Tónlist

Gefur hæfileikaríkum konum tækifæri

Stefán Þór Hjartarson skrifar
Hildur gefur út hressan sumarsmell sem fær örugglega að hljóma yfir nokkur sólböð í sumar. Það má sjá glitta í bolinn sem listakonan Sunna Ben hannaði fyrir Hildi.
Hildur gefur út hressan sumarsmell sem fær örugglega að hljóma yfir nokkur sólböð í sumar. Það má sjá glitta í bolinn sem listakonan Sunna Ben hannaði fyrir Hildi. Vísir/Hanna
„Myndbandið er eiginlega eins og nútímaútgáfa af Palli var einn í heiminum, nema nú er Palli fullorðin glamúrkona sem lifir mjög hátt. Við skyggnumst inn í mjög glæsilegt líf manneskju sem utan frá virðist lifa fullkomnu lífi, en undir niðri er hún bara ein og einmana. Hún virðist alltaf vera að bíða eftir einhverjum sem kemur ekki. Við vorum að nálgast þetta út frá því sjónarhorni hvað fólk er duglegt að láta líf sitt líta miklu betur út en það í alvöru er. En ég vil ekki segja hvernig þetta endar - það er twist!“ segir Hildur Kristín Stefánsdóttir sem sendir frá sér sitt annað lag og myndband sem sólótónlistarkona, en það er lagið Bumpy road.

Hvar er myndbandið tekið upp?

„Við fengum lánað ótrúlegt hús í Keflavík sem margir þekkja sem kastalahúsið. Við sáum það bara á AirBnB og urðum alveg heillaðar. Eigendurnir voru svo elskulegir að lána okkur húsið og það kom ótrúlega vel út.“

Hvaða fólk er með þér í að gera myndbandið?

„Ég fékk einvalalið hæfileikaríkra kvenna til að gera myndbandið. Leikstjóri myndbandsins er Svanhildur Gréta Kristjánsdóttir og Birta Rán Björgvinsdóttir sá um myndatöku, klippingu og eftirvinnslu. Svo sáu góðar vinkour mínar um förðun, hár og stíliseringu og ég er ótrúlega sátt við útkomuna. Allt myndbandið er unnið af konum og mér finnst skemmtilegt að vekja athygli á því að hið sama var uppi á teningnum í síðasta myndbandi. Eins og tónlistarheimurinn er kvikmyndaiðnaðurinn líka frekar karllægur og mér finnst mikilvægt að taka þátt í að breyta því og gefa hæfileikaríkum konum fleiri tækfæri.“

Það er mikill glamúr í gangi í myndbandinu hennar Hildar.Mynd/Birta Rán Björgvinsdóttir
Hvernig er svo lagið, er þetta hress smellur eins og I‘ll walk with you eða ertu kannski komin yfir í ballöðurnar?

„Bumpy road er hress smellur en með fallegum og hvetjandi boðskap. Ég samdi lagið sem einhvers konar pepp til mín þegar ég var á erfiðum stað. Nafnið á laginu vísar í holóttan veg sem er samlíking fyrir lífið sjálft. Lífið er holóttur vegur, maður fer alltaf upp og niður, kannski einmitt þegar maður býst ekki við því, en eina leiðin til að halda áfram er að að fara aftur upp.

Halldór Eldjárn, sem margir þekkja úr hljómsveitinni Sykur, pródúseraði lagið með mér og það var frábært að vinna með honum, ég held að við höfum klárlega náð því besta fram úr hvort öðru. Svo kom bróðir hans, Úlfur Eldjárn, og spilaði á saxófón sem setti ótrúlega flottan blæ á lagið.“

Ekki er allt sem sýnist í glyskenndu lífi sumra - þannig má kannski útleggja boðskapinn í myndbandinu við Bumpy road.Mynd/Birta Rán Björgvinsdóttir
Hvað er svo fram undan? 

„Sumarið verður fullt af skemmtilegum tónleikum hjá mér og ég get ekki beðið eftir að fá að spila lögin mín fyrir sem flesta. I'll walk with you fékk svo frábærar viðtökur að það er ótrúlega gaman að fylgja því eftir. Ég er búin að vera mjög dugleg að vinna í tónlistinni síðasta hálfa árið þannig að ég er komin langleiðina með EP plötu, sem er næsta stóra markmið hjá mér. Ég stefni á að gefa hana út með haustinu, sem undirbúning fyrir Iceland Airwaves og veturinn.

Ég ákvað að gera eitthvað meira úr útgáfunni á Bumpy road og frumsýna í leiðinni nýja línu af Hildar-vörum. Ég fékk góðvinkonu mína Sunnu Ben, myndlistarkonu og DJ, til að hanna fyrir mig myndskreytingu og lét svo prenta stuttermaboli, derhúfur og kaffibolla. Mér fannst mikilvægt að hafa eina vöru sem fólk hefur enga afsökun fyrir að kaupa ekki. Það nota ekkert allir hvíta boli eða derhúfur en það nota allir bolla! Ég er ótrúlega ánægð með útkomuna og er alveg alvarlega að íhuga að brjóta regluna að listamaður megi ekki ganga í eigin hljómsveitarbolum!“

Á Facebook-síðu Hildar má svo finna frekari upplýsingar um Hildar-vörurnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Viðburðir

Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.