Sigríður var frekar stressuð áður en hún steig á svið en fór þangað að lokum. Það vakti kátínu hjá Emmsjé Gauta þegar hún tjáði honum að hún ætlaði að rappa og hrifning dómaranna var ekki minni.
„Ég hef samið ljóð frá unga aldri og síðar þróaðist það áfram út í hip hop. Ég valdi þessa tónlistarstefnu einfaldlega af því að í hip hop því að þar þarf ekki að sykurhúða neitt eða ferga það. Raunveruleikinn er nefnilega ekki alltaf fallegur,“ segir Sigríður í samtali við Vísi.

Stefnir að því að verða húðflúrari
Sigríður er langt frá því að vera ókunnug rappinu því árið 2014 tók hún þátt í Rímnaflæði, sem er rappkeppni Samfés, og bar sigur úr býtum. Að auki er hún afbragðs skytta en í fyrra var hún valin skotkona Reykjanesbæjar eftir að hún varð Íslandsmeistari með loftriffli í sínum flokki. Að sögn Margrétar Eysteinsdóttur, móður stúlkunnar, er hún afar flink í flestu því sem hún tekur sér fyrir hendur.
„Að auki teiknar hún og málar. Ég er alveg gífurlega stolt af henni. Hún hefur róið að þessu frá því hún lærði að skrifa en hún hefur alltaf verið að yrkja ljóð. Ég held það sé afar sérstakt miðað við aldur hve viss hún er um framtíð sína,“ segir Margrét.
Sigríður stundar nám við Fjölbrautarskóla Suðurnesja þar sem hún er á almennri listabraut. Að námi loknu stefnir hún að því að verða húðflúrari en það einsetti hún sér fyrir rúmum fjórum árum síðan.
„Ef það skyldi fara svo að ég standi uppi sem sigurvegari í Ísland Got Talent myndi ég vilja gefa eins mikið af mér og ég get til samfélagsins. Það væri alls ekki svo að allt verðlaunaféð færi í mig. Ég myndi vilja hjálpa öðrum,“ segir hún að lokum.
Líkt og áður segir heillaði Sigríður dómarana upp úr skónum og má sjá frammistöðu hennar í spilaranum hér fyrir ofan.