Gagnrýni

Nánast eins og Die Hard 2

Jónas Sen skrifar
Tónlist

Verk eftir Sibelius og Mendelssohn

Kammermúsíkklúbburinn

Norðurljósasalur Hörpu, sunnudaginn 27. september.

Flytjendur: Sigrún Eðvaldsdóttir, Pascal­ La Rosa, Þórunn Ósk Marinósdóttir og Sigurgeir Agnarsson



Í lokaatriðinu í Die Hard 2, þegar karakterinn sem Bruce Willis leikur, er búinn að sigrast á hryðjuverkamönnum og bjarga farþegaþotu, er spiluð sigri hrósandi tónlist. Það er Finlandia, mikilfenglegt hljómsveitarverk eftir Sibelius. Verkið var svo flott í kvikmyndinni að maður fékk gæsahúð. Sibelius er þekktastur fyrir Finlandiu og svo fyrir allar sinfóníurnar sínar, sem einnig eru afar tilkomumiklar.

Í samanburðinum má kannski segja að strengjakvartett í d-moll opus 56 eftir tónskáldið, sem fluttur var á opnunartónleikum vetrarins í Kammermúsíkklúbbnum, hafi verið þunnur þrettándi. Tónlistin skartaði ekki þessum djúsí laglínum og brjálæðislegu hápunktum. Í staðinn var fremur innhverf stemning ráðandi. Hún var íhugul og leitandi.

En ég fékk samt líka gæsahúð, rétt eins og í Die Hard 2. Ástæðan var fyrst og fremst flutningurinn. Hann verður að teljast með því besta sem nokkru sinni hefur heyrst á tónleikum Kammermúsíkklúbbsins. Þarna lék Sigurgeir Agnarsson á selló, Þórunn Ósk Marinósdóttir á víólu, Pascal La Rosa á aðra fiðlu og Sigrún Eðvaldsdóttir á þá fyrstu. Sigrún var leiðari hljóðfæraleikaranna og hún var í banastuði. Krafturinn og öryggið var ótrúlegt.

Hinir voru líka frábærir, og samspilið var eins og best verður á kosið. Hraður kafli þar sem tveir hljóðfæraleikarar spiluðu alveg sama hlaupið í drykklanga stund var svo nákvæmur og flottur að það var aðdáunarvert. Í það heila var túlkunin þrungin ástríðu og spennu, sem var sérlega grípandi. Þetta var dásamlegt!

Eftir hlé var á dagskránni strengjakvartett í f-moll opus 80 eftir Mend­elssohn. Hann var því miður nokkru síðri. Ef til vill fór allt púðrið í að koma Sibeliusi svona yndislega vel til skila. Í Mendelssohn voru hnökrar sem voru stundum áberandi, og almennt talað var spilamennskan dálítið hrá.

Það var þó ekki allt slæmt. Túlkunin var vissulega lífleg, rétta tilfinningin, einhvers konar rómantísk áfergja, var alls ráðandi. Það var auðvitað aðalmálið. Andi tónsmíðarinnar var svo sannarlega til staðar, skáldskapurinn var á sínum stað. Því ber að fagna.

Niðurstaða: Flutningurinn á fyrra verkinu var algerlega frábær, hitt var ekki eins gott.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.