Heljartak tómsins Sigríður Jónsdóttir skrifar 7. maí 2015 13:00 Þorsteinn Bachmann og Þór Tulinius í hlutverkum sínum í meistaraverki Becketts. Photographer.is/Geirix Endatafl Samuel Beckett Tjarnarbíó Leikendur Þorsteinn Bachmann, Þór Tulinius, Harpa Arnardóttir og Stefán Jónsson Sviðsetning, leikmynd og leikmunir: Kristín Jóhannesdóttir Þýðandi: Árni Ibsen Dramatúrg og endurskoðun þýðingar: Sigurður Pálsson Búningar: Þórunn María Jónsdóttir Lýsing: Halldór Örn Óskarsson Förðun: Kristín Thors Leikhópurinn Svipir ehf. kemur eins og skrattinn úr sauðarleggnum í lok leikárs en hópurinn frumsýndi Endatafl eftir Samuel Beckett í Tjarnarbíói síðustu helgi, en sýningin er hluti af Listahátíð í Reykjavík. Sviðsetningar á verkum írska Nóbelskáldsins eru ávallt tilhlökkunarefni, þá sérstaklega þegar tvíeykið Kristín Jóhannesdóttir og Sigurður Pálsson kemur við sögu, og mættu vera fleiri. Slíkur metnaður borgar sig margfalt í þetta skiptið, sýningin stenst ekki einungis allar væntingar heldur sprengir næstum því skalann: Endatafl er leikhúskonfekt af bestu gerð. Í drungalegu byrgi dvelja fjórar hrörnaðar persónur, allar ófærar á einn eða annan hátt um að yfirgefa baneitrað heimilisástandið, kannski ekki síst vegna þess að endalok jarðlífsins eru yfirvofandi, eða hafa mögulega nú þegar átt sér stað. Hamm og Clov kýta um tilgang tilverunnar á meðan Nagg og Nell kúldrast hvort í sinni tunnunni, rifja upp gamlar minningar og reyna að gráta til að gleyma. Þýðing Árna Ibsen myndar grunn handritsins en Sigurður Pálsson hefur endurskoðað textann að einhverju leyti og er líka dramatúrg sviðsetningarinnar. Betra teymi er varla hægt að óska sér, feilnótu er erfitt að finna en slík vinna telst vera þrekvirki því texti Becketts er þéttofinn og einstaklega krefjandi. Leikmyndin þjónar grunnleiðbeiningum Becketts í textanum; tunnurnar tvær, gluggarnir tveir og stiginn. En Kristín Jóhannesdóttir færir verkið inn á pólitískara svið með því að stilla upp lekandi olíutunnum aftast á sviðið, bréfi leikskáldsins frá árinu 1967 til varnar skáldinu Fernando Arrabal eftir handtöku þess er varpað á stóran skjá þar á ofan og olíumakað fuglshræ liggur fremst á sviðinu. Leikhópurinn er firnasterkur en einn einstaklingur stendur þó skrefinu framar en hinir. Þór Tulinius fremur leikrænan galdur í Endatafli, engin önnur orð duga en eru samt sem áður varla nægilega sterk til að undirstrika hversu ótrúleg frammistaða hans er í hlutverki Clov. Orð Clov til Hamm: „Ég ætla að yfirgefa þig,“ bergmála um sviðið, loforð og hótun í senn, en innantóm yfirlýsing. Frá fyrsta augnabliki þegar Þór birtist á sviðinu boginn og bugaður í stuttbuxum einum fata til að takast á við annan andskotans dag hittir augnaráðið beint í mark, óumflýjanlegt því varla má sjá Þór blikka í sýningunni. Clov er hið visnaða hjarta sýningarinnar en Þór kemur sífellt á óvart með virkilega góðri tímasetningu, magnaðri líkamsbeitingu og sótsvörtum húmor. Lokaræða hans gleymist seint, sársaukinn og eymdin sem Þór sýnir er svo átakanlega falleg að varla er hægt að ná andanum. Blinda harðstjórann Hamm leikur Þorsteinn Bachmann; hreyfingarlaus fyrir neðan mitti, ónothæfur til alls nema skipana og tilgangslaus með öllu. Hann er Kristur á koppnum, kóngur í tómu ríki og trónir á miðju sviðsins í hrörnuðum hjólastól. Þorsteinn hefur algjöra stjórn á textanum, finnur tilfinningaleg blæbrigði á óvæntustu stöðum og húmor í ísköldu fasi Hamm. Samband Hamm og Clov er þrumandi gott og grátlegt, Þorsteinn og Þór eru þar upp á sitt besta. Endurkomu Stefáns Jónssonar á leiksviðið ber að fagna sérstaklega en hann hefur einbeitt sér að leikstjórn síðustu misseri. Vonandi verður þetta ekki stutt stopp á fjölunum því hann er frábær í hlutverki hins niðursoðna Nagg. Tannlaus og hlekkjaður virðist hann lítil ógn en orð eru hættuleg og feðraveldið varandi vá. Samleikur Stefáns og Hörpu Arnardóttur, í hlutverki Nell, er gífurlega vel útfærður. Í þessu sambandi má enn þá finna ástarkorn, þó agnarsmátt, og þrátt fyrir heldur ófrýnileg gervi tekst þeim að sýna manneskjurnar, ekki ófreskjurnar. Saga Nagg um klæðskerann er kostuleg og grátbrosleg í senn, hreinn unaður að sjá tvo leikara vinna jafnvel saman. Búningarnir, hannaðir af Þórunni Maríu Jónsdóttur, eru grótesk snilld og ríma fullkomlega við sviðsetninguna. Förðun Kristínar Thors verður líka að nefna, þá sérstaklega gervi tunnuparsins og glæru linsurnar sem endurspegla tómið á snjallan hátt. Lýsingin er í höndum Halldórs Arnar Óskarssonar þar sem einfaldar og lágstemmdar lausnir eru í fyrirrúmi þrátt fyrir eina afgerandi breytingu sem ekki verður uppljóstrað hér. Kristín Jóhannesdóttir er magnaður leikstjóri og hugmyndasmiður: hún leikstýrir, sér um sviðsmyndina og líka leikmunina. Enginn efi leikur á að áhorfendur séu staddir í leikhúsi, sviðsetningin er römmuð inn af sýnilegum hliðarkösturum. Afstaðan til textans er skýr og útfærslan stórkostleg. Fyrir utan Adagio í g-moll eftir Tomaso Albinoni er engin tónlist í verkinu, engin hljóðmynd og þarf þor til að treysta textanum jafnvel og hún gerir í þessari sýningu. Endatafl, í afbragðsgóðri leikstjórn Kristínar Jóhannesdóttur, er ein af allra bestu sýningum leikársins, ef ekki sú besta. Harmrænn grátur og hlátur blandast saman í ómótstæðilega sýningu, því ekkert er hlægilegra en óhamingjan.Niðurstaða: Algjörlega ómissandi hágæðaleikhús. Göldróttur Þór Tulinius fremstur á meðal jafningja í gríðarsterkum leikhópi. Gagnrýni Listahátíð í Reykjavík Menning Mest lesið Datt í miðri sýningu á Ellý: „Eitt lélegasta fall leikhússögunnar“ Lífið „Þú varst að tala um Klausturmálið!“ Lífið Stúlkan með nálina: Hver gerir svona kvikmynd? Gagnrýni Heitustu tískuskvísur landsins fögnuðu Tíska og hönnun Eitt fallegasta hús landsins tilbúið Lífið Flytja frá Bandaríkjunum eftir sigur Trump Lífið Sigraði í alþjóðlegri kokteilakeppni á Kýpur Lífið Mikill sigur að geta opnað aftur í Kringlunni Lífið Biggi Maus tók einn þekktasta slagara Arons Can í fiskabúrinu Tónlist Gummi kíró kom Elísabetu til bjargar Jól Fleiri fréttir Stúlkan með nálina: Hver gerir svona kvikmynd? Ástkona njósnarans skildi eftir sig sjóðheit bréf Efni sem veldur uppköstum, yfirliðum og eilífri æsku The Bikeriders: Hvenær komum við í flugeldaverksmiðjuna!? Kælt niður í byrjun og svo búmm! DIMMA var flott en einhæf Sjá meira
Endatafl Samuel Beckett Tjarnarbíó Leikendur Þorsteinn Bachmann, Þór Tulinius, Harpa Arnardóttir og Stefán Jónsson Sviðsetning, leikmynd og leikmunir: Kristín Jóhannesdóttir Þýðandi: Árni Ibsen Dramatúrg og endurskoðun þýðingar: Sigurður Pálsson Búningar: Þórunn María Jónsdóttir Lýsing: Halldór Örn Óskarsson Förðun: Kristín Thors Leikhópurinn Svipir ehf. kemur eins og skrattinn úr sauðarleggnum í lok leikárs en hópurinn frumsýndi Endatafl eftir Samuel Beckett í Tjarnarbíói síðustu helgi, en sýningin er hluti af Listahátíð í Reykjavík. Sviðsetningar á verkum írska Nóbelskáldsins eru ávallt tilhlökkunarefni, þá sérstaklega þegar tvíeykið Kristín Jóhannesdóttir og Sigurður Pálsson kemur við sögu, og mættu vera fleiri. Slíkur metnaður borgar sig margfalt í þetta skiptið, sýningin stenst ekki einungis allar væntingar heldur sprengir næstum því skalann: Endatafl er leikhúskonfekt af bestu gerð. Í drungalegu byrgi dvelja fjórar hrörnaðar persónur, allar ófærar á einn eða annan hátt um að yfirgefa baneitrað heimilisástandið, kannski ekki síst vegna þess að endalok jarðlífsins eru yfirvofandi, eða hafa mögulega nú þegar átt sér stað. Hamm og Clov kýta um tilgang tilverunnar á meðan Nagg og Nell kúldrast hvort í sinni tunnunni, rifja upp gamlar minningar og reyna að gráta til að gleyma. Þýðing Árna Ibsen myndar grunn handritsins en Sigurður Pálsson hefur endurskoðað textann að einhverju leyti og er líka dramatúrg sviðsetningarinnar. Betra teymi er varla hægt að óska sér, feilnótu er erfitt að finna en slík vinna telst vera þrekvirki því texti Becketts er þéttofinn og einstaklega krefjandi. Leikmyndin þjónar grunnleiðbeiningum Becketts í textanum; tunnurnar tvær, gluggarnir tveir og stiginn. En Kristín Jóhannesdóttir færir verkið inn á pólitískara svið með því að stilla upp lekandi olíutunnum aftast á sviðið, bréfi leikskáldsins frá árinu 1967 til varnar skáldinu Fernando Arrabal eftir handtöku þess er varpað á stóran skjá þar á ofan og olíumakað fuglshræ liggur fremst á sviðinu. Leikhópurinn er firnasterkur en einn einstaklingur stendur þó skrefinu framar en hinir. Þór Tulinius fremur leikrænan galdur í Endatafli, engin önnur orð duga en eru samt sem áður varla nægilega sterk til að undirstrika hversu ótrúleg frammistaða hans er í hlutverki Clov. Orð Clov til Hamm: „Ég ætla að yfirgefa þig,“ bergmála um sviðið, loforð og hótun í senn, en innantóm yfirlýsing. Frá fyrsta augnabliki þegar Þór birtist á sviðinu boginn og bugaður í stuttbuxum einum fata til að takast á við annan andskotans dag hittir augnaráðið beint í mark, óumflýjanlegt því varla má sjá Þór blikka í sýningunni. Clov er hið visnaða hjarta sýningarinnar en Þór kemur sífellt á óvart með virkilega góðri tímasetningu, magnaðri líkamsbeitingu og sótsvörtum húmor. Lokaræða hans gleymist seint, sársaukinn og eymdin sem Þór sýnir er svo átakanlega falleg að varla er hægt að ná andanum. Blinda harðstjórann Hamm leikur Þorsteinn Bachmann; hreyfingarlaus fyrir neðan mitti, ónothæfur til alls nema skipana og tilgangslaus með öllu. Hann er Kristur á koppnum, kóngur í tómu ríki og trónir á miðju sviðsins í hrörnuðum hjólastól. Þorsteinn hefur algjöra stjórn á textanum, finnur tilfinningaleg blæbrigði á óvæntustu stöðum og húmor í ísköldu fasi Hamm. Samband Hamm og Clov er þrumandi gott og grátlegt, Þorsteinn og Þór eru þar upp á sitt besta. Endurkomu Stefáns Jónssonar á leiksviðið ber að fagna sérstaklega en hann hefur einbeitt sér að leikstjórn síðustu misseri. Vonandi verður þetta ekki stutt stopp á fjölunum því hann er frábær í hlutverki hins niðursoðna Nagg. Tannlaus og hlekkjaður virðist hann lítil ógn en orð eru hættuleg og feðraveldið varandi vá. Samleikur Stefáns og Hörpu Arnardóttur, í hlutverki Nell, er gífurlega vel útfærður. Í þessu sambandi má enn þá finna ástarkorn, þó agnarsmátt, og þrátt fyrir heldur ófrýnileg gervi tekst þeim að sýna manneskjurnar, ekki ófreskjurnar. Saga Nagg um klæðskerann er kostuleg og grátbrosleg í senn, hreinn unaður að sjá tvo leikara vinna jafnvel saman. Búningarnir, hannaðir af Þórunni Maríu Jónsdóttur, eru grótesk snilld og ríma fullkomlega við sviðsetninguna. Förðun Kristínar Thors verður líka að nefna, þá sérstaklega gervi tunnuparsins og glæru linsurnar sem endurspegla tómið á snjallan hátt. Lýsingin er í höndum Halldórs Arnar Óskarssonar þar sem einfaldar og lágstemmdar lausnir eru í fyrirrúmi þrátt fyrir eina afgerandi breytingu sem ekki verður uppljóstrað hér. Kristín Jóhannesdóttir er magnaður leikstjóri og hugmyndasmiður: hún leikstýrir, sér um sviðsmyndina og líka leikmunina. Enginn efi leikur á að áhorfendur séu staddir í leikhúsi, sviðsetningin er römmuð inn af sýnilegum hliðarkösturum. Afstaðan til textans er skýr og útfærslan stórkostleg. Fyrir utan Adagio í g-moll eftir Tomaso Albinoni er engin tónlist í verkinu, engin hljóðmynd og þarf þor til að treysta textanum jafnvel og hún gerir í þessari sýningu. Endatafl, í afbragðsgóðri leikstjórn Kristínar Jóhannesdóttur, er ein af allra bestu sýningum leikársins, ef ekki sú besta. Harmrænn grátur og hlátur blandast saman í ómótstæðilega sýningu, því ekkert er hlægilegra en óhamingjan.Niðurstaða: Algjörlega ómissandi hágæðaleikhús. Göldróttur Þór Tulinius fremstur á meðal jafningja í gríðarsterkum leikhópi.
Gagnrýni Listahátíð í Reykjavík Menning Mest lesið Datt í miðri sýningu á Ellý: „Eitt lélegasta fall leikhússögunnar“ Lífið „Þú varst að tala um Klausturmálið!“ Lífið Stúlkan með nálina: Hver gerir svona kvikmynd? Gagnrýni Heitustu tískuskvísur landsins fögnuðu Tíska og hönnun Eitt fallegasta hús landsins tilbúið Lífið Flytja frá Bandaríkjunum eftir sigur Trump Lífið Sigraði í alþjóðlegri kokteilakeppni á Kýpur Lífið Mikill sigur að geta opnað aftur í Kringlunni Lífið Biggi Maus tók einn þekktasta slagara Arons Can í fiskabúrinu Tónlist Gummi kíró kom Elísabetu til bjargar Jól Fleiri fréttir Stúlkan með nálina: Hver gerir svona kvikmynd? Ástkona njósnarans skildi eftir sig sjóðheit bréf Efni sem veldur uppköstum, yfirliðum og eilífri æsku The Bikeriders: Hvenær komum við í flugeldaverksmiðjuna!? Kælt niður í byrjun og svo búmm! DIMMA var flott en einhæf Sjá meira