Gagnrýni

Hetjudáðir duga ekki alltaf til

Sigríður Jónsdóttir skrifar
Börnin á leiksviðinu í Bláa hnettinum standa sig með stakri prýði.
Börnin á leiksviðinu í Bláa hnettinum standa sig með stakri prýði.
Leikhús

Blái hnötturinn

Andri Snær Magnason

Borgarleikhúsið

Leikstjórn og leikgerð: Bergur Þór Ingólfsson.

Leikarar: Gunnar Hrafn Kristjánsson, Hjörtur Viðar Sigurðarson, Iðunn Ösp Hlynsdóttir, Guðríður Jóhannsdóttir, Erlen Isabella Einarsdóttir, Gabríel Máni Kristjánsson, Emilía Bergsdóttir, Sölvi Viggósson Dýrfjörð, Gríma Valsdóttir, Sóley Agnarsdóttir, Edda Guðnadóttir, Grettir Valsson, Rut Rebekka Hjartardóttir, Bjarni Kristbjörnsson, Andrea Birna Guðmundsdóttir, Baldvin Alan Thorarensen, Andrea Lapas, Hulda Fanný Pálsdóttir, Pétur Steinn Atlason, Ágúst Örn Wigum, Vera Stefánsdóttir, Björgvin Ingi Ólafsson, Steinunn Lárusdóttir, Guðmundur Elías Knudsen, Hjörtur Jóhann Jónsson og Björn Stefánsson.

Tónlist: Kristjana Stefánsdóttir

Danshöfundur: Chantelle Carey

Leikmynd: Ilmur Stefánsdóttir

Búningar: María Th. Ólafsdóttir

Lýsing: Þórður Orri Pétursson

Hljóð: Garðar Borgþórsson

Leikgervi: Árdís Bjarnþórsdóttir og María Th. Ólafsdóttir



Síðastliðinn laugardag frumsýndi Borgarleikhúsið nýjan íslenskan söngleik byggðan á bókinni Sagan af bláa hnettinum eftir Andra Snæ Magnason. Bergur Þór Ingólfsson leikstýrir, skrifar leikgerðina og söngtextana en Kristjana Stefánsdóttir semur tónlistina. Þrettán hundruð börn fóru í prufur, eftir stóðu tuttugu og þrjú börn sem halda sýningunni í sínum höndum.

Hinir smáu íbúar bláa hnattarins eru hlýðnir og góðir, eins konar ofurkurteis útgáfa af týndu drengjunum í Pétri Pan eða ef Flugnahöfðingi Williams Golding gerðist í útópískri krúttvídd. Þessi átakalausi heimur riðlast þegar geimskip lendir á plánetunni og sölumaður í fullorðinslíki reynir að pranga upp á þau óþörfum hlutum.

Söguþráðurinn er afskaplega þunglamalegur, þrátt fyrir ágætis tilætlanir og fallegan kjarna. Hugmyndafræðin valtar yfir alla persónusköpun og eftir hlé svignar sýningin undan áhersluþunganum, húmorinn flýgur út um gluggann, en góð leikstjórn, danshönnun og blessuð börnin bjarga því sem bjargað verður.

Björn Stefánsson, eini fullorðni leikarinn í burðarhlutverki, leikur geimryksugusalann Gleði-Glaum. Björn er í essinu sínu og spígsporar um sviðið líkt og hann eigi það. Hinn fjölhæfi Hjörtur Jóhann Jónsson leikur sögumann leikverksins, og stendur sig með ágætum. Hann líður þó fyrir endasleppt hlutverk; kynnir áhorfendur fyrir sögusviðinu, opnar seinni hlutann fallega og hverfur síðan á brott.

En það eru börnin, öll tuttugu og þrjú, sem stela senunni. Magnað er að sjá svona unga einstaklinga halda uppi tveggja tíma söngleik, nánast óstudda. Börnin dansa, syngja og fljúga um sviðið full sjálfstrausts. Borgarleikhúsið er að uppskera ríkulega af öflugu innra leiklistarstarfi. Ómögulegt er að fjalla um einstaka leikara en hópurinn allur á heiður skilinn fyrir faglega nálgun, dynjandi dans og heiðskíran söng.

Barnaskarinn nær að kynda undir ylvolgum söguþræðinum með skipulagðri yfirumsjón Bergs Þórs og hans listræna teymi. Þau reyna stöðugt að finna leiðir til að spenna upp söguna, með mismunandi árangri. Til allrar hamingju skapar erfiðasta senan magnaðasta dansatriði sýningarinnar. Danshöfundurinn Chantelle Carey er sem himnasending en fjölbreytt dans­atriði hennar ýta framvindunni áfram.

Leikgerð Bergs Þórs er ágæt en hefði þolað styttingar og söngtextarnir hans fínir.

Þeir, líkt og tónlist Kristjönu, eru þó helst til of áþekkir en flutningur barnanna er fantagóður. Leikmynd Ilmar Stefánsdóttur er smellin og nýtur sín best þegar lausnirnar eru hugvitsamlegar. Hennar helsti galli er misjöfn myndbandsnotkun.

Þórður Orri Pétursson hannar ágæta ljósasýningu og búningarnir eru í höndum Maríu Th. Ólafsdóttur og einnig leikgervi í samvinnu við Árdísi Bjarnþórsdóttur. Það er eins og búningahirsla Borgarleikhússins hafi hreinlega sprungið á sviðinu, þvílík er litadýrðin, og bjarnarbúningur Hjartar er sér á parti.

Það er ekki hægt annað en að dást að metnaði Borgarleikhússins og hæfileikaflóðinu sem hreinlega æðir um stóra sviðið. Þess væri bara óskandi að sagan næði að hamra á hjartastrengina, þetta er ágætis boðskapur en ekki góður skáldskapur. Sýningin, ólíkt börnunum, kemst nefnilega aldrei á flug.

Niðurstaða: Kraftaverkabörnunum undir stjórn Bergs Þórs tekst næstum því hið ómögulega.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.