Gagnrýni

Sjókuldi á Snæfellsnesi

Sigríður Jónsdóttir skrifar
Kári Viðarsson á mikið hrós skilið fyrir vinnu sína og gríðarlegt hugsjónastarf.
Kári Viðarsson á mikið hrós skilið fyrir vinnu sína og gríðarlegt hugsjónastarf.
MAR

Höfundar:Kári Viðarsson og Hallgrímur H. Helgason

Meðhöfundar:Birgir Óskarsson og Freydís Bjarnadóttir

Leikstjóri: Árni Grétar Jóhannsson

Leikarar:Freydís Bjarnadóttir og Kári Viðarsson

Hljóðmynd: Ragnar Ingi Hrafnkelsson

Sviðsmynd: Kári Viðarsson

Lýsing: Friðþjófur Þorsteinsson og Robert Youngson

Á Snæfellsnesi má finna lítið atvinnuleikhús sem hefur vaxið og dafnað á síðustu misserum. Frystiklefinn á Rifi er algjörlega einstakt leikhúsrými sem ber með sér fjölbreytta möguleika en Kári Viðarsson á mikið hrós skilið fyrir vinnu sína og gríðarlegt hugsjónastarf.

Sýningar á MAR eru orðnar rétt rúmlega þrjátíu síðan verkið var frumsýnt í desember á síðasta ári og allar líkur eru á að þær verði fleiri enda húsfyllir síðastliðinn laugardag.

MAR er tvískipt heimildaleikrit og fjallar í grunninn um tvö sjóslys sem gerast með þrjátíu og fimm ára millibili, annars vegar þegar Elliði SI 1 sökk út af Öndverðarnesi árið 1962 og hins vegar þegar Margrét SH 196 hvarf við strendur Breiðafjarðar árið 1997.

Við fylgjumst með ungri konu takast á við dauða fósturföður síns og upplifun loftskeytamannsins á Elliða SI 1. Hlutverk Freydísar er byggt á hennar eigin reynslu við að missa stjúpföður sinn í sjóslysi og sýnir hún mikið hugrekki að takast á við atburðinn á þennan máta.

Kári leikur síðan lofskeytamanninn sem berst af öllu afli við íslensku náttúruöflin. Aftur á móti flækist leikurinn aðeins þar sem Freydís leikur einnig unnustu sjómannsins á mismunandi tímapunktum þar sem tilhugalíf þeirra er rakið og verður til þess að söguþráður verksins verður frekar óljós.

Hópurinn notast við raunverulegar upptökur af samskiptum loftskeytamannsins á Elliða SI 1 við Júpíter RE 161 þetta örlagaríka febrúarkvöld og rennur manni kalt vatn milli skinns og hörunds við að heyra þessi samskipti. Því miður eru hljóðgæðin á þessum upptökum ekki nægilega góð þannig að einhverjar upplýsingar komast ekki til skila.

Árni Grétar notast við ljósaskiptingar til að stökkva á milli atriða og þær verða örlítið fyrirsjáanlegar þegar líða tekur á en líkt og leikurinn verða þessar skiptingar fljótlega blæbrigðalitlar.

Sviðshönnunin sem er í höndum Kára heppnast með ágætum og þá sérstaklega stálramminn sem hann byggir um loftskeytamanninn, einskonar pallur sem hangir úr loftinu í keðjum. Þegar líða tekur á sýninguna fer vatn að flæða út úr pípunum en vatnselgurinn myndar virkilega fallega hljóðmynd og fagurfræðilega sterka útkomu.

MAR fær mikinn kraft frá því að vera sviðsett í köldum Frystiklefanum á Rifi og er ferðalagið þangað á miðjum vetri mikilvæg áminning um harðneskju íslenskrar náttúru sem má aldrei taka af léttúð. Aftur á móti er dramatíska risinu í verkinu ábótavant og leikurinn tiltölulega flatur þrátt fyrir fallegar senur inn á milli.



Niðurstaða: Magnaður efniviður og einstakt leikhúsrými sem vert er að gera sér ferð til að sjá en úrvinnslan ekki nægilega sterk.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.