Fastir pennar

Til heimabrúks

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Ræða Benjamíns Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, í öldungadeild Bandaríkjaþings í fyrradag endurspeglar stefnu sem heimsbyggðin hefur mátt horfa upp á áratugum saman af hendi lands hans. Böðlast skal áfram með ófriði, hvað sem tautar og raular.

Í ræðunni fann Netanjahú allt til foráttu viðræðum sem langt eru komnar um kjarnorkuáætlun Írans. Hann hefur raunar í nærri tvo áratugi haft uppi dómsdagsspár um yfirvofandi kjarnorkuvopnaógn sem af Íran stafi, án þess að þar hafi nokkuð gengið eftir.

Hann sagði áætlunina (sem enginn veit enn hvernig lítur út) ógna heimsbyggðinni allri. Viðhorf hans hafa mætt heilmikilli gagnrýni á heimsvísu, enda ljóst að samningur og eftirlit í Íran hlýtur fremur að vera steinn í götu þróunar kjarnorkuvopna þar en að flýta fyrir henni.

Þannig hefur Obama Bandaríkjaforseti bent á að ekkert nýtt hafi komið fram í ræðunni og engar lausnir þar að finna.

Einhver kynni líka að segja að forsætisráðherra Ísraels sé glöggur á flísina í auga náungans, en blindur á bjálkann í eigin auga. Í það minnsta var ekki að trufla hann feluleikur Ísraels með eigin kjarnorkuvopn, stríðsglæpir og ofbeldi í garð Palestínuaraba og ólögleg landtaka með margítrekuðum brotum á alþjóðasamþykktum og -lögum.

Eins kynni líka einhverjum að þykja holur hljómur í herkvaðningu Netanjahús gegn hryðjuverkum, verandi ráðherra ríkis sem á rót stofnunar sinnar í hryðjuverkum og ofbeldisverkum í garð Breta sem áður fóru með landstjórn í Palestínu.

Bandaríkjamönnum til hróss má segja að heimsókn Netanjahús í öldungadeildina var ekki óumdeild. Tugir þingmanna voru fjarverandi, flestir demókratar, auk sjálfs forseta Bandaríkjanna, Baracks Obama.

Aðstoðarmenn þingmanna voru hvattir til að fylla auð sæti til þess að forsætisráðherrann þyrfti ekki að hafa hálftóman salinn fyrir augunum. Frekar pínlegt.

Uppistand Netanjahús í Bandaríkjaþingi er hins vegar ástæða til að bregða ljósi á að nú, hálfu ári eftir svívirðilega árásahrinu Ísraels á óbreytta borgara á Gasa sem lauk með vopnahléi í september í fyrra, hefur uppbygging á svæðinu ekki komist af stað á ný svo neinu nemi og herkví Ísraels um Gasa með öllum sínum takmörkunum enn við lýði.

Rifja má upp, líkt og gert er í nýrri umfjöllun hjálparsamtakanna Oxfam, að yfir hundrað þúsund heimili Palestínumanna voru eyðilögð í árásunum.

Væntanlega er Netanjahú ljóst að ræða hans á Bandaríkjaþingi kemur ekki til með að skipta nokkru máli varðandi nýjan fjölþjóðasamning við Íran um kjarnorkueftirlit, né heldur hafa áhrif á stuðning Bandaríkjanna við Ísrael.

Herská ræða hans er til heimabrúks í komandi þingkosningum í Ísrael, sem fram fara eftir um hálfan mánuð.

Óskandi er að herskáir ofbeldismenn zíonismans, á borð við Benjamín Netanjahú, beri skarðan hlut frá borði í þessum kosningum og til valda komist skynsamt fólk sem getur látið af ofbeldi og ofríki í garð nágranna sinna í Palestínu. En líkast til er það langsótt.


Tengdar fréttir

Segir kjarnorkukapphlaup vera yfirvofandi

Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, hóf ræðu sína á Bandaríkjaþingi í gær með því að segja að sér þætti leitt hve umdeild hún hafi orðið. Hann hafi alls ekki ætlað sér að vera „pólitískur“.

Óttast samninga við Íransstjórn

Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, kom til Bandaríkjanna í gær og hyggst ávarpa Bandaríkjaþing í dag. Barack Obama Bandaríkjaforseti ætlar ekki að vera viðstaddur.






×