Bíó og sjónvarp

Stærsta stjarnan er ólíklegasta kyntáknið

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Ólafur Darri í hlutverki Andra í Ófærð
Ólafur Darri í hlutverki Andra í Ófærð mynd/rvk studios
Ólafur Darri Ólafsson er með skegg sem minnir á furuskóg og göngulag sem minnir á björn ef marka má lýsingu blaðamanns Guardian á leikaranum en hann er í viðtali á vef blaðsins í dag ásamt Baltasar Kormáki, leikstjóra.

 

Fyrirsögn viðtalsins er „Hann er stór, loðinn og kynþokkafyllsti maður Íslands,“ en tilefnið er sýning sjónvarpsþáttanna Ófærð sem sýnd er á laugardagskvöldum í Bretlandi á sjónvarpsstöðinni BBC 4. Eins og flestir Íslendingar ættu að kannast við fer Ólafur Darri með hlutverk lögreglustjórans Andra í þáttunum. Í greininni er Ólafur Darri sagður stærsta stjarna Íslands og ólíklegasta kyntákn landsins.

„Hann er eins og einn af fjöllunum í firðinum,“ er haft eftir Baltasar Kormáki sem segist ekki hafa viljað hafa aðalpersónuna hefðbundna þrátt fyrir þrýsting þar um.

„Ólafur Darri var alltaf mitt fyrsta val. Hann hefur orðið nokkurs konar Gérard Depardieu Íslands. Konur elska hann, hvort sem þú trúir því eða ekki,“ segir Baltasar.

Ólafur Darri segist hafa sótt innblástur til föður síns við túlkunina á Andramynd/rvk studios
Ólafur Darri segir Andra á skrýtnum stað í lífinu.

„Hann er greinilega alltof hæfur lögreglumaður fyrir þennan litla bæ og virðist ekki passa þarna inn. En svo er framið morð og þú sérð hvernig það kviknar á honum. Það er eins og að það vakni eitthvað innra með honum,“ segir Ólafur Darri.

Hann lýsir svo íslenskum karlmönnum og segir þá mjög lokaða og sjaldan sýna tilfinningar. Leikarinn viðurkennir svo fyrir blaðamanni Guardian að hafa sótt innblástur til föður síns við túlkun sína á Andra.

„Ég hef aldrei séð hann gráta og hann gefur afar sjaldan eitthvað upp en hann getur notað þögnina á mjög áhrifaríkan þátt. Ég hef ekki sagt honum þetta enn en ég geri það þegar sýningum á þættinum lýkur á Íslandi. Ég er viss um að hann verður stoltur.“


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×