Þrælahald Fanney Birna Jónsdóttir skrifar 2. júní 2016 07:00 Enn eitt mansalsmálið er nú til rannsóknar hjá lögreglu, nú meint vinnumansal hjá starfsmanni Félags heyrnarlausra. Hvað á endanum reynist rétt og rangt í því einstaka máli er fyrir lögregluyfirvöld og dómstóla að skera úr um en fljótlega verður hægt að tala um mansalsfaraldur hér á landi. Hver fréttin af meintu vinnumansali hér og þar á landinu rekur aðra, víðs vegar um landið og í hinum ýmsu atvinnugreinum. Ísland er í 49. sæti á heimsvísu í nýrri skýrslu Global Slavery Index sem kom út í fyrradag. Ísland fær þar einkunnina B sem er með þeim lægstu í Vestur-Evrópu þegar kemur að því hvernig stjórnvöld taka á þrælahaldi en talið er að á Íslandi séu 400 vinnuþrælar. Til samanburðar eru 1.000 taldir vinnuþrælar í allri Danmörku og aðeins 900 í Noregi. Setja má fyrirvara við nákvæmni þessarar niðurstöðu en tíðar fréttir af grun lögreglu um vinnumansal staðfesta að slíkt er staðreynd hér á landi og stórt vandamál. Á málþingi innanríkis- og utanríkisráðuneytanna í samstarfi við lögregluna um mansal sem haldið var í lok maí var það niðurstaða fundargesta að markvissra aðgerða sé þörf í baráttunni gegn mansali og nauðsynlegt að virkja sem flesta með fræðslu og vitundarvakningu. Niðurstaða fundarins er rétt. Ljóst er að mikillar fræðslu er þörf. Stjórnvöld hafa fyrir nokkru áttað sig á þessu. Innanríkisráðuneytið hefur staðið fyrir fræðsluátaki um land allt þar sem yfir tvö þúsund manns hafa setið fræðslufundi. ASÍ stendur í samstarfi við aðildarsamtök sín að verkefni gegn undirboðum á vinnumarkaði og svartri atvinnustarfsemi með yfirskriftinni Einn réttur – ekkert svindl. Þar er markmiðið að tryggja kjör og réttindi á íslenskum vinnumarkaði fyrir alla sem hér starfa, þar með talda útlendinga sem hingað koma og ungt fólk sem er að hefja þátttöku á vinnumarkaði. Eitt af stærstu vandamálunum í baráttunni við mansal er að þolendur þess gera sér oft og tíðum ekki grein fyrir stöðu sinni og að verið sé að brjóta á réttindum þeirra. Á málþingi ráðuneytanna sagði Alda Hrönn Jóhannsdóttir, aðallögfræðingur lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, að þolendur mansals hefðu oftast ekki hugmynd um hvað mansal er. Þá geta gerendur einnig verið fáfróðir um gjörðir sínar í lagalegu samhengi. Það má að minnsta kosti vona að fáir leggi upp með að fara út í mansal í rekstri sínum. En það er nauðsynlegt að allir sem með mannaforráð fara séu upplýstir um að það er stutt á milli þess að svindla örlítið á starfsfólki sem þekkir ekki rétt sinn og þar til svindlið er orðið markvisst, launin ólöglega lág, vinnutími of langur, vinnuaðstæður hættulegar og svo framvegis. Fleiri og fleiri virðast vera orðnir meðvitaðir um að þessi vandi er raunverulegur hér á landi og að allir þurfi að vera með mansalsgleraugun á nefinu til að slík brotastarfsemi festi ekki rætur. Á tímum þar sem erlent vinnuafl streymir til landsins er einkar mikilvægt að sofna ekki á verðinum og halda áfram að breiða út boðskapinn.Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 2. júní Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Fanney Birna Jónsdóttir Mest lesið Sagan að endurtaka sig í beinni Ingibjörg Þóra Haraldsdóttir Skoðun Hin heimtufreka kennarastétt Áslaug Pálsdóttir Ragnheiðardóttir Skoðun Er leikskólinn ekki meira virði? Bryndís Björk Eyþórsdóttir Skoðun Halldór 25.01.2025 Halldór Hinn vandrataði vegur að starfslokum Ástríður Þórey Jónsdóttir Skoðun Að hengja bakara fyrir smið Rakel Linda Kristjánsdóttir Skoðun Svar til lögmanns SFS Magnús Guðmundsson Skoðun Þingmaðurinn og spillingin á Veðurstofunni Sigurgeir Bárðarson Skoðun Þjóðarátak í umönnun eldra fólks Einar Magnússon ,Þráinn Þorvaldsson Skoðun Hvers virði eru vísindi? Heiða María Sigurðardóttir,Erna Magnúsdóttir Skoðun
Enn eitt mansalsmálið er nú til rannsóknar hjá lögreglu, nú meint vinnumansal hjá starfsmanni Félags heyrnarlausra. Hvað á endanum reynist rétt og rangt í því einstaka máli er fyrir lögregluyfirvöld og dómstóla að skera úr um en fljótlega verður hægt að tala um mansalsfaraldur hér á landi. Hver fréttin af meintu vinnumansali hér og þar á landinu rekur aðra, víðs vegar um landið og í hinum ýmsu atvinnugreinum. Ísland er í 49. sæti á heimsvísu í nýrri skýrslu Global Slavery Index sem kom út í fyrradag. Ísland fær þar einkunnina B sem er með þeim lægstu í Vestur-Evrópu þegar kemur að því hvernig stjórnvöld taka á þrælahaldi en talið er að á Íslandi séu 400 vinnuþrælar. Til samanburðar eru 1.000 taldir vinnuþrælar í allri Danmörku og aðeins 900 í Noregi. Setja má fyrirvara við nákvæmni þessarar niðurstöðu en tíðar fréttir af grun lögreglu um vinnumansal staðfesta að slíkt er staðreynd hér á landi og stórt vandamál. Á málþingi innanríkis- og utanríkisráðuneytanna í samstarfi við lögregluna um mansal sem haldið var í lok maí var það niðurstaða fundargesta að markvissra aðgerða sé þörf í baráttunni gegn mansali og nauðsynlegt að virkja sem flesta með fræðslu og vitundarvakningu. Niðurstaða fundarins er rétt. Ljóst er að mikillar fræðslu er þörf. Stjórnvöld hafa fyrir nokkru áttað sig á þessu. Innanríkisráðuneytið hefur staðið fyrir fræðsluátaki um land allt þar sem yfir tvö þúsund manns hafa setið fræðslufundi. ASÍ stendur í samstarfi við aðildarsamtök sín að verkefni gegn undirboðum á vinnumarkaði og svartri atvinnustarfsemi með yfirskriftinni Einn réttur – ekkert svindl. Þar er markmiðið að tryggja kjör og réttindi á íslenskum vinnumarkaði fyrir alla sem hér starfa, þar með talda útlendinga sem hingað koma og ungt fólk sem er að hefja þátttöku á vinnumarkaði. Eitt af stærstu vandamálunum í baráttunni við mansal er að þolendur þess gera sér oft og tíðum ekki grein fyrir stöðu sinni og að verið sé að brjóta á réttindum þeirra. Á málþingi ráðuneytanna sagði Alda Hrönn Jóhannsdóttir, aðallögfræðingur lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, að þolendur mansals hefðu oftast ekki hugmynd um hvað mansal er. Þá geta gerendur einnig verið fáfróðir um gjörðir sínar í lagalegu samhengi. Það má að minnsta kosti vona að fáir leggi upp með að fara út í mansal í rekstri sínum. En það er nauðsynlegt að allir sem með mannaforráð fara séu upplýstir um að það er stutt á milli þess að svindla örlítið á starfsfólki sem þekkir ekki rétt sinn og þar til svindlið er orðið markvisst, launin ólöglega lág, vinnutími of langur, vinnuaðstæður hættulegar og svo framvegis. Fleiri og fleiri virðast vera orðnir meðvitaðir um að þessi vandi er raunverulegur hér á landi og að allir þurfi að vera með mansalsgleraugun á nefinu til að slík brotastarfsemi festi ekki rætur. Á tímum þar sem erlent vinnuafl streymir til landsins er einkar mikilvægt að sofna ekki á verðinum og halda áfram að breiða út boðskapinn.Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 2. júní