Lífið

Nautið verður sjónvarpssería

Gyða Lóa Ólafsdóttir skrifar
Stefán Máni segir það ósk sem rættist að hafa fengið Baldvin Z til þess að leikstýra.
Stefán Máni segir það ósk sem rættist að hafa fengið Baldvin Z til þess að leikstýra. Vísir/GVA
Framleiðslufyrirtækið Pegasus hefur gert samning við rithöfundinn Stefán Mána Sigþórsson um kvikmyndarétt á nýjustu skáldsögu rithöfundarinns, Nautið. Baldvin Z mun leikstýra og skrifa handrit að sjónvarpsþáttaseríu auk fleiri handritahöfunda.

Fyrir mér var þetta ósk sem rættist, maðurinn sem ég vildi að gerði þetta var algjörlega til í það,“ segir Stefán Máni alsæll um aðkomu leikstjórans að verkefninu en hann hafði samband við Baldvin fyrir rúmu ári þegar drög að bókinni lágu fyrir.

„Ég fór á Vonarstræti í bíó og var þá að skrifa bókina og var svona kominn með fyrsta brask eins og maður segir. Þegar ég var að horfa á myndina þá hugsaði ég strax: Þetta er rétti maðurinn til að gera bíó úr Nautinu,“ segir Stefán Máni og bætir við að hann hafi verið hrifinn af ferskum hversdagsleika og áferð Vonarstrætis og í kjölfarið orðið sér úti um netfang Baldvins og sent honum uppkastið.

Upphaflega hugmyndin var að gera kvikmynd úr Nautinu en Baldvin var hrifnari af því að gera sjónvarpsþáttaröð og var Stefán Máni sammála því. „Það hefur aldrei verið gert sjónvarp upp úr mínum verkum áður þannig að þetta er rosa gaman,“ segir hann og bætir við: „Svo er líka ánægjulegt að geta lokið þessu, bókin er nýkomin í búðir og að geta verið búinn að ganga frá þessu er alveg geggjað.“

Þó fljótlega hafi legið fyrir að sjónrænt efni yrði unnið upp úr bókinni segir Stefán Máni að hann hafi ekki skrifað bókina með það sem markmið, slíkt sé ekki vænlegt til árangurs. „Ég áttaði mig fljótlega á því að hún væri hentug í það en það er bara misjafnt. Stundum finnst manni það ekki en ég hafði bara mjög á tilfinningunni að þetta væri eitthvað sem fólk gæti haft áhuga á að sjá.“

Nautið er sextánda skáldsaga Stefáns Mána og segir frá sveitastúlkunni Hönnu sem á dramatíska og skrautlega fortíð og flækist í samneyti með óæskilegum aðillum í undirheimum Reykjavíkur. Stefán Máni er þekktur fyrir myrkan stíl og var bók hans Svartur á leik færð í kvikmyndabúning árið 2012, hann segir Nautið einnig vera myrkt og fílar það í tætlur. „Við Baldvin eru miklir dark artistar og erum hrifnir af spennu, myrkri og hraða,“ segir hann og bætir fljótt við: „Þetta er dark, það er það góða. Ég fíla það í tætlur.“ 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×