Sigur lóunnar Magnús Guðmundsson skrifar 28. júní 2016 07:00 Það eru merkilegir hlutir að gerast á EM í Frakklandi. Á risavöxnum leikvöngum er íslenska smáþjóðin að vinna glæsta sigra, jafnt innan vallar sem utan, og heimsbyggðin hrífst með. Ekki vegna þess að við erum smáþjóð heldur vegna framkomu, samheldni og ástríðu leikmanna jafnt sem stuðningsmanna þessa skemmtilega liðs frá íshafsklettinum í Norður-Atlantshafi. Þessi árangur er auðvitað hvorki tilviljun né heppni heldur afrakstur öflugs starfs knattspyrnuhreyfingar, félaga, þjálfara, foreldra og sjálfboðaliða sem hafa hlúð að iðkendum af kærleika og fórnfýsi. Þessi árangur sýnir okkur svo ekki verður um villst hverju við getum áorkað þegar við leggjum rækt við hlutina og leitumst við að gera þá af vandvirkni, fagmennsku og metnaði. Við gætum til að mynda hugsað okkur íslenskt menntakerfi sem viðlíka metnaður væri lagður í og hversu farsælli framtíð það gæti skilað afkomendum okkar um ókomin ár. Þannig að það er sitthvað sem við getum lært af þessu ævintýri – sitthvað sem við skulum ekki gleyma þegar rennur af okkur mesta gleðivíman. Við förum alltaf langt á samheldni, vinnusemi og sómasamlegri framgöngu. Það er líka vonandi að Evrópa læri þessa íslensku lexíu og læri hana vel. Því í Frakklandi hafa sumar hinna stóru og herskáu þjóða setið uppi með organdi illar bullur sem þarfnast vopnaðrar gæslu nánast í hverri klósettferð, sjálfum sér og þjóð sinni til háborinnar skammar enn og aftur. En á sama tíma standa sólbrenndar í íslensku stúkunni sömu fjölskyldurnar og fara á sumarmótin hér heima með börnunum sínum og aðrir gleðigjafar á öllum aldri, karlar og konur, börn og unglingar. Og á meðan bullurnar öskra eitthvað um orrustur, eigið ímyndaða ágæti og mikilfengleik syngja Íslendingarnir eins og heiðlóur á sólríku sumarkvöldi um ástina og bæinn í sveitinni undir jöklinum sem logar í íslenskri kvöldsólinni. Og viti menn: Heimsbyggðin leggur hlustir við söng heiðlóunnar en skellir skollaeyrum við öskri ljónsins. Þegar þessi orð eru skrifuð er enn óvíst um úrslit leiksins í gærkvöldi. Það eitt er þó víst að strákarnir í íslenska liðinu eiga skildar hamingjuóskir, þúsund þakkir og bestu kveðjur norðan úr Íshafi fyrir stórkostlega framgöngu innan vallar sem utan. Fylgjendur liðsins og aðdáendur mega líka bera höfuðið hátt og geta hlakkað til morgundagsins hvernig sem fer því íslenska fótboltasumarið er rétt að hefjast. Með áframhaldandi öflugu starfi munu bæði strákarnir og stelpurnar okkar halda áfram að skipa sér á bekk meðal þeirra bestu. Skipa sér á bekk meðal stórþjóða sem eiga oftar en þær grunar eftir að heyra sigursælan söng heiðlóunnar í íslenska fótboltasumrinu sem er komið til að vera.Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 28. júní 2016 Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Birtist í Fréttablaðinu Magnús Guðmundsson Mest lesið Hugvíkkandi efni: Forvitni umfram dómhörku Bergsveinn Ólafsson Skoðun Listin að styðja en ekki stýra Árni Sigurðsson Skoðun Vegna FB færslu Kristins Hrafnssonar: Misskilningur um endurgreiðslukerfi kvikmynda Ólafur William Hand Skoðun Tilraun til 40 ára býður skipbrot - allir þegja Björn Ólafsson Skoðun Hvernig tölum við um mat í kringum börnin okkar? Berglind Lilja Guðlaugsdóttir Skoðun Píkudýrkun Kolbrún Bergþórsdóttir Skoðun Með vægi í samræmi við það Hjörtur J. Guðmundsson Skoðun Það er ekki eitt, það er allt Diljá Matthíasardóttir Skoðun Líknarslæving við lífslok er umdeild meðferð Ingrid Kuhlman Skoðun Munu næstu fjögur ár nægja? Kolbrún Halldórsdóttir Skoðun
Það eru merkilegir hlutir að gerast á EM í Frakklandi. Á risavöxnum leikvöngum er íslenska smáþjóðin að vinna glæsta sigra, jafnt innan vallar sem utan, og heimsbyggðin hrífst með. Ekki vegna þess að við erum smáþjóð heldur vegna framkomu, samheldni og ástríðu leikmanna jafnt sem stuðningsmanna þessa skemmtilega liðs frá íshafsklettinum í Norður-Atlantshafi. Þessi árangur er auðvitað hvorki tilviljun né heppni heldur afrakstur öflugs starfs knattspyrnuhreyfingar, félaga, þjálfara, foreldra og sjálfboðaliða sem hafa hlúð að iðkendum af kærleika og fórnfýsi. Þessi árangur sýnir okkur svo ekki verður um villst hverju við getum áorkað þegar við leggjum rækt við hlutina og leitumst við að gera þá af vandvirkni, fagmennsku og metnaði. Við gætum til að mynda hugsað okkur íslenskt menntakerfi sem viðlíka metnaður væri lagður í og hversu farsælli framtíð það gæti skilað afkomendum okkar um ókomin ár. Þannig að það er sitthvað sem við getum lært af þessu ævintýri – sitthvað sem við skulum ekki gleyma þegar rennur af okkur mesta gleðivíman. Við förum alltaf langt á samheldni, vinnusemi og sómasamlegri framgöngu. Það er líka vonandi að Evrópa læri þessa íslensku lexíu og læri hana vel. Því í Frakklandi hafa sumar hinna stóru og herskáu þjóða setið uppi með organdi illar bullur sem þarfnast vopnaðrar gæslu nánast í hverri klósettferð, sjálfum sér og þjóð sinni til háborinnar skammar enn og aftur. En á sama tíma standa sólbrenndar í íslensku stúkunni sömu fjölskyldurnar og fara á sumarmótin hér heima með börnunum sínum og aðrir gleðigjafar á öllum aldri, karlar og konur, börn og unglingar. Og á meðan bullurnar öskra eitthvað um orrustur, eigið ímyndaða ágæti og mikilfengleik syngja Íslendingarnir eins og heiðlóur á sólríku sumarkvöldi um ástina og bæinn í sveitinni undir jöklinum sem logar í íslenskri kvöldsólinni. Og viti menn: Heimsbyggðin leggur hlustir við söng heiðlóunnar en skellir skollaeyrum við öskri ljónsins. Þegar þessi orð eru skrifuð er enn óvíst um úrslit leiksins í gærkvöldi. Það eitt er þó víst að strákarnir í íslenska liðinu eiga skildar hamingjuóskir, þúsund þakkir og bestu kveðjur norðan úr Íshafi fyrir stórkostlega framgöngu innan vallar sem utan. Fylgjendur liðsins og aðdáendur mega líka bera höfuðið hátt og geta hlakkað til morgundagsins hvernig sem fer því íslenska fótboltasumarið er rétt að hefjast. Með áframhaldandi öflugu starfi munu bæði strákarnir og stelpurnar okkar halda áfram að skipa sér á bekk meðal þeirra bestu. Skipa sér á bekk meðal stórþjóða sem eiga oftar en þær grunar eftir að heyra sigursælan söng heiðlóunnar í íslenska fótboltasumrinu sem er komið til að vera.Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 28. júní 2016
Vegna FB færslu Kristins Hrafnssonar: Misskilningur um endurgreiðslukerfi kvikmynda Ólafur William Hand Skoðun
Vegna FB færslu Kristins Hrafnssonar: Misskilningur um endurgreiðslukerfi kvikmynda Ólafur William Hand Skoðun