Útungunarvél úr plasti eða nýjasti femínistinn? Sif Sigmarsdóttir skrifar 8. maí 2015 07:00 Á árunum í kringum frelsisstríðið í Bandaríkjunum sagði Thomas Paine konungsveldi lítilsvirðingu við „sæmd og reisn mannkynsins“. En nú, rúmum tvö hundruð árum síðar, er komið annað hljóð í strokkinn. „Það er okkur Michelle sönn ánægja að óska hertoganum og hertogaynjunni af Cambridge, drottningunni, konungsfjölskyldunni og breskum almenningi til hamingju með fæðingu nýrrar prinsessu,“ sagði í yfirlýsingu frá forseta Bandaríkjanna sem fór fremstur í flokki í slag þjóðarleiðtoga um að fá að fagna nýlegri fjölgun í bresku konungsfjölskyldunni. Breska krúnan stóð ekki aðeins af sér byltingartilburði átjándu aldar og hélt höfði; hún fangaði huga og hjörtu heimsbyggðarinnar. Eða það var allavega boðskapur breskra fjölmiðla sem sýndu beint frá lokuðum dyrum Lindo-álmu St. Mary-spítalans í London klukkutímum saman þar sem Katrín prinsessa fæddi Vilhjálmi Bretaprinsi dóttur síðastliðinn laugardag. Svo virðist sem breska konungsfjölskyldan geti ekki gert neitt rangt um þessar mundir. Fréttir af fæðingu Karlottu Elísabetar Díönu prinsessu voru vinsælli en fréttir af nýjustu sjálfsmynd Kim Kardashian og hugsanlegri endurkomu hljómsveitarinnar Spice Girls. Af ákafa fjölmiðla að dæma hefði mátt ætla að sjálfur frelsarinn væri fæddur. Eitt vakti hins vegar meiri athygli en barnið sjálft hjá þeim sem lýstu lokuðu spítaladyrunum af jafnmiklum hita og íþróttafréttamenn lýsa fótboltaleik. „Hvílíkt hugrekki,“ hrópaði fjölmiðlafólkið upp yfir sig þegar Katrín af Cambridge gekk loks út af spítalanum og veifaði. Tilefni upphrópananna var mittismál nýbakaðrar móðurinnar.Á bikiníi í lestarstöðinni Nokkrum dögum fyrr hafði annað mitti valdið heitum deilum í Bretlandi. Veggi allra helstu lestarstöðva Lundúnaborgar þakti skyndilega plakat af kinnfiskasoginni konu í efnislitlu bikíníi sem leit út fyrir að hafa síðast innbyrt heila máltíð um svipað leyti og nýja prinsessan var getin. „Er líkami þinn tilbúinn fyrir ströndina?“ stóð stórum stöfum á plakatinu sem var auglýsing frá fyrirtæki sem selur megrunar- og próteinduft. Auglýsingin og mittismjó konan í henni fóru fyrir brjóstið á lestarfarþegum sem tóku málin í sínar hendur. Fólk fór að skrifa sín eigin skilaboð á auglýsingaplakötin. „Þú ert glæsileg eins og þú ert.“ „Hættum að hvetja konur til að svelta sig.“ Eigandi fyrirtækisins hafði greinilega ekki kynnt sér strauma og stefnur í almannatengslum. Hann mætti í helstu fjölmiðla og sagði fólk sem kvartaði yfir auglýsingunni vera „hryðjuverkamenn“. 70.000 manns skrifuðu undir undirskriftalista til að mótmæla auglýsingaherferðinni í kjölfarið. Fyrirtækið brást við á samfélagsmiðlinum Twitter: „Þetta er ekki femínismi heldur ofstæki.“ Boðað var til mótmæla til höfuðs fyrirtækinu í Hyde Park.Einbeittur brotavilji Þegar Katrín hertogaynja af Cambridge gekk út af spítalanum nokkrum klukkustundum eftir að hún átti annað barn sitt sást glitta í ummerki þess að hún væri með maga. Hlaut hún mikið hrós fyrir. „Það er mikið hugrekki hjá henni að leyfa þessu að sjást,“ gall í hverjum þáttastjórnandanum á fætur öðrum. Eins og hún ætti einhverra kosta völ. Nokkrum klukkustundum fyrr hafði hún verið ólétt og komin níu mánuði á leið. Prinsessur eru í tísku. Þær eru heilagar, ósnertanlegar, nánast hafnar yfir gagnrýni. Ekki alls fyrir löngu vogaði einn virtasti rithöfundur Breta, Hilary Mantel, sér að lýsa hertogaynjunni af Cambridge sem persónuleikalausri plastgínu, útungunarvél sem sett hafði verið saman af nefnd. Fjölmiðlar létu rithöfundinn hafa það svo óþvegið að Mantel hlýtur að hafa velt fyrir sér hvort hún myndi nokkurn tímann selja eina einustu bók aftur. Fjölmiðlar kusu að snúa maga Katrínar prinsessu upp í femíníska yfirlýsingu, gjörning sem krafðist hugrekkis. Það þarf einbeittan brotavilja og mikinn hæfileika til sjálfsblekkingar til að láta eins og konur heimsins hafi öðlast í Katrínu nýja og sterka femíníska fyrirmynd. Þvert á móti. Þrátt fyrir magann ætla ég að leyfa mér að fullyrða að framganga Katrínar eftir barnsburð sé jafnskaðleg sjálfsmynd kvenna og sveltandi súpermódelið í lestarstöðvum Lundúna. Ranghugmyndir um að konur líti út eins og Disney-prinsessur fimm mínútum eftir barnsburð, að þær séu mættar í lagningu eftir tíu, gymmið eftir fimmtán og fari svo heim að baka sykurlausar sætkartöflu-brownies með annarri hendi og strauja einnota bleiur með hinni eru útbreiddar. Ef Katrín væri í alvörunni hugrökk hefði hún komið til dyranna eins og hún var klædd. Bókstaflega. Hún hefði komið til dyranna eins og allar konur eru klæddar sem eru nýbúnar að fæða barn: Í joggingbuxum frá aldamótum og stuttermabol með mörgum varanlegum lögum af svitablettum í handarkrikunum. Hún hefði ekki haft hárgreiðslumeistara í læknateyminu og sérsaumaðan kjól og háhælaða skó í fæðingartöskunni. Ef hún væri hugrökk hefði hún gert það eina rökrétta í stöðunni þegar hún sá fólkið sem beið þess að fá að góna á hana fyrir utan spítalann; hún hefði gefið því fingurinn og hrópað: „Hunskist heim til ykkar, furðufuglarnir ykkar.“ En konungssinnar geta varpað öndinni léttar. Konungsveldið heldur í hefðirnar – og átjándu öldina. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Sif Sigmarsdóttir Mest lesið Vegna greinar Snorra Mássonar Guðmundur Andri Thorsson Skoðun Viljum við að erlendir milljarðamæringar setji einhliða leikreglurnar í almannarýminu okkar? Elfa Ýr Gylfadóttir Skoðun Hefjum aðildarviðræður við Bandaríkin Einar Jóhannes Guðnason Skoðun Af hverju eru kennarar að fara í verkfall? Anton Már Gylfason Skoðun Val Vigdísar Skúli Ólafsson Skoðun Vísvita villandi fréttaflutningur Morgunblaðsins? Sigurjón Þórðarson Skoðun Árið 1975 er að banka Rakel Linda Kristjánsdóttir Skoðun Eru tengsl milli Úkraínustríðsins og breyttrar stöðu Grænlands? Hilmar Þór Hilmarsson Skoðun Hafa fyrrum æskunnar eftirlætisbörn og nú ellinnar olnbogabörn fengið nóg? Gunnar Ármannsson Skoðun Kennarar segja: „Nóg komið!“ – Verkfall fyrir virðingu og verðskulduð réttindi Jónas Sen Skoðun
Á árunum í kringum frelsisstríðið í Bandaríkjunum sagði Thomas Paine konungsveldi lítilsvirðingu við „sæmd og reisn mannkynsins“. En nú, rúmum tvö hundruð árum síðar, er komið annað hljóð í strokkinn. „Það er okkur Michelle sönn ánægja að óska hertoganum og hertogaynjunni af Cambridge, drottningunni, konungsfjölskyldunni og breskum almenningi til hamingju með fæðingu nýrrar prinsessu,“ sagði í yfirlýsingu frá forseta Bandaríkjanna sem fór fremstur í flokki í slag þjóðarleiðtoga um að fá að fagna nýlegri fjölgun í bresku konungsfjölskyldunni. Breska krúnan stóð ekki aðeins af sér byltingartilburði átjándu aldar og hélt höfði; hún fangaði huga og hjörtu heimsbyggðarinnar. Eða það var allavega boðskapur breskra fjölmiðla sem sýndu beint frá lokuðum dyrum Lindo-álmu St. Mary-spítalans í London klukkutímum saman þar sem Katrín prinsessa fæddi Vilhjálmi Bretaprinsi dóttur síðastliðinn laugardag. Svo virðist sem breska konungsfjölskyldan geti ekki gert neitt rangt um þessar mundir. Fréttir af fæðingu Karlottu Elísabetar Díönu prinsessu voru vinsælli en fréttir af nýjustu sjálfsmynd Kim Kardashian og hugsanlegri endurkomu hljómsveitarinnar Spice Girls. Af ákafa fjölmiðla að dæma hefði mátt ætla að sjálfur frelsarinn væri fæddur. Eitt vakti hins vegar meiri athygli en barnið sjálft hjá þeim sem lýstu lokuðu spítaladyrunum af jafnmiklum hita og íþróttafréttamenn lýsa fótboltaleik. „Hvílíkt hugrekki,“ hrópaði fjölmiðlafólkið upp yfir sig þegar Katrín af Cambridge gekk loks út af spítalanum og veifaði. Tilefni upphrópananna var mittismál nýbakaðrar móðurinnar.Á bikiníi í lestarstöðinni Nokkrum dögum fyrr hafði annað mitti valdið heitum deilum í Bretlandi. Veggi allra helstu lestarstöðva Lundúnaborgar þakti skyndilega plakat af kinnfiskasoginni konu í efnislitlu bikíníi sem leit út fyrir að hafa síðast innbyrt heila máltíð um svipað leyti og nýja prinsessan var getin. „Er líkami þinn tilbúinn fyrir ströndina?“ stóð stórum stöfum á plakatinu sem var auglýsing frá fyrirtæki sem selur megrunar- og próteinduft. Auglýsingin og mittismjó konan í henni fóru fyrir brjóstið á lestarfarþegum sem tóku málin í sínar hendur. Fólk fór að skrifa sín eigin skilaboð á auglýsingaplakötin. „Þú ert glæsileg eins og þú ert.“ „Hættum að hvetja konur til að svelta sig.“ Eigandi fyrirtækisins hafði greinilega ekki kynnt sér strauma og stefnur í almannatengslum. Hann mætti í helstu fjölmiðla og sagði fólk sem kvartaði yfir auglýsingunni vera „hryðjuverkamenn“. 70.000 manns skrifuðu undir undirskriftalista til að mótmæla auglýsingaherferðinni í kjölfarið. Fyrirtækið brást við á samfélagsmiðlinum Twitter: „Þetta er ekki femínismi heldur ofstæki.“ Boðað var til mótmæla til höfuðs fyrirtækinu í Hyde Park.Einbeittur brotavilji Þegar Katrín hertogaynja af Cambridge gekk út af spítalanum nokkrum klukkustundum eftir að hún átti annað barn sitt sást glitta í ummerki þess að hún væri með maga. Hlaut hún mikið hrós fyrir. „Það er mikið hugrekki hjá henni að leyfa þessu að sjást,“ gall í hverjum þáttastjórnandanum á fætur öðrum. Eins og hún ætti einhverra kosta völ. Nokkrum klukkustundum fyrr hafði hún verið ólétt og komin níu mánuði á leið. Prinsessur eru í tísku. Þær eru heilagar, ósnertanlegar, nánast hafnar yfir gagnrýni. Ekki alls fyrir löngu vogaði einn virtasti rithöfundur Breta, Hilary Mantel, sér að lýsa hertogaynjunni af Cambridge sem persónuleikalausri plastgínu, útungunarvél sem sett hafði verið saman af nefnd. Fjölmiðlar létu rithöfundinn hafa það svo óþvegið að Mantel hlýtur að hafa velt fyrir sér hvort hún myndi nokkurn tímann selja eina einustu bók aftur. Fjölmiðlar kusu að snúa maga Katrínar prinsessu upp í femíníska yfirlýsingu, gjörning sem krafðist hugrekkis. Það þarf einbeittan brotavilja og mikinn hæfileika til sjálfsblekkingar til að láta eins og konur heimsins hafi öðlast í Katrínu nýja og sterka femíníska fyrirmynd. Þvert á móti. Þrátt fyrir magann ætla ég að leyfa mér að fullyrða að framganga Katrínar eftir barnsburð sé jafnskaðleg sjálfsmynd kvenna og sveltandi súpermódelið í lestarstöðvum Lundúna. Ranghugmyndir um að konur líti út eins og Disney-prinsessur fimm mínútum eftir barnsburð, að þær séu mættar í lagningu eftir tíu, gymmið eftir fimmtán og fari svo heim að baka sykurlausar sætkartöflu-brownies með annarri hendi og strauja einnota bleiur með hinni eru útbreiddar. Ef Katrín væri í alvörunni hugrökk hefði hún komið til dyranna eins og hún var klædd. Bókstaflega. Hún hefði komið til dyranna eins og allar konur eru klæddar sem eru nýbúnar að fæða barn: Í joggingbuxum frá aldamótum og stuttermabol með mörgum varanlegum lögum af svitablettum í handarkrikunum. Hún hefði ekki haft hárgreiðslumeistara í læknateyminu og sérsaumaðan kjól og háhælaða skó í fæðingartöskunni. Ef hún væri hugrökk hefði hún gert það eina rökrétta í stöðunni þegar hún sá fólkið sem beið þess að fá að góna á hana fyrir utan spítalann; hún hefði gefið því fingurinn og hrópað: „Hunskist heim til ykkar, furðufuglarnir ykkar.“ En konungssinnar geta varpað öndinni léttar. Konungsveldið heldur í hefðirnar – og átjándu öldina.
Viljum við að erlendir milljarðamæringar setji einhliða leikreglurnar í almannarýminu okkar? Elfa Ýr Gylfadóttir Skoðun
Hafa fyrrum æskunnar eftirlætisbörn og nú ellinnar olnbogabörn fengið nóg? Gunnar Ármannsson Skoðun
Viljum við að erlendir milljarðamæringar setji einhliða leikreglurnar í almannarýminu okkar? Elfa Ýr Gylfadóttir Skoðun
Hafa fyrrum æskunnar eftirlætisbörn og nú ellinnar olnbogabörn fengið nóg? Gunnar Ármannsson Skoðun