Útgáfu fyrstu plötu sveitarinnar East of My Youth var fagnað rækilega á Húrra í gær en þær Herdís Thelma fengu tónlistarkonurnar Hildi og Glowie til liðs við sig á tónleikunum. Fyrsta plata East of My Youth hefur að geyma fjölbreytt lög og lýsir ferlinu á bak við samstarf þeirra Herdísar og Thelmu vel að þeirra sögn. „Það tók ár að vinna plötuna, þannig að við erum búnar að vinna markvisst saman í um ár. Á þeim tíma lærðum við mikið, bæði um það sem okkur langar að gera og hvor á aðra. Þannig að lögin eru líka búin að breytast og þróast með okkur,“ segir Herdís.

Eftir dvölina í Berlín fluttu þær Herdís og Thelma aftur til Íslands. „Við vissum ekki alveg hvað við áttum að gera þegar heim var komið. Þar sem við vorum báðar tvær á krossgötum tókum við ákvörðun um að hittast reglulega í Listaháskólanum, gamla skólanum okkar, og spila og syngja. Og varð fyrsta lagið okkar til.“
Útkoma þessa samstarfs er sex laga plata sem hefur að geyma fjölbreytt lög. „Þó að þetta sé stutt plata þá ákváðum við samt að leyfa henni að standa. Á henni er fjölbreytt tónlist, allt frá melódískum ballöðum yfir í alvöru elektró-popp.“
En hvað er svo fram undan? „Við erum á leiðinni í lítið tónleikaferðalag þar sem við munum meðal annars spila á Eurosonic-hátíðinni í Hollandi. Svo erum við að fara að vinna með pródúsent í London og þar munum við vinna að nýjum lögum,“ segir Herdís.