Gagnrýni

Nostalgía frá 90s

Björn Teitsson skrifar
Tónlist

In the Eye of the Storm

Mono Town

Record Records



In the Eye of the Storm er fyrsta breiðskífa hljómsveitarinnar Mono Town sem hefur á undanförnum árum spilað nokkuð víða og fengið fína áhlustun í útvarpi. Sveitin er skipuð þremur mönnum á fertugsaldri sem fá þó til liðs við sig talsvert af aðstoðarfólki við gerð skífunnar. Þar á meðal er hinn margverðlaunaði kammerkór Hallgrímskirkju, hvorki meira né minna.

Mikill metnaður einkennir verkið og greinilegt er að mikil vinna hefur verið lögð í þennan frumburð. Flutningurinn sjálfur er virkilega fagmannlegur og upptökustjórn til fyrirmyndar – svo mikið til fyrirmyndar að In the Eye of the Storm dansar á línunni að vera „óverpródúseruð“.

Tónlistin sem hljómsveitin flytur og aðhyllist greinilega er bresk indírokktónlist sem var vinsælust á 10. áratug síðustu aldar, sennilega um það leyti sem hljómsveitarmeðlimir voru að vaxa úr grasi. Þetta eru alls ekki frumlegustu tónsmíðar í sögu mannkyns og gæti allt eins verið plata með sveit á borð við Manic Street Preachers, Stereophonics eða ef til vill hinni vanmetnu Starsailor. Rödd Bjarka Sigurðssonar, söngvara og helstu driffjaðrar sveitarinnar, sver sig í ætt breskra rokksöngvara þess tíma – einhvers konar Liam Gallagher Íslands… og er það alls ekki illa meint.

Bjarki Sigurðsson og bræðurnir Daði og Börkur Birgissynir skipa hljómsveitina Mono Town. Vísir/Vilhelm
Bestu lög plötunnar eru Peacemaker, Two Bullets og Yesterday‘s Feeling. Þau eru öll einstaklega melódísk (eins og platan reyndar öll) og sérstaklega skemmtilegt að heyra ELO-strengjaútsetningarnar í síðastnefnda laginu, sem er reyndar það lag þar sem Bjarki nær sér helst á strik með brothættri falsetturödd í viðlaginu – en það viðlag er bara drullugott. Værum við stödd á einhverjum skítapöbb í Sheffield árið 1994 þá væri Alan McGhee búinn að „sign-a“ þessa gaura á stundinni!

Fyrir þá sem vilja fá nett nostalgíukast, eða einfaldlega fíla breska indítónlist frá síðustu öld, þá er In the Eye of the Storm frábær skífa. Textasmíðarnar mættu þó innihalda aðeins minna af „la-la-la“ (án djóks, fimm lög sem innihalda þann frasa) en annars eru flottir taktar og flottir kaflar. Sörfgítarvæbið í No More (Shall I Fear You) er til dæmis geggjað, gæti átt heima í kvikmynd eftir Tarantino. Því miður dettur skífan aðeins niður undir lokin, þar sem er að finna sístu lögin Far Away og Can Deny. Það verður þó að teljast líklegt að þau lög hafi verið betri – þau mættu vera aðeins hrárri ef eitthvað er.

Niðurstaða: Þessi plata hefði náð á topp enska vinsældarlistans árið 1995. Bókað mál. Nokkrir slagarar og fínasti gripur sem dettur ögn niður undir lokin.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.