Ég vaknaði ekki of seint, dagurinn byrjaði of snemma Þórlindur Kjartansson skrifar 27. janúar 2017 07:00 Hefðir og venjur eru dýrmætar öllum fjölskyldum. Það er líka tilgangur jólaboðanna sem öllum er skylt að rækja af samviskusemi; því þótt mann langi ekki alltaf að rífa sig af stað til þess að mæta í jólahöfganum, þá veit maður að hefðin sjálf er verðmæt og verður merkilegri eftir því sem henni er viðhaldið lengur. Í svona boðum myndast tiltekin stemning sem hægt er að ganga út frá sem vísri eftir því sem tíminn líður. Umræðuefnin eiga það til að vera svipuð frá ári til árs; sama fólkið rifjar upp sömu sögurnar og viðheldur þannig milli kynslóða ákveðnum sameiginlegum brunni þekkingar, lífsspeki og áhugaverðra sagna.TilvistarréttlætingÍ móðurfjölskyldunni minni er þessu örlítið öðruvísi farið. Jólaboðin okkar eru í raun hatrammt tilvistarstríð þeirra sem eru blóðskyldir við þá sem hafa gifst inn í fjölskylduna. Þetta er vegna þess að í móðurfjölskyldu minni er ákaflega ríkjandi sá eðliskostur að eiga auðvelt með að halda árvekni langt fram eftir kvöldi og fram á nótt, en finnast fjandanum erfiðara að drattast á fætur á morgnana. Í jólaboðum þyljum við, B-fólkið í fjölskyldunni, upp allar þær vísindalegu sannanir sem við höfum komist á snoðir um og styðja við þá kenningu að okkur sé engan veginn sjálfrátt um það hvort það sé erfitt að vakna á morgnana. Þeir inngiftu umma, humma, jamma, og jæja yfir þessum árlega sjálfsréttlætingarkór og gjóa öðru hverju augum sín á milli í samúðarfullu skilningsleysi og hugsa svo öll það nákvæmlega sama: „Þetta eru nú meiri afsakanirnar fyrir því að geta ekki bara drifið sig á lappir.“ Aðkomufólkinu í ættina er vissulega töluverð vorkunn. Þau létu glepjast til þess að giftast okkur vegna þess að þau hittu að kvöldlagi svo sjarmerandi, spennandi og skemmtilegt fólk, en komust ekki að því fyrr en það var orðið of seint að á morgnana hefur allt önnur persónugerð tekið sér bólfestu í einstaklingnum—og þá er ekkert eftir af sjarmatrölli kvöldsins áður heldur situr eftir vitlaus, viðskotaillur og klaufskur þurs sem best er að taka stóran krók framhjá til þess að komast hjá því að fyrsta samtal dagsins endi í hatrömmum illdeilum, ásökunum og móðgunum.Enginn má sköpum rennaEn vísindin eru víst óyggjandi. Fólk hefur frá náttúrunnar hendi ólíkar hneigðir til vöku og svefns. Þróunarfræðilega skýringin á þessu er sú að mannkynið hafi þurft á því að halda að ákveðinn hluti fólks héldi óskertri athygli langt fram á kvöld og nóttu, og gæti verndað hinn kvöldsvæfa meirihluta fyrir óargadýrum og óvinum sem leynst gátu í myrkri næturinnar. B-fólk hefur allt svipaðar sögur að segja. Allar ritgerðir í skólum eru skrifaðar á nóttunni, lestur er gagnslaus á daginn, öll próf ganga betur ef þau eru eftir hádegi og allar góðar hugmyndir verða til eftir miðnætti. Í jólafríum hefur B-fólk ómótstæðilega tilhneigingu til þess að teygja nóttina langt fram á morgun og jafnvel þótt það takist að hífa sig eldsnemma á lappir að morgni—þá er alls ekkert víst að maður sé orðinn syfjaður á „eðlilegum“ háttatíma.Stríð gegn náttúrunniÞví miður fyrir okkur B-fólkið þá er nútímasamfélag okkur að mörgu leyti mótdrægt. Það er lítil virðing borin fyrir þeim eiginleika að geta staðið vaktina á nóttunni—því það eru ekki lengur nein óargadýr eða óvinir til þess að vernda hina sofandi meðbræður okkar fyrir. Þess í stað verðum við sjálf hálfgerð óargadýr; arkandi fram og til baka heima hjá okkur langt fram eftir nóttu, vekjandi maka okkar með brölti og fótaferðum, kveikjandi og slökkvandi lesljós—og þökkum svo fyrir þolinmæðina morguninn eftir með eintómri geðvonsku og tilætlunarsemi. Til þess að bæta gráu ofan á svart—þá býr íslenskt B-fólk við þær aðstæður að dagurinn styttist á veturna niður í nánast ekki neitt; og á sumrin gefur sólin nánast engar vísbendingar um það hvort það sé nótt eða dagur. Og þar með er ekki öll sagan sögð—ó, nei. Hinum óhjákvæmilegu óþægindum sem hnattstaða Íslands veldur er fylgt eftir með því að stilla klukkuna á Íslandi snarvitlaust. Í Reykjavík er klukkan tæpum 90 mínútum of fljót—þannig að þeir sem fara á fætur þegar klukkan segist vera sjö á morgnana eru í raun að fara fram úr kl. 5.30. Börn eru send í skólann í kolniðamyrkri áður en klukkan, samkvæmt gangi sólarinnar, slær sjö; og svo er ætlast til þess að allir séu komnir í háttinn fyrir miðnætti þótt þá sé raunklukkan bara hálf-ellefu.Ekkert grínSálfræðingar, geðlæknar, kennarar og fleiri hafa á undanförnum árum bent ítrekað á að þessi vanstilling íslensku klukkunnar kunni að hafa raunveruleg slæm áhrif. Hún kunni meðal annars að stuðla að þeirri óheillavænlegu staðreynd að notkun þunglyndislyfja og svefnlyfja er meiri en þekkist annars staðar á byggðu bóli. Þetta bitnar auðvitað mun verr á fólki sem hefur náttúrulega tilhneigingu til þess vaka lengur á kvöldin. Ekki nóg með að það standi í stöðugu stríði við sína eigin náttúru—með tilheyrandi kvölum, heldur upplifir það samviskubit og sjálfsásakanir vegna þess að samfélag morgunglaðra virðist byggja sjálfsmynd sína nær eingöngu á fyrirlitningu á háttalagi náttuglunnar. Það er því ótrúlegt að verða ítrekað vitni að því að gert sé grín að þeirri tillögu Bjartrar framtíðar að klukkan á Íslandi verði stillt í takt við sjálfan sólarhringinn. Það er auðvitað hitt sem er fáránlegt; að stilla hana eftir einhverju öðru. Er það ekki einmitt klukkunnar að hjálpa okkur að skipuleggja daginn í takt við náttúruna en ekki að setja okkur úr takti við hana?Hófleg tillaga GMT-3Á Alþingi hefur iðulega verið rætt að seinka klukkunni um eina klukkustund. Þá vantar ennþá hálftíma upp á að hún sé rétt. Mín tillaga er að seinka klukkunni frekar um þrjá tíma, til þess að bæta örlítið upp fyrir það óréttlæti sem B-fólk hefur mátt þola hér á landi um áratugaskeið. Þessu myndi líka fylgja sá mikli ávinningur að aðdáendur bandarískra íþrótta geta fylgst með NBA, NFL og hafnaboltanum án þess að snúa sólarhringnum við. Morgunhanar þjóðarinnar hafa undantekningarlítið brugðist illa við tillögunni um að seinka klukkunni. Þeim finnst mörgum það vera aumingjaskapur að eiga ekki auðvelt með að vakna klukkan sjö, eins og þeir sjálfir gera. Þeim skal bent á að ef þeim finnst gaman að monta sig af því að þeir fari alltaf á fætur klukkan hálfsjö—þá ættu þeir endilega að styðja tillöguna. Það er nefnilega meiri karlmennska að geta haldið því fram að maður sofi aldrei lengur en til fimm á morgnana, og það gætu þeir léttilega á nýja tímanum og vaknað úthvíldari en þeir gera nú. Við náttuglurnar höfum nógu lengi mátt þola gaggið í morgunhönunum. Megi þeir fara vel á fætur—en leyfið okkur hinum að lifa í takt við sólarhringinn.Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Þórlindur Kjartansson Mest lesið Bob Marley og íslenskar kosningar Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun Heilbrigðiskerfið logar og er að hrynja: Þú áttir betra skilið Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun Vitsmunaleg vanstilling í boði ungra Sjálfstæðiskvenna Erna Mist Skoðun Það sem má alls ekki tala um... Ragnar Þór Ingólfsson Skoðun Rekin út fyrir að vera kennari Álfhildur Leifsdóttir Skoðun Lenda menn í fangelsi eftir misheppnaða skólagöngu? Elinóra Inga Sigurðardóttir Skoðun Litlu fyrirtækin – kerfishyggja og skattlagning Eiríkur S. Svavarsson Skoðun Reiknileikni Sambandsins Ragnar Þór Pétursson Skoðun Við þurfum að tala um Bálstofuna Matthías Kormáksson Skoðun Stóri grænþvotturinn Heiðrún Lind Marteinsdóttir Skoðun
Hefðir og venjur eru dýrmætar öllum fjölskyldum. Það er líka tilgangur jólaboðanna sem öllum er skylt að rækja af samviskusemi; því þótt mann langi ekki alltaf að rífa sig af stað til þess að mæta í jólahöfganum, þá veit maður að hefðin sjálf er verðmæt og verður merkilegri eftir því sem henni er viðhaldið lengur. Í svona boðum myndast tiltekin stemning sem hægt er að ganga út frá sem vísri eftir því sem tíminn líður. Umræðuefnin eiga það til að vera svipuð frá ári til árs; sama fólkið rifjar upp sömu sögurnar og viðheldur þannig milli kynslóða ákveðnum sameiginlegum brunni þekkingar, lífsspeki og áhugaverðra sagna.TilvistarréttlætingÍ móðurfjölskyldunni minni er þessu örlítið öðruvísi farið. Jólaboðin okkar eru í raun hatrammt tilvistarstríð þeirra sem eru blóðskyldir við þá sem hafa gifst inn í fjölskylduna. Þetta er vegna þess að í móðurfjölskyldu minni er ákaflega ríkjandi sá eðliskostur að eiga auðvelt með að halda árvekni langt fram eftir kvöldi og fram á nótt, en finnast fjandanum erfiðara að drattast á fætur á morgnana. Í jólaboðum þyljum við, B-fólkið í fjölskyldunni, upp allar þær vísindalegu sannanir sem við höfum komist á snoðir um og styðja við þá kenningu að okkur sé engan veginn sjálfrátt um það hvort það sé erfitt að vakna á morgnana. Þeir inngiftu umma, humma, jamma, og jæja yfir þessum árlega sjálfsréttlætingarkór og gjóa öðru hverju augum sín á milli í samúðarfullu skilningsleysi og hugsa svo öll það nákvæmlega sama: „Þetta eru nú meiri afsakanirnar fyrir því að geta ekki bara drifið sig á lappir.“ Aðkomufólkinu í ættina er vissulega töluverð vorkunn. Þau létu glepjast til þess að giftast okkur vegna þess að þau hittu að kvöldlagi svo sjarmerandi, spennandi og skemmtilegt fólk, en komust ekki að því fyrr en það var orðið of seint að á morgnana hefur allt önnur persónugerð tekið sér bólfestu í einstaklingnum—og þá er ekkert eftir af sjarmatrölli kvöldsins áður heldur situr eftir vitlaus, viðskotaillur og klaufskur þurs sem best er að taka stóran krók framhjá til þess að komast hjá því að fyrsta samtal dagsins endi í hatrömmum illdeilum, ásökunum og móðgunum.Enginn má sköpum rennaEn vísindin eru víst óyggjandi. Fólk hefur frá náttúrunnar hendi ólíkar hneigðir til vöku og svefns. Þróunarfræðilega skýringin á þessu er sú að mannkynið hafi þurft á því að halda að ákveðinn hluti fólks héldi óskertri athygli langt fram á kvöld og nóttu, og gæti verndað hinn kvöldsvæfa meirihluta fyrir óargadýrum og óvinum sem leynst gátu í myrkri næturinnar. B-fólk hefur allt svipaðar sögur að segja. Allar ritgerðir í skólum eru skrifaðar á nóttunni, lestur er gagnslaus á daginn, öll próf ganga betur ef þau eru eftir hádegi og allar góðar hugmyndir verða til eftir miðnætti. Í jólafríum hefur B-fólk ómótstæðilega tilhneigingu til þess að teygja nóttina langt fram á morgun og jafnvel þótt það takist að hífa sig eldsnemma á lappir að morgni—þá er alls ekkert víst að maður sé orðinn syfjaður á „eðlilegum“ háttatíma.Stríð gegn náttúrunniÞví miður fyrir okkur B-fólkið þá er nútímasamfélag okkur að mörgu leyti mótdrægt. Það er lítil virðing borin fyrir þeim eiginleika að geta staðið vaktina á nóttunni—því það eru ekki lengur nein óargadýr eða óvinir til þess að vernda hina sofandi meðbræður okkar fyrir. Þess í stað verðum við sjálf hálfgerð óargadýr; arkandi fram og til baka heima hjá okkur langt fram eftir nóttu, vekjandi maka okkar með brölti og fótaferðum, kveikjandi og slökkvandi lesljós—og þökkum svo fyrir þolinmæðina morguninn eftir með eintómri geðvonsku og tilætlunarsemi. Til þess að bæta gráu ofan á svart—þá býr íslenskt B-fólk við þær aðstæður að dagurinn styttist á veturna niður í nánast ekki neitt; og á sumrin gefur sólin nánast engar vísbendingar um það hvort það sé nótt eða dagur. Og þar með er ekki öll sagan sögð—ó, nei. Hinum óhjákvæmilegu óþægindum sem hnattstaða Íslands veldur er fylgt eftir með því að stilla klukkuna á Íslandi snarvitlaust. Í Reykjavík er klukkan tæpum 90 mínútum of fljót—þannig að þeir sem fara á fætur þegar klukkan segist vera sjö á morgnana eru í raun að fara fram úr kl. 5.30. Börn eru send í skólann í kolniðamyrkri áður en klukkan, samkvæmt gangi sólarinnar, slær sjö; og svo er ætlast til þess að allir séu komnir í háttinn fyrir miðnætti þótt þá sé raunklukkan bara hálf-ellefu.Ekkert grínSálfræðingar, geðlæknar, kennarar og fleiri hafa á undanförnum árum bent ítrekað á að þessi vanstilling íslensku klukkunnar kunni að hafa raunveruleg slæm áhrif. Hún kunni meðal annars að stuðla að þeirri óheillavænlegu staðreynd að notkun þunglyndislyfja og svefnlyfja er meiri en þekkist annars staðar á byggðu bóli. Þetta bitnar auðvitað mun verr á fólki sem hefur náttúrulega tilhneigingu til þess vaka lengur á kvöldin. Ekki nóg með að það standi í stöðugu stríði við sína eigin náttúru—með tilheyrandi kvölum, heldur upplifir það samviskubit og sjálfsásakanir vegna þess að samfélag morgunglaðra virðist byggja sjálfsmynd sína nær eingöngu á fyrirlitningu á háttalagi náttuglunnar. Það er því ótrúlegt að verða ítrekað vitni að því að gert sé grín að þeirri tillögu Bjartrar framtíðar að klukkan á Íslandi verði stillt í takt við sjálfan sólarhringinn. Það er auðvitað hitt sem er fáránlegt; að stilla hana eftir einhverju öðru. Er það ekki einmitt klukkunnar að hjálpa okkur að skipuleggja daginn í takt við náttúruna en ekki að setja okkur úr takti við hana?Hófleg tillaga GMT-3Á Alþingi hefur iðulega verið rætt að seinka klukkunni um eina klukkustund. Þá vantar ennþá hálftíma upp á að hún sé rétt. Mín tillaga er að seinka klukkunni frekar um þrjá tíma, til þess að bæta örlítið upp fyrir það óréttlæti sem B-fólk hefur mátt þola hér á landi um áratugaskeið. Þessu myndi líka fylgja sá mikli ávinningur að aðdáendur bandarískra íþrótta geta fylgst með NBA, NFL og hafnaboltanum án þess að snúa sólarhringnum við. Morgunhanar þjóðarinnar hafa undantekningarlítið brugðist illa við tillögunni um að seinka klukkunni. Þeim finnst mörgum það vera aumingjaskapur að eiga ekki auðvelt með að vakna klukkan sjö, eins og þeir sjálfir gera. Þeim skal bent á að ef þeim finnst gaman að monta sig af því að þeir fari alltaf á fætur klukkan hálfsjö—þá ættu þeir endilega að styðja tillöguna. Það er nefnilega meiri karlmennska að geta haldið því fram að maður sofi aldrei lengur en til fimm á morgnana, og það gætu þeir léttilega á nýja tímanum og vaknað úthvíldari en þeir gera nú. Við náttuglurnar höfum nógu lengi mátt þola gaggið í morgunhönunum. Megi þeir fara vel á fætur—en leyfið okkur hinum að lifa í takt við sólarhringinn.Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu