Bíó og sjónvarp

Íraksmyndir oftast með litla aðsókn í Bandaríkjunum

Freyr Bjarnason skrifar
Bradley Cooper leikur leyniskyttuna Chris Kyle í kvikmyndinni American Sniper.
Bradley Cooper leikur leyniskyttuna Chris Kyle í kvikmyndinni American Sniper.
Í Hollywood hafa fáir viljað segja sögur úr Íraksstríðinu og jafnvel enn færri hafa viljað heyra þær. Bradley Cooper leikur aðalhlutverkið í American Sniper, sem er að koma í bíó hérlendis, í leikstjórn Clints Eastwood. Hún er byggð á sjálfsævisögu Chris Kyle sem nefnist American Sniper: The Autobiography of the Most Lethal Sniper in U.S. Military History. Bradley Cooper leikur aðalhlutverkið.

Eins og nafnið gefur til kynna fjallar myndin um leyniskyttu í bandaríska hernum, sem hélt því fram í bók sinni að hann hefði drepið meira en 255 manns í Íraksstríðinu.

Hingað til hafa myndir sem gerast í Íraksstríðinu verið heldur illa sóttar í Bandaríkjunum og óvíst er hvort American Sniper nái betri árangri en forverar hennar. Engu máli virðist skipta þótt myndirnar fái góða dóma eða séu hlaðnar verðlaunum, bandarískur almenningur virðist einfaldlega ekki hafa nógu mikinn áhuga.

Síðan herlið George W. Bush steig fyrst fæti á íraska jörð fyrir tólf árum hafa frekar fáar Hollywood-myndir verið gerðar sem fjalla um stríðið. Í umfjöllun á vefsíðu Guardian eru nefndar fjölbreyttar myndir á borð við Redacted, Body of Lies, The Messenger og In the Valley of Elah, sem öllum gekk illa í miðasölunni vestanhafs þrátt fyrir stjörnur í helstu hlutverkum og góða dóma.

Einu undantekningarnar hafa verið Green Zone með Matt Damon í aðalhlutverki og The Hurt Locker, sem fékk sex Óskarsverðlaun árið 2010. Þær slógu samt síður en svo í gegn í miðasölunni. Green Zone gerði betur en flestar aðrar Íraksmyndir en tekjurnar á heimsvísu náðu samt ekki að dekka framleiðslukostnaðinn. The Hurt Locker er jafnframt tekjulægsta mynd allra tíma sem hefur unnið Óskarinn sem besta myndin, þegar verðbólga hefur verið tekin með í reikninginn.

American Sniper gæti brotist út úr þessari hefð. Myndinni hefur vegnað vel í miðasölunni í Bandaríkjunum síðan byrjað var að sýna hana í takmörkuðum fjölda kvikmyndahúsa. Nú þegar hún verður frumsýnd víðs vegar um landið og víða um heim er aldrei að vita hvað gerist. Eitt af því sem gæti hjálpað henni er að skautað er fram hjá stjórnmálum í myndinni, sem er formúla sem gafst ágætlega með The Hurt Locker.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×