Bíó og sjónvarp

Fyrsta gamanmyndahátíð Íslands á Flateyri

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Sigurður Skúlason og Theodór Júlíusson í hlutverkum sínum í myndinni Hjónabandssælu eftir Jörund Ragnarsson. Hún  er opnunarmynd hátíðarinnar og ein þeirra sem tengjast Vestfjörðum efnislega.
Sigurður Skúlason og Theodór Júlíusson í hlutverkum sínum í myndinni Hjónabandssælu eftir Jörund Ragnarsson. Hún er opnunarmynd hátíðarinnar og ein þeirra sem tengjast Vestfjörðum efnislega.
Glaðværð verður ríkjandi vestur á Flateyri um næstu helgi á fyrstu gamanmyndahátíð á Íslandi. Hún hefst á hláturjóga, svo taka við sýningar á þrjátíu íslenskum gamanmyndum, auk annarra viðburða.

„Alls verða fimm nýjar íslenskar gamanmyndir frumsýndar á hátíðinni og svo er  heimsfrumsýning á myndinni Með allt á hreinu í þannig búningi að almenningur getur sungið lögin með. Ágúst Guðmundsson leikstjóri ætlar að mæta og segja áður ósagðar sögur og mér skilst einhverjir úr Stuðmannahópnum líka.“ 

Þetta segir Flateyringurinn Eyþór Jóvinsson, sem ásamt Ársæli Níelssyni stendur fyrir gamanmyndahátíð Flateyrar um næstu helgi. Það mun vera fyrsta hátíðin sinnar tegundar á landinu.

Hér er afi Mannsi úr samnefndri heimildarmynd eftir Jón Bjarka Hjálmarsson.
Hugleikur Dagsson skipar stóran sess á hátíðinni. Hann mun frumsýna fyrsta þáttinn í sinni nýju seríu, Hulla 2. Samhliða því verður hann með uppistand, ásamt Bylgju Babýlons og sýnd verður heimildarmynd um ferð hans og Ara Eldjárns til Finnlands.

„Það var í fyrsta skipti sem Hugleikur flutti sitt efni utan Íslands. Ragnar Hansson gerði mynd um það ferli,“ lýsir Eyþór.

„Þetta er í fyrsta sinn sem gamanmyndahátíð Flateyrar er haldin, en vonandi verður hún árleg héðan í frá,“ segir Eyþór Jóvinsson, sem sjálfur hefur fengist við kvikmyndagerð. 

Hann var með félaga sínum á kvikmyndahátíð síðasta haust þegar hugmyndin að hátíðinni kviknaði.

„Við vorum búnir að horfa á dramatískar, þungar myndir sem tók dálítið á að sitja undir. Svo poppaði upp ein gamanmynd, sem var ekki einu sinni góð og varla fyndin en hún vakti mikla kátínu. - Af hverju ekki að halda eina kvikmyndahátíð þar sem markmiðið er að skemmta áhorfendum og gamanið fær að ráða för? hugsuðum við. Nú er það að verða að veruleika. Það sem okkur er efst í huga þegar við veljum myndir á hátíðina er að þær séu skemmtilegar og fyndnar, allt annað er aukaatriði.“

Eyþór fékk hugmynd að hátíðinni þegar hann horfði á hverja dapurlegu myndina eftir aðra á kvikmyndahátíð erlendis.
Eyþór segir markmiðið líka að koma af stað vitundarvakningu um gamanmyndaformið. 

„Ástæðan fyrir því hversu margir veigra sér við að gera gamanmyndir er að það er agalegt að mistakast. Það er nefnilega töluvert auðveldara að láta fólki líða illa en að fá alla til að hlæja. En það eru verðlaun fyrir kvikmyndagerðarmann þegar viðbrögð við gamanmynd hans eru eins og hann vonaðist eftir. Ef hefð kemst á hátíðina verður það vonandi til þess að fleiri gamanmyndir verði framleiddar.“

Eyþór kveðst hafa valið úr hátt í fimmtíu myndum fyrir hátíðina. Sú stysta tekur mínútu í sýningu, sú lengsta rúman klukkutíma, það er myndin Landsliðið sem var frumsýnd á heimildamyndahátíðinni Skjaldborg í vor.

Hún er um tvö pör og sálfræðing sem skrá sig sem íslenska landsliðið á einni virtustu snjóhöggskeppni heims en ekkert þeirra hafði nokkru sinni gert ísskúlptúr áður. Úr því varð mikið ævintýri, allt fest á filmu.

„Hafsteinn Gunnar Sigurðsson gerði þessa mynd, hún er alveg kostuleg og verður lokamynd hátíðarinnar í ár,“ segir Eyþór.

Gamli bræðslutankurinn frá 1925 er einn af sýningarstöðum gamanmyndanna.
Sýningar verða í samkomuhúsinu sem er hið gamla kvikmyndahús Flateyringa. Einnig verður sýnt í Tankinum, gömlum bræðslutanki frá 1925, sem verður líklega fyrsta hringlaga kvikmyndahúsið á landinu. Hann var hljóðver um tíma en nú er búið að rífa allt innan úr honum, að sögn Eyþórs.

Á sunnudeginum verða sýndar íslenskar klassískar myndir í sundlauginni. „Við erum með kosningu á Fésbókarsíðu hátíðarinnar og mér sýnist á öllu að það verði Stella í orlofi og Dalalíf sem verði fyrir valinu. En við byrjum föstudaginn á hláturjóga. Þá verða allir gestir teknir út á tún og aðeins hitaðir upp fyrir kvöldið.

Svo eru Greifarnir með ball hér á Vagninum á Flateyri og það er í fyrsta sinn í 30 ára sögu þeirra sem það gerist. Þeir eru mjög spenntir og ekki síður við Flateyringar.“

Ókeypis er á alla viðburði hátíðarinnar, að frátöldu sveitaballinu með Greifunum.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 23. ágúst 2016.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×