kölluð þá. Þetta var stemningin á árunum í kringum 1955-1960. Fólk var ekki hrætt við gróðurhúsaáhrif, kransæðastíflur eða mótmæli gegn þjóðskipulaginu og það hélt kannski í skamma stund að dæner-menningin myndi vara að eilífu. Bílarnir urðu allavega stærri með hverju árinu, hraðbrautirnar breiðari, franskarnar djúpsteiktari og tónlistin ágengari. Og stemningin hvarf aldrei alveg. Það er enn verið að reiða fram franskar og hamborgara á dænerum víðsvegar um hinn vestræna heim án þess að það sé hluti af þematengdum nostalgíuleik. Bílar eru enn framleiddir og fólk hlustar á músík löðrandi í unglingagreddu og rómantík. En fólk gerir það ekki eins. Bílarnir eru fastir í umferð (og bílstjórarnir vita að þeir ættu að vera annarstaðar). Allir eru meðvitaðir um ósonlagið, æðaþrengingar, sykursýki og kynbundið- og kynþáttatengt ofbeldi. Það er alveg hægt að bíta í hamborgara og láta bílinn sinn malla í hægagangi fyrir utan vegasjoppu án þess að vera handtekinn. En það krefst ákveðinnar ögunar, nánast sjálfsblekkingar, að telja sér trú um að í því felist stemning. Og nú, þegar maður getur varla klæðst leðurjakka lengur án þess að hugsa um afleiðingar þess má eiginlega segja að síðasta vígið sé fallið. Sakleysið er horfið. Og í því samhengi sem það er sett fram hér þá er það hvorki gott né slæmt. Samhengið sem ég er að reiða fram er annars eðlis.Það er alltaf gaman Horfum til dagsins í dag. Undanfarin ár hefur ríkt annars konar sakleysi. Það er sakleysi gagnvart upplýsingabyltingunni. Við höfum sífellt fengið léttari og minni snjalltæki sem tengjast betur og hraðar en árið á undan. Þetta hefur verið frábært. Músík, myndir, matur, skutl, skoðanir, tilfinningar og húkköpp er allt komið í seilingarfjarlægð. Þetta er allt í höndum okkar. Það er eiginlega ekki hægt að leiðast. Það er alltaf snilld kraumandi í eyrum manns. Það er alltaf ein lollandi góð athugasemd einhvers staðar sem fær mann til að sjá hið skondna í nánast hvaða aðstæðum sem er. Það er hægt að tala við vini sem búa annarstaðar á hnettinum. Það er hægt að eignast vini sem búa í næsta húsi og maður vissi ekki að maður ætti neitt sameiginlegt með fyrr en reiknilíkan benti manni á það. Það er hægt að tækla allt með upplýsingum og sítengingu. Ljót leyndarmál leka út, lýðræði eykst, vondu kallarnir komast ekki upp með neitt lengur. Fjarlægðir hverfa, aðskilnaður, erfiðleikar, söknuður og einmanaleiki heyra sögunni til. Eða þannig höfum við allavega stundum haldið að það sé. Og stundum hefur það verið einmitt þannig. Það hefur ríkt æðisgengin bjartsýni. Fólk hefur gúglað sig í gegnum ótrúlegustu hluti. Milljónir manna hafa öðlast vald og tilgang. Það fylgir því víma að fá upplýsingar um leið og allir hinir og vera hluti af einhverju risastóru og jákvæðu. Það fylgir því vald að nafnbirta ofbeldismenn og skrifa „Kæra Eygló“ bréf og hafa áhrif, og þetta vald er komið til að vera, en ábyrgðin sem því fylgir er það einnig. Síðustu ár hafa verið algjört „wipe the windows, check the oil, dollar gas“ og kveikt í rettu á bensínstöð, en sú stemning er óðum að klárast. Upplýsingabyltingin mun brátt hætta að vera ævintýraleg og verða hversdagsleg.Manstu eftir Instagram? Ég er ekki að segja að frá og með morgundeginum hætti snjallsímar að léttast og tengingar að aukast. Sú þróun á margt eftir. Rétt eins og bílar hafa þróast mikið frá árinu 1955. Ég er ekki heldur að segja að snjallsímar og sítenging leiði framvegis aðeins til kvíða og fráhvarfa. Ég er þvert á móti að segja að nú er heildarmyndin sýnileg. Nú vitum við hvernig hin hliðin á þróuninni er, og það er sakleysismissir sem verður aldrei afturkallaður. Og hver veit. Kannski verður tímabilið, sem er rétt afstaðið, gírugu og hugmyndaríku viðskiptafólki til andagiftar. Eftir fimmtíu ár verður kannski sérlega mikil stemning fyrir því að dreifa ferningslaga myndum á gamaldags Instagram-forriti, til að rifja upp þá tíma þegar það var enn stuð og stemning, en ekki hversdagsleg og stundum óhugnanlega slítandi iðja.Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu.