Gagnrýni

Í leit að tengingu

Sigríður Jónsdóttir skrifar
Úr sýningunni Sími látins manns í Tjarnarbíói.
Úr sýningunni Sími látins manns í Tjarnarbíói.
Leikhús

Sími látins manns eftir Söruh Ruhl

Leikhópurinn BLINK

Tjarnarbíó og Listahátíð Reykjavíkur

Leikstjórn: Charlotte Bøving

Leikarar: María Dalberg, Kolbeinn Arnbjörnsson, Halldóra Rut Baldursdóttir og Elva Ósk Ólafsdóttir

Leikmynd og búningahönnun: Fanney Sizemore

Ljósahönnun: Arnar Ingólfsson

Tónlist: Ragnhildur Gísladóttir

Þýðing: Ingólfur Eiríksson og Matthías Tryggvi Haraldsson



Á tómlegu kaffihúsi hringir sími. Eigandi hans svarar ekki. Hann er látinn. Annar kaffihússgestur tekur upp símann og svarar. Síðastliðinn mánudag frumsýndi leikhópurinn BLINK í samstarfi við Tjarnarbíó og Listahátíð í Reykjavík leikverkið Sími látins manns eftir bandaríska leikskáldið Söruh Ruhl. Þetta í fyrsta sinn sem hennar verk eru tekin til sýningar hér á landi en hún er þekkt í heimalandi sínu fyrir að skoða hversdagsleikann frá goðsagnakenndu sjónarhorni.

Nína er taugatrekkt kona sem tekur þá ákvörðun að taka síma látins manns í sína vörslu, svara í hann og hitta þá sem í hann hringja. Þessi þroskasaga er áhugaverð í fyrstu en þegar líða tekur á kemur í ljós að áhorfendur fá aldrei að kynnast aðalpersónunni. Hún virðist ekki eiga sér neitt líf, hvorki hið innra né ytra. María Dalberg skilar vandræðalegheitum Nínu vel en er föst í sama ástandinu alla sýninguna.

Sama vandamál þjakar aukapersónur verksins, þau eru skissur af fólki frekar en persónur í stöðugri þróun. Kolbeinn Arnbjörnsson leikur þá bræður Hjört og Bolla en tollir illa í ýktum persónunum þrátt fyrir ágæta spretti. Elva Ósk Ólafsdóttir virðist leika persónu úr öðru og betra leikriti sem fjallar um Gloriu Swanson eftirhermu. Gloria Swanson dó fyrir rúmum þrjátíu árum, vísunin er bæði undarleg og á skjön við verkið. Elva Ósk týnist algjörlega í fyrirferðarmikilli gullmúnderingunni og fær takmarkað verkefni upp í hendurnar. Svipaða sögu má segja um Halldóru Rut Baldursdóttir og hlutverkin hennar en hún leikur hjákonu og eiginkonu hins látna. Þær birtast áhorfendum sem einhvers konar kventáknmyndir en fyrir utan klisjukennt drykkjuatriði fær Halldóra Rut lítið að gera.

Sími látins manns fjallar um líf og dauða, eftirsjá og ást, siðferði og syndir en sáralítið af þessum átökum er sýnilegt á sviðinu. Leikstjóri sýningarinnar, Charlotte Bøving, nær aldrei að kveikja undir textanum né skapa snerpu á sviðinu, stílfærslurnar eru undarlegar og danshreyfingarnar vekja furðu frekar en umhugsun. Þýðing þeirra Ingólfs Eiríkssonar og Matthíasar Tryggva Haraldssonar er þokkaleg en þeir virðast eiga í vandræðum með staðfærsluna. Gerð er tilraun til að færa söguþráðinn til Íslands en það gengur illa upp og er nánast ónauðsynlegt. Verkið þeysist um víðan völl á mörkum hins raunverulega en höfundur og leikhópurinn kafa aldrei nægilega djúpt í hugðarefnin, heldur skauta frekar á yfirborðinu.

Ekki hjálpar að leikmyndahönnun Fanneyjar Sizemore er harla flöt og notast við tölvugrafík til að skapa andrúmsloft. Þótt myndræna framsetningin sé ágæt þá kviknar sjaldan sviðsbært líf út frá tölvuteiknuðum leikmyndum. Hún verður fljótlega leiðigjörn og dregur athyglina að öðrum göllum leikmyndarinnar sem samanstendur af nokkrum færanlegum leikmunum. Sömuleiðis eru búningarnir sviplitlir nema ef vera skyldi gullklæðnaður frú Gottlieb sem hæfir sýningunni engan veginn. Björtu punktar sýningarinnar eru lýsingin og tónlistin. Ljósahönnun Arnars Ingólfssonar brýtur upp flatlendi framvindunnar með fínum áherslum og tónlist Ragnhildar Gísladóttur er hressandi, ekki síst hljóðmyndin.

Hér vantar undirbygginguna í verkið, stílbrotin stuða aldrei og endirinn seilist býsna langt út fyrir þolmörk væmninnar. Sýningin er hvorki nægilega fyndin né dramatísk. Sími látins manns reynir að spenna út hugmyndir áhorfenda um heiminn sem þeir búa í en staðfestir frekar vondar bábiljur um takmörk leiklistarinnar. 

Niðurstaða: Síminn hringir en það er enginn heima.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 28. maí 2016.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.