Bíó og sjónvarp

Herbílar úr Fast 8 á uppboði í Garðabæ

Bjarki Ármannsson skrifar
Vin Diesel, helsta stjarna Fast and the Furious-kvikmyndabálksins, hefur mögulega þurft að etja kappi við illmenni á þessum bílum.
Vin Diesel, helsta stjarna Fast and the Furious-kvikmyndabálksins, hefur mögulega þurft að etja kappi við illmenni á þessum bílum. Vísir
Þrír bílar sem notaðir voru við tökur á hasarmyndinni Fast 8 hér á landi eru nú á uppboði hjá Króki í Garðabæ. Bílarnir voru sérstaklega fluttir til landsins fyrir tökurnar.

„Það var bara óskað eftir því að við prufuðum að setja þetta á uppboð,“ segir Gísli Jónsson, framkvæmdastjóri Króks. „Það er eiginlega verið að láta örlög þessara tækja ráðast, hvort þetta verður tollafgreitt og selt eða hvort þetta fer þá bara úr landi eða verður pressað.“

Myndir af bílunum hafa vakið nokkra athygli á Facebook. Allir þrír eru stórir og rúmgóðir og hafa á sér gamaldags hernaðarbrag.

„Þetta eru svona bara einhverjir Rússajeppar, sko,“ segir Gísli, aðspurður um uppruna bílanna. „Þetta er kannski ekki neitt alvöru „military stuff.““

Sjá einnig: Herþyrlur, skriðdreki og hraðskreiðir bílar á Akranesi við tökur á Fast 8

Uppboðinu líkur annað kvöld. Samkvæmt uppboðsvefnum hafa borist tilboð í alla bílana þrjá, þó ekkert yfir lágmarksverði. Gísli segist telja ágætis líkur á að það náist að selja bílana.

„Við höfum selt allt mögulegt í gegnum þennan uppboðsvef, kannski ekki beint bíla eins og þessa, en það eru ólíklegustu hlutir sem hafa komið hingað og verið seldir,“ segir hann. „Það er allt frá smáhlutum og upp í fasteignir.“


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×