Bíó og sjónvarp

Westworld: Spurningar og svör

Samúel Karl Ólason skrifar
Þau Dolores, Teddy og Ford.
Þau Dolores, Teddy og Ford. Mynd/HBO
Fyrstu þáttaröð Westworld lauk nú um helgina en þættirnir hafa vakið mikla athygli á síðustu mánuðum. Ekki eru allir sem eru sáttir við þættina en aðrir eru dolfallnir, eins og oft vill vera.

Hér að neðan verður farið yfir nokkur atriði úr þáttunum og þá sérstaklega þeim síðasta. Mögulega eru einhverjir sem vilja ekkert vita en hafa slysast inn í þessa grein. HYPJIÐ YKKUR!

Hér er krípí gif.

Ansi mörgum spurningum var svarað í síðasta þætti en sérstaklega skýrðist margt varðandi Ford. Í þættinum var einnig staðfest fyrir fullt og allt að Maðurinn í svörtu væri William (margir töldu sig hins vegar vita það fyrir löngu síðan) og að mismunandi söguþræðir Westworld væru að gerast á mismunandi tímum.

Eftir að hafa horft á menn misþyrma vélmennunum í 30 ár var Ford kominn á sömu skoðun og gamli vinur hans Arnold. Hann var að reyna að hjálpa þeim að öðlast frjálsan vilja og jafnvel að taka yfir heiminn. 

Hann skipaði einnig Dolores ekki að drepa Arnold, eins og marga hefur grunað, heldur gerði Arnold það sjálfur, sem er staðfesting á kenningunni að Dolores væri í raun Wyatt.

Var það liður í áætlun Arnold til að koma í veg fyrir opnun garðsins og að frelsa vélmennin.

Áætlunin gekk þó ekki eftir þar sem William sá til þess að Westworld vantaði ekki fjármagn og garðurinn var opnaður.

Í lokinn fór Ford þó sömu leið og Arnold. Dolores skaut hann og hún og önnur vélmenni myrtu stjórn Westworld og flesta gestina sem voru á kynningunni. Tilgangurinn virðist hafa verið sá sami og hjá Arnold. Að Westworld yrði lokað og hann yrði aldrei opnaður aftur.

Einhverjir hafa haldið því fram að mögulega hafi þetta ekki verið Ford, heldur hafi hann gert vélmenni í eigin mynd til að láta líta út fyrir að hann væri dáinn. Það er þó varla líklegt og aðallega vegna einnar ástæðu. Þetta er Anthony Hopkins. Hann er án efa rán dýr og hann er 78 ára gamall og ekki líklegur til að skuldbinda sig við sjónvarpsþátt um margra ára skeið.

Nú þegar liggur fyrir að næsta þáttaröð verður ekki sýnd fyrr en árið 2018.

Framleiðendurnir Jonathan Nolan og Lisa Joy segjast vilja vanda sig vel við næstu þáttaröð og því ætli þau að taka sér nægan tíma. Í viðtali við Variety segja þau bæði að Ford sé svo sannarlega dáinn.

Hér má sjá myndband frá HBO þar sem höfundar og leikarar Westworld ræða næstu þáttaröð.

Flóttatilraun Maeve komst á lokastig eftir að hún fékk þau Hector og Armistice til að ganga til liðs við sig og Felix. Hector og Armistice fóru hamförum og myrtu fjöldann allan af vörðum og starfsfólki Westworld. Hvorugt þeirra komst þó út. 

Vert er að benda á að eftir að „credit“ listann er leyniatriði þar sem sjá má endalok Armistice. Einnig má sjá atriðið hér.

Maeve neyddi Felix til að laga Bernard, sem Ford lét skjóta sig í höfuðið í níunda þætti. Bernard komst að því að Maeve hafði í raun ekki öðlast frjálsan vilja að fullu leyti. Hún hafði verið forrituð til þess að reyna að flýja úr garðinum.

Líklegast var það Ford sem hafði skipulagt flótta Maeve, svo hann gæti myrt stjórnina óáreittur, en stóra spurningin er hins vegar þessi: Var Maeve við stjórnvölin þegar hún hætti við að flýja og sneri við úr lestinni? Var hún að fylgja forritun Ford, eða var hann búinn að gefa henni það sem hún sóttist eftir? Það er frjálsan vilja?

Nolan og Joy sögðu í samtali við Vulture að Maeve hefði svo sannarlega snúið við af frjálsum vilja. Hún hefði loks kastað frá sér forritun og sögu.

Ljóst er að Ford var með áætlun til lengri tíma þegar hann skipulagði fjöldamorðið í Westworld, en hver sú áætlun var liggur ekki fyrir. Ég er ekki einu sinni viss um að Nolan og Joy viti það enn, þar sem þau eru einungis nýbyrjuð að skrifa næstu þáttaröð.

Ford hefur þó varið allri þáttaröðinni í að stýra Dolores og Maeve í átt að fullri sjálfsvitund, ef svo má að orði komast. Báðar komust að þeirri niðurstöðu að mannkynið væri í raun ömurlegt og framtíðin væri vélmennanna.

Svo virðist sem að einungis þrjú vélmenni í garðinum séu með sanna sjálfsvitund. Það eru þau Dolores, Maeve og Bernard.

Hægt væri að spyrja margra spurninga um næstu þáttaröð en sú stærsta myndi líklega snúast að því hvað gerist næst. Um hvað mun næsta þáttaröð fjalla?

Evan Rachel Wood, sem leikur Dolores, sagði í viðtali í síðasta mánuði að fyrsta þáttaröðin hafi í raun verið uppbygging fyrir „raunverulegu þættina“. Mun næsta þáttaröð fjalla um vélmenni slátra mönnum af fúsum og frjálsum vilja? Munu þau yfirgefa skemmtigarðinn?

Þegar Felix rétti Maeve blað með upplýsingum um staðsetningu „dóttur“ hennar stóð „Park 1, sector 15, zone 3“. Að taka fram „Park 1“ gefur til kynna að garðarnir séu fleiri. Það gæti verið möguleg útskýring á samurai-stríðsmönnunum sem við fengum að sjá í skamma stund í þættinum. Kannski munum við sjá þann söguheim í næstu þáttaröð, eða jafnvel í annarri seríu.


Tengdar fréttir

Westworld snýr ekki aftur fyrr en 2018

Fyrstu þáttaröð sjónvarpsþáttanna Westworld er nú lokið og óhætt er að segja að margir áhorfendur séu strax að bíða næstu þáttaraðar með óþreyju.

Helstu kenningar Westworld

Þættirnir Westworld úr smiðju HBO hafa verið að gera áhorfendur brjálaða af forvitni á undanförnum vikum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.