Bíó og sjónvarp

Dóttur Michael Jackson varð óglatt þegar hún sá Joseph Fiennes leika föður sinn

Birgir Olgeirsson skrifar
Joseph Fiennes sem Michael Jackson í bresku gamanþáttunum Urban Myths.
Joseph Fiennes sem Michael Jackson í bresku gamanþáttunum Urban Myths.
Breski leikarinn Joseph Fiennes leikur Michael Jackson í breskum gamanþætti og sitt sýnist hverjum um það val og túlkun hans á tónlistarmanninum sáluga.

Um er að ræða bresku gamanþáttaröðina Urban Myts þar sem sem Fiennes leikur konung poppsins í þætti sem fjallar um bílferð Elizabeth Taylor, Michael Jackson og Marlon Brando.

Hlaðvarpið The MJ Cast, sem fjallar um Michael Jackson, hvatti til sniðgöngu á þættinum og spurði dóttur Michael Jackson, Paris, hvað henni þætti um þetta allt saman.

„Mér er svo ótrúlega misboðið, og er viss um að mörgum öðrum líði eins. Í hreinskilni sagt varð mér óglatt,“ svaraði Paris á Twitter.

Hún segist reið yfir því hversu augljóslega aðstandendur þáttarins eru að reyna að vera móðgandi, ekki aðeins í garð föður hennar, heldur einnig í garð guðmóður hennar Elizabeth Taylor.

„Hvar er virðingin? Þau lögðu blóð, svita og tár í það að skapa svo mikla og merkilega arfleið. Þetta er skammarleg túlkun.“

Hún sagði föður sinn hafa ávallt verið stoltan af uppruna sínum og að hann hefði aldrei sætt sig við þessa túlkun.

Þessi þáttur verður frumsýndur á Sky Arts 19. janúar næstkomandi. Michael Jackson, Elizabeth Taylor og Marlon Brando eru ekki einu umfjöllunarefnin því einnig verða sagðar sögur af Bob Dylan, Adolf Hitler, Samuel Beckett og Cary Grant í þessari þáttaröð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×