Einfalt, kómískt, harmrænt og yndislegt Magnús Guðmundsson skrifar 20. ágúst 2016 11:30 Bækur Ef þú vilt Helle Helle Þýðing: Silja Aðalsteinsdóttir Útgefandi: Mál og menning Prentun: Oddi Síðufjöldi: 163 Kápa: Halla Sigga Það skyldi engan undra að Helle Helle hefur um nokkurt skeið verið á meðal allra vinsælustu skáldsagnahöfunda Dana. Hún skrifar næman, stílhreinan og fallegan texta uppfullan af dönskum húmor eins og hann gerist bestur og tekst á við hluti sem við flest þekkjum úr okkar daglegu lífi. En á sama tíma gera bækur hennar kröfu til lesandans um að lesa af næmni og jafnvel áfergju og draga fram allt það sem undir liggur. Allt það sem er í lífi sem virðist slétt og fellt en er allt annað og meira. Ef þú vilt, hennar nýjasta skáldsaga, er engin undantekning á þessu og það er mikið gleðiefni að hún skuli hafa ratað til íslenskra lesenda í hnökralausri og vandaðri þýðingu Silju Aðalsteinsdóttur. Ef þú vilt segir frá hinum 48 ára gamla Roar, sem er jafnframt sögumaður, og konunni Jeo sem er áratugnum yngri. „Þetta er ekki ég. Ég stend ekki svona á bak við tré úti í skógi.“ Þetta eru upphafsorð sögunnar, orð Roar sem er villtur í dönskum skógi, villtur og stefnulaus í lífi án tilgangs. Jeo verður á vegi hans í skóginum og saman villast þau um skóginn í tvo sólarhringa. Án símasambands, án stefnu, ráfa þau um hölt, ælandi og umkomulaus en enginn saknar þeirra. Tvær grátbroslegar og einmana manneskjur í grátbroslegum aðstæðum. Einfalt, kómískt, harmrænt og yndislegt. Það er sérstaklega eftirtektarvert að Helle Helle skuli velja þá leið að nota karlmanninn Roar, litlausan og óspennandi starfsmann á tölvuverkstæði, sem sögumann. Það kemur því eins og ferskur andblær inn í frásögnina þegar líf Jeo tekur söguna yfir án þess að vikið sé frá sögumanni. Tilfinningin er eins og höfundurinn taki af honum valdið og það leynir sér ekki að það er sagan hennar sem skiptir máli. Sagan um líf kvenhetjunnar sem er í raun um margt venjulegt og óspennandi en verður þó í meðförum höfundar eitthvað svo óendanlega mannlegt og hlaðið sögnum um daglegt líf okkar í nútímasamfélagi. Hlaðið meitluðum hugsunum um einmanaleika og sambönd, hlutverk kynjanna, stöðu móðurinnar í nútíma samfélagi og þannig mætti áfram telja. Og allt er brotið upp í hversdagslegum einfaldleika af ljóðrænni fegurð. Hjónaband hennar riðar til falls en lífið heldur áfram af algjöru miskunnarleysi: „Hún lærði að fylla hænu.“ Einfalt, kómískt, harmrænt og yndislegt. Þrátt fyrir einfaldleika og meitlaðan stíl er texti Helle Helle margbrotinn, djúpur og fullur af forvitnilegum bókmenntalegum vísunum og allt of langt mál væri að elta allar uppi. Nær er að leyfa lesendum að njóta þeirra í hverju skrefi hinna harmrænu hlaupara. Þó má nefna að efni titilsins er til að mynda að finna í þeirri látlausu athöfn að Jeo býður Roar ennisbandið sitt til þess að vefja utan um blæðandi blöðru á fæti hins óreynda hlaupara. Ennisbandið er í eigu drengsins sem Jeo gekk í móðurstað. „Þú mátt fá ennisbandið mitt, ef þú vilt, segir hún svo.“ Einföld og látlaus athöfn er orðuð hversdagslega, en er þrungin af tilfinningu og hlaðin merkingu um líf hennar og stefnu. Einfalt, kómískt, harmrænt og yndislegt.Niðurstaða: Einföld bók sem lætur lítið yfir sér en er í raun hlaðin merkingu og dásamlegum vangaveltum um líf okkar, sambönd og einmanaleika.Birtist fyrst í Fréttablaðinu 20. ágúst. Bókmenntir Menning Mest lesið Brynjar Morthens leikur Bubba Morthens Bíó og sjónvarp Rómantík í loftinu hjá Sveindísi Jane Lífið Beyonce, Charli xcx og Kendrick Lamar sópa að sér tilnefningum Lífið Niðurgangurinn á Þingvöllum þaggaður niður Lífið Fagnar átta árum án hugbreytandi efna Lífið Víkingur Heiðar tilnefndur til Grammy-verðlauna Menning „Sigmundur Davíð gerði ekki shit þegar hann var forsætisráðherra“ Lífið Tæki Brynjar Níels með í bústaðinn Lífið Hlustar á Taylor Swift og elskar The Kardashians Lífið Frambjóðendur, sjónvarpsstjörnur og gamlir félagar fögnuðu með Geir Menning Fleiri fréttir Efni sem veldur uppköstum, yfirliðum og eilífri æsku The Bikeriders: Hvenær komum við í flugeldaverksmiðjuna!? Kælt niður í byrjun og svo búmm! DIMMA var flott en einhæf Sjá meira
Bækur Ef þú vilt Helle Helle Þýðing: Silja Aðalsteinsdóttir Útgefandi: Mál og menning Prentun: Oddi Síðufjöldi: 163 Kápa: Halla Sigga Það skyldi engan undra að Helle Helle hefur um nokkurt skeið verið á meðal allra vinsælustu skáldsagnahöfunda Dana. Hún skrifar næman, stílhreinan og fallegan texta uppfullan af dönskum húmor eins og hann gerist bestur og tekst á við hluti sem við flest þekkjum úr okkar daglegu lífi. En á sama tíma gera bækur hennar kröfu til lesandans um að lesa af næmni og jafnvel áfergju og draga fram allt það sem undir liggur. Allt það sem er í lífi sem virðist slétt og fellt en er allt annað og meira. Ef þú vilt, hennar nýjasta skáldsaga, er engin undantekning á þessu og það er mikið gleðiefni að hún skuli hafa ratað til íslenskra lesenda í hnökralausri og vandaðri þýðingu Silju Aðalsteinsdóttur. Ef þú vilt segir frá hinum 48 ára gamla Roar, sem er jafnframt sögumaður, og konunni Jeo sem er áratugnum yngri. „Þetta er ekki ég. Ég stend ekki svona á bak við tré úti í skógi.“ Þetta eru upphafsorð sögunnar, orð Roar sem er villtur í dönskum skógi, villtur og stefnulaus í lífi án tilgangs. Jeo verður á vegi hans í skóginum og saman villast þau um skóginn í tvo sólarhringa. Án símasambands, án stefnu, ráfa þau um hölt, ælandi og umkomulaus en enginn saknar þeirra. Tvær grátbroslegar og einmana manneskjur í grátbroslegum aðstæðum. Einfalt, kómískt, harmrænt og yndislegt. Það er sérstaklega eftirtektarvert að Helle Helle skuli velja þá leið að nota karlmanninn Roar, litlausan og óspennandi starfsmann á tölvuverkstæði, sem sögumann. Það kemur því eins og ferskur andblær inn í frásögnina þegar líf Jeo tekur söguna yfir án þess að vikið sé frá sögumanni. Tilfinningin er eins og höfundurinn taki af honum valdið og það leynir sér ekki að það er sagan hennar sem skiptir máli. Sagan um líf kvenhetjunnar sem er í raun um margt venjulegt og óspennandi en verður þó í meðförum höfundar eitthvað svo óendanlega mannlegt og hlaðið sögnum um daglegt líf okkar í nútímasamfélagi. Hlaðið meitluðum hugsunum um einmanaleika og sambönd, hlutverk kynjanna, stöðu móðurinnar í nútíma samfélagi og þannig mætti áfram telja. Og allt er brotið upp í hversdagslegum einfaldleika af ljóðrænni fegurð. Hjónaband hennar riðar til falls en lífið heldur áfram af algjöru miskunnarleysi: „Hún lærði að fylla hænu.“ Einfalt, kómískt, harmrænt og yndislegt. Þrátt fyrir einfaldleika og meitlaðan stíl er texti Helle Helle margbrotinn, djúpur og fullur af forvitnilegum bókmenntalegum vísunum og allt of langt mál væri að elta allar uppi. Nær er að leyfa lesendum að njóta þeirra í hverju skrefi hinna harmrænu hlaupara. Þó má nefna að efni titilsins er til að mynda að finna í þeirri látlausu athöfn að Jeo býður Roar ennisbandið sitt til þess að vefja utan um blæðandi blöðru á fæti hins óreynda hlaupara. Ennisbandið er í eigu drengsins sem Jeo gekk í móðurstað. „Þú mátt fá ennisbandið mitt, ef þú vilt, segir hún svo.“ Einföld og látlaus athöfn er orðuð hversdagslega, en er þrungin af tilfinningu og hlaðin merkingu um líf hennar og stefnu. Einfalt, kómískt, harmrænt og yndislegt.Niðurstaða: Einföld bók sem lætur lítið yfir sér en er í raun hlaðin merkingu og dásamlegum vangaveltum um líf okkar, sambönd og einmanaleika.Birtist fyrst í Fréttablaðinu 20. ágúst.
Bókmenntir Menning Mest lesið Brynjar Morthens leikur Bubba Morthens Bíó og sjónvarp Rómantík í loftinu hjá Sveindísi Jane Lífið Beyonce, Charli xcx og Kendrick Lamar sópa að sér tilnefningum Lífið Niðurgangurinn á Þingvöllum þaggaður niður Lífið Fagnar átta árum án hugbreytandi efna Lífið Víkingur Heiðar tilnefndur til Grammy-verðlauna Menning „Sigmundur Davíð gerði ekki shit þegar hann var forsætisráðherra“ Lífið Tæki Brynjar Níels með í bústaðinn Lífið Hlustar á Taylor Swift og elskar The Kardashians Lífið Frambjóðendur, sjónvarpsstjörnur og gamlir félagar fögnuðu með Geir Menning Fleiri fréttir Efni sem veldur uppköstum, yfirliðum og eilífri æsku The Bikeriders: Hvenær komum við í flugeldaverksmiðjuna!? Kælt niður í byrjun og svo búmm! DIMMA var flott en einhæf Sjá meira