Bíó og sjónvarp

Uppnám á Star Wars-sýningu í Egilshöll: „Ótrúlegt að þetta þurfi að gerast á stærstu stundinni í okkar löngu sögu“

Atli Ísleifsson skrifar
Frá miðnætursýningu Star Wars: The Force Awakens í Egilshöll í nótt.
Frá miðnætursýningu Star Wars: The Force Awakens í Egilshöll í nótt. Vísir/Jóhanna Andrésdóttir
„Það er er ótrúlegt að þetta þurfi að gerast akkúrat þarna, á stærstu stundinni í okkar löngu sögu,“ segir Björn Ásberg Árnason, framkvæmdastjóri hjá Sambíóunum, um bilun sem kom upp á miðnætursýningu Sambíóanna í Egilshöll á nýju Star Wars myndinni í nótt.

Undir lok myndarinnar fraus myndin ítrekað – hátt í tíu sinnum og í fjölmargar sekúndur í hvert skipti – og létu margir bíógestir óánægju sína í ljós í fullum salnum, enda spennan skiljanlega í hámarki á lokamínútum myndarinnar. Þannig á einn að hafa hrópað: „Eruð þið að „downloada“ myndinni?“

Eins og smurð vél

Björn segir að myndin hafi verið keyrð í gegn fyrr um daginn þar sem allt hafi gengið eins og smurð vél. „Við erum með mjög fullkomnar græjur sem keyra þetta áfram og við vitum ekki alveg hvað gerðist. Fyrirtækið sem sér um uppsetningu og sinnir viðhaldi á þessum vélum í Bretlandi er að skrá sig inn í kerfið núna til að kanna hvað gerðist.“

Björn segir að svona lagað hafi ekki gerst hjá fyrirtækinu í marga mánuði og að nýverið hafi maður yfirfarið allar vélar. Björn segir að einhverjir viðskiptavinir hafi haft samband og lýst yfir óánægju með bilunina. „Skiljanlega var fólk pirrað sem hafði beðið eftir myndinni í áraraðir.“

Geta séð myndina aftur gegn framvísun miða

Einungis var þessi eina miðnætursýning í Egilshöll í nótt og vonast Björn til að sýningarvélin verði örugglega komin í lag fyrir næstu sýningu klukkan 11:30.

Björn segir að þeir sem geti sýnt að þeir hafi verið með miða á þessa sýningu geti haft samband við Sambíóin og fengið að sjá myndina aftur ef þeir svo vilja. „Við erum náttúrulega í rusli að þetta hafi gerst. Þetta er stærsta stund í okkar sögu og þetta þurfti náttúrulega endilega að gerast þá.“


Tengdar fréttir

Leikararnir sungu Star Wars lögin hjá Jimmy Fallon

Þáttastjórnandinn Jimmy Fallon og hljómsveitin The Roots tóku Star Wars lög í þættinum The Tonight Show í gærkvöld en um þessar mundir er verið að frumsýna nýjustu Star Wars myndina um allan heim.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.