Gagnrýni

Týnd í plasti og vondum hugmyndum

Sigríður Jónsdóttir skrifar
Úr sýningu Þjóðleikhússins á Óþelló Williams Shakespeare.
Úr sýningu Þjóðleikhússins á Óþelló Williams Shakespeare.
Leikhús

Óþelló

eftir William Shakespeare

Þjóðleikhúsið og Vesturport

Leikstjóri og leikgerð: Gísli Örn Garðarsson

Leikarar: Ingvar E. Sigurðsson, Nína Dögg Filippusdóttir, Aldís Amah Ham­ilton, Arnmundur Ernst Backman, Björn Hlynur Haraldsson, Guðjón Davíð Karlsson, Ólafur Egill Egilsson, Katrín Halldóra Sigurðardóttir og Jóhannes Níels Sigurðsson

Leikmynd: Börkur Jónsson

Búningar: Sunneva Ása Weisshappel

Lýsing: Halldór Örn Óskarsson

Tónlist: Björn Kristjánsson (Borko)

Hljóðhönnun: Björn Kristjánsson (Borko) og Kristján Sigmundur Einarsson

Þýðing: Hallgrímur Helgason



Þann 22. desember síðastliðinn var Óþelló eftir William Shakespeare, jólasýning Þjóðleikhússins, frumsýndur á stóra sviðinu. Gísli Örn Garðarsson leikstýrir þessu stórvirki leikhúsbókmenntanna.

Óþelló hefst með nánast tómu sviði en stórt tré trónir fyrir því miðju undir tónum Björns Kristjánssonar, sem er betur þekktur sem tónlistarmaðurinn Borko. Óþelló, leikinn af Ingvari E. Sigurðssyni, kemur inn á nærklæðunum einum saman og tekur sér góðan tíma til að höggva tréð niður. Þessi fyrsta sena verksins er jafnframt sú besta, hrá og afgerandi.

Gísli Örn leikstýrir sýningunni og skrifar leikgerðina en hann hikar ekki við að hrista hressilega upp í verkinu sem er vel og áhugavert á blaði. Aftur á móti hefur ansi mörgum persónum verið hent út úr handriti og verkið stytt gríðarlega. Innra gangverk verksins riðlast við slíkar breytingar, keðjuverkandi atburðir ganga ekki upp og ásetningur persóna verður óljós.

Utangarðsmannsstaða Óþellós er aldrei nægilega vel útskýrð nema með húðflúri hans á bringunni sem minnir óþægilega á skreytingar hinna nýsjálensku Maóría frekar en Mára hins upprunalega texta. Af þessum sökum hefur verkið ekkert samfélagslegt akkeri, heimurinn sem hópurinn skapar er óljós, leikarar verksins eru sjaldan samstilltir og sýningin verður af þeim sökum mjög brotakennd.

Þýðingin er í höndum Hallgríms Helgasonar og hittir hann stundum beint í mark en fellur of oft í þá gryfju að einfalda málið um of og styðjast við klúryrði og klofbrandara til að brjóta upp spennu. Shakespeare notast oft við afsíðis einræður þar sem persónur tala beint til áhorfenda, en í þessari sýningu er fjórði veggurinn mölbrotinn þegar kvenpersónur verksins hópast saman og kveða saman í kór um pólitíska ástandið á Íslandi. Þrátt fyrir gamansemina þá gefur atriðið sýningunni lítið.

Ákvörðunin um að Ingvar leiki Óþelló er í vægasta falli undarleg og erfið í meðförum, þá sérstaklega þegar leikgerðin er ekki sterkari. Hann reiðir sig um of á reiði og heift Óþellós og erfitt er að finna samúð með örlögum hans. Að Ingvar sverti andlit sitt á einum tímapunkti sýningarinnar er daður við einstaklega ógeðfellda leikhúshefð. Smekkleysið er undirstrikað með bókstaflegum klósetthúmor þegar titilpersóna verksins hoppar á bólakaf ofan í kamar og klifrar síðan þaðan alsaurugur og svartur. Hvítþvottur Óþellós er vond hugmynd en þessi ákvörðun er enn þá verri. Óþelló fjallar nefnilega ekki eingöngu um afbrýðisemi heldur líka kynþáttahatur, stofnanaofbeldi og karl­pungahátt.

Jagó er hér leikinn af konu, þó alls ekki í fyrsta skipti í sögunni, en Nína Dögg Filippusdóttir tekst hér á við eitt af flóknustu hlutverkum Shakespeares. Jagó er óræð persóna sem gerir hana bæði hættulega og spennandi. Aftur á móti leikur Nína Jagó eins og hún sé með öll tromp á hendi frá byrjun, sem gerir lævísi hennar þreytandi frekar en lokkandi.

Nýliðinn Aldís Amah Hamilton fær það gríðarstóra verkefni að leika Desdemónu í sínu fyrsta stóra hlutverki eftir útskrift. Í heildina stendur hún sig með ágætum þrátt fyrir sýnilegt óöryggi á köflum en hlutverkið hefur verið minnkað töluvert. Annar tiltölulega nýútskrifaður leikari, Arnmundur Ernst Backman, leikur hinn unga Kassíó og gefur honum viðkvæmar víddir. Áhorfendur geta bundið framtíðarvonir við þau bæði.

Ólafur Egill Egilsson, Guðjón Davíð Karlsson og Björn Hlynur Haraldsson líða allir fyrir styttingar á handritinu og kómíska nálgun á karakterum á kostnað dramatískrar dýptar. Á endanum verður þátttaka þeirra í framvindunni frekar þýðingarlítil en Björn Hlynur á sterkustu senuna af þeim þremur þegar Barb­antínó, faðir Desdemónu, þrumar yfir hópnum.

Börkur Jónsson hannar leikmyndina en hans vinna hefur oft verið töluvert betri. Plasttjöld umlykja sviðið allt og salinn sjálfan en stálkassar á hjólum, líka umluktir plasti, eiga að skapa fókus á fjölunum. Sunneva Ása Weisshapel sér um búningana en líkt og sviðshönnunin þá taka þeir kraft úr verkinu frekar en undirstrika áherslur. Lífsneisti sviðsetningarinnar er ljósahönnun Halldórs Arnar Óskarssonar sem færir allavega einhvern lit og sjónræna spennu inn í þennan grámyglulega plastgeim. Einnig er tónlist Borko og hljóðmynd sem hann gerir í samvinnu við Kristján Sigmund Einarsson góð.

Afbygging og nýjar nálganir á verkum Williams Shakespeare eru nauðsynlegar til að rannsaka áður ókannaða fleti á sögum þessa mikla meistara. Tilraunir eru nauðsynlegar íslenskum sviðslistum. En þær verða að vera meira en hugaðar og nýstárlegar, þær verða líka að vera vel ígrundaðar og úthugsaðar.

Niðurstaða: Óþelló á algjörum villigötum.


Tengdar fréttir

Frumsýna Óþelló tvisvar

Breytt er út af hefðinni í Þjóðleikhúsinu þessi jólin, en þar hefur jólasýningin í mörg ár verið frumsýnd á annan í jólum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.