Birgir fékk myndirnar sendar í gærmorgun en þær voru teknar við efsta bæ í Lundarreykjadal. Kindin fannst um morguninn og hefur verið drepin þá um nóttina.

Dæmigerð vinnubrögð rebba
Birgir segir engan möguleika vera á því að þarna hafi verið hundur á ferð. „Þeir fara aftan í kindur og rífa og tæta þar. Þetta eru aftur á móti dæmigerð vinnubrögð rebba. Hann fer oftast í snoppuna á kindum og rífur þar og tætir. Hann getur verið lengi að murka lífið úr kindum og stundum tekst þeim það alls ekki. En kindin er auðvitað stórskemmd á eftir. Sumir fara víst aftan í kindur og rífa rassgatið út, en það er sjaldgæfara en hitt, ég hef til dæmis aldrei séð svoleiðis leikna kind,“ segir Birgir sem á að baki áratuga reynslu í að eiga við varg.

Ekki að ástæðulausu sem rebbi er svo hataður
Fjölmargir hafa ríka samúð með refnum, tala um hann sem fyrsta landnemann og skilja ekki það hvers vegna hann er hundeltur. En, þarna er líkast til skýringin á því að bændur og þeir sem til þekkja hatast við skolla?
„Nákvæmlega. Þetta gerðist síðast árið 2014, þá hjá þessum sömu bændum en þá brást Borgarbyggð óvænt skjótt við og setti fé til höfuðs nokkrum rebbum. Það tókst þá að uppræta bítinn. Spurning hvernig tekst til núna og hvað sveitarfélagið hyggst gera.“

Ætlar að freista þess að fella dýrbítinn
„Það lendir á mér að reyna að liggja fyrir honum, já. Ég er bara varla nógu sprækur í svona verkefni lengur en reyni samt líklega að beita allri minni herkænsku og reynslu sem er allnokkur og svo verður að koma í ljós hvernig tekst til,“ spaugar Birgir. Þó honum sé ekki hlátur í huga.
„Verst bara að það stendur ekki utan á þeim hver sé sökudólgurinn.“
Nei, einmitt. Það er þannig að ekki gerast allir rebbar dýrbítar?
„Nei, þetta er nú sem betur fer ekki mjög algengt. En hefur samt verið að aukast síðustu ár, það er þá bara í takti við stærri tófustofn. Ég var að veiða í Grímsá í fyrradag og á leiðinni í bæinn sá ég fjórar tófur sem voru hér og þar á leiðinni frá Þingvöllum. Og sú síðasta var við Leirvogsá. Þetta var í myrkrinu í gærkvöldi og þeim brá fyrir í bílljósunum á veginum. Mér fannst þetta dálítið mikið.“
Þessi frétt birtist fyrst á Gripdeild sem er samstarfsvefur Vísis um veiðiumfjöllun.