Bíó og sjónvarp

Þrettán mínútum frá því að drepa Hitler

Magnús Guðmundssson skrifar
Hrönn Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri Bíós Paradísar, segir Þýska kvikmyndadaga vera þá allra vinsælustu á hverju starfsári.
Hrönn Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri Bíós Paradísar, segir Þýska kvikmyndadaga vera þá allra vinsælustu á hverju starfsári. Visir/GVA
„Þetta er í sjötta sinn sem við stöndum fyrir Þýskum kvikmyndadögum og þetta eru langvinsælustu kvikmyndadagarnir á hverju einasta ári í Bíói Paradís,“ segir Hrönn Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri Bíós Paradísar.

„Það er mjög þéttur og flottur kjarni sem hefur einstakt dálæti á þýskri kvikmyndagerðarlist sem mætir alltaf. Þetta eru fyrstu kvikmyndadagarnir sem var byrjað með í Bíói Paradís og við höfum alveg frá upphafi gert þetta í góðu samstarfi við Goethe-stofnunina og þýska sendiráðið. Þetta hefur alltaf tekist ákaflega vel enda höfum við alltaf leitast við að hafa þetta fjölbreytt. Erum að sýna það ferskasta og besta en með áherslu á fjölbreytni þannig að allir geti fundið eitthvað við sitt hæfi.

Mér finnst ákaflega erfitt að gera upp á milli myndanna sem við erum með í ár. Við erum með sex nýjar og spennandi myndir sem eru þverskurður af því besta sem þýsk kvikmyndagerð hefur að bjóða. Það er líka rétt að fólk viti af því að það er enskur texti á öllum myndunum svona fyrir þá sem eru ekkert of sterkir í þýskunni.“

„Ég er sérstaklega spennt að sjá opnunarmyndina 13 mínútur, Elser en hún fjallar um manninn sem reyndi að drepa Hitler og tókst það næstum því. Það hefði að öllum líkindum gengið ef hann hefði haft þrettán mínútur til viðbótar. Myndinni er leikstýrt af Oliver Hirsch­biegel sem frægur er fyrir kvikmyndina Downfall þannig að það er ljóst að hann er góður í að sýna þennan svarta tíma í þýskri sögu og er eiginlega algjör Hitlersérfræðingur en þetta er margverðlaunuð mynd.“

„Phoenix finnst mér líka vera mjög spennandi og fólk hefur borið henni ákaflega vel söguna. Svo er mynd þarna sem heitir We are Young. We are Strong (Wir Sind Jung. Wir Sind Stark) og tekst á við viðfangsefni sem er ofarlega á baugi þessa dagana.

Hún fjallar um hvernig nýnasistarnir urðu til í Þýskalandi, uppruna þeirra og uppgang, en þremur árum eftir fall Berlínarmúrsins hófust miklar óeirðir gegn innflytjendum í borginni Rostock í Austur-Þýskalandi. Árásir voru gerðar á flóttamannabúðir í jaðri borgarinnar. Þremur dögum eftir árásirnar náði þessi ólga hámarki þegar þrjú þúsund mótmælendur, nýnasistar, kveiktu í búðum þar sem Víetnamar höfðust við.

Myndin er byggð á þessum atburðum og er afar sjónræn og spennandi reynsla. Þetta er svart-hvít mynd þar sem leikstjórinn, Burhan Qurbani, leyfir hverju skoti að lifa og nær að láta senurnar skila reiðinni og kraftinum sem ólgaði undir í samfélaginu. Mjög spennandi mynd.“

„Svo erum við að sýna eina alveg geggjaða mynd sem heitir B-Movie: Lust & Sound in West Berlin 1979-1989. Þetta er svona tónlistar- og tíðarandaveisla með alveg æðislegu myndefni. Þetta var svo geggjaður tími í Berlín sem var eins og útgáfa af New York á þessum árum og stemningin greinilega alveg mögnuð, Nick Cave í banastuði og allt að gerast. Þannig að það er bara um að gera að koma og njóta.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×