Fótbolti

Ögmundur skaut Hammarby í undanúrslit

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Ögmundur var hetjan í kvöld.
Ögmundur var hetjan í kvöld. mynd/aikfotboll.se
Hammarby komst í kvöld í undanúrslit sænsku bikarkeppninnar í fótbolta eftir sigur á öðru Íslendingaliði, AIK, á Vinavöllum í Stokkhólmi í kvöld. Úrslitin réðust í vítaspyrnukeppni

Þessi lið eru miklir erkifjendur og því voru 24.000 manns mættir með mikil læti í hina glæsilegu fótboltahöll Svía, Friends Arena, til að sjá þennan bikarleik Stokkhólmsliðanna.

Allir fjórir Íslendingar voru í byrjunarliðunum. Ögmundur Kristinsson stóð vaktina í marki Hammarby að vanda, Birkir Már Sævarsson var í hjarta varnarinnar og Arnór Smárason í framlínunni. Haukur Heiðar Hauksson var svo eins og alltaf í hægri bakverði AIK.

Arnór Smárason kom Hammarby yfir með mögnuðu marki á 45. mínútu, en hann klippti þá boltann viðstöðulaust í netið eftir langa sendingu inn á teiginn.

Gestirnir voru því marki yfir í hálfleik en hollenski miðvörðurinn Jos Hooiveld jafnaði metin, 1-1, með skallamarki eftir aukaspyrnu á 61. mínútu og það urðu lokatölur. Eftir markalausa framlengingu þurfti að grípa til vítaspyrnukeppni.

Markverðir liðanna voru báðir líklegir til afreka. Íslenski landsliðsmarkvörðurinn Ögmundur Kristinsson hefur ávallt verið mikill vítabani og Patrik Carlgren, markvörður AIK, varði tvær spyrnu í vítaspyrnukeppni úrslitaleiks EM U21 árs landsliða í fyrra þegar Svíar lögðu Portúgal í úrslitaleik.

Carlen varði fyrstu spyrnu gestanna en leikmenn AIK skutu svo bæði í stöng og yfir. Arnór Smárason skoraði fyrir Hammarby sem og Ögmundur Kristinsson sem tók síðustu spyrnuna og skaut Hammarby í undanúrslitin þar sem liðið mætir Häcken.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×