Fótbolti

Þetta verður stór stund fyrir hana

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Margrét Lára Viðarsdóttir á æfingu í gær.
Margrét Lára Viðarsdóttir á æfingu í gær. Vísir/Pjetur
Íslenska landsliðið stígur í kvöld fyrsta skrefið í átt að lokakeppni EM 2017 í Hollandi þegar stelpurnar mæta Hvíta-Rússlandi á Laugardalsvellinum í fyrsta leiknum í 1. riðli undankeppninnar. Fyrirfram er íslenska liðið sigurstranglegra en 31 sæti munar á liðunum á styrkleikalista FIFA; Ísland er í 18. sæti hans en Hvíta-Rússlandi í því 49.

Leikurinn í kvöld er merkilegri fyrir einn leikmann íslenska liðsins fremur en aðra; Margréti Láru Viðarsdóttur sem leikur sinn 100. landsleik í kvöld. Þrátt fyrir að vera aðeins sjötti íslenski fótboltamaðurinn sem kemst í 100-leikja klúbbinn er Margrét lítt upptekin af þessum tímamótum. „Þetta er mjög stór áfangi en ég er eitthvað minna að spá í þessu núna,“ sagði Margrét sem segir mikilvægt að einbeita sér að verkefninu sem fram undan er: að byrja undankeppnina með sigri og þremur stigum.

„Leikurinn og liðið er það sem skiptir öllu máli en það verður gaman að geta vonandi fagnað þremur stigum og 100. leiknum í leikslok,“ bætti Margrét við en hún lék sinn fyrsta landsleik gegn Ungverjum 14. júní 2003. Og að sjálfsögðu skoraði hún í leiknum, fyrsta markið af 71 fyrir landsliðið.

Íslenska liðið hefur fengið langan undirbúning fyrir þennan leik en í síðustu viku spiluðu stelpurnar vináttulandsleik við Slóvakíu sem vannst 4-1. Slóvakía er á svipuðum stað og Hvíta-Rússland á heimslistanum, í 47. sæti, en Freyr Alexandersson landsliðsþjálfari segir þessi austantjaldslið vera svipuð að getu.

„Slóvakíska liðið er mögulega aðeins betra í sókninni en það er veikara í vörninni því skipulagið hjá Hvít-Rússum er gott og þær eru greinilega með góðan þjálfara,“ sagði Freyr, en að hans sögn hefur hvítrússneska liðið verið í sókn á undanförnum árum. Hvít-Rússar fengu þó aðeins sex stig í tíu leikjum í undankeppni HM 2015 og hafa aldrei komist í lokakeppni stórmóts.

Freyr segir að það hafi skipt sköpum að hafa fengið leikinn gegn Slóvakíu til að hrista íslenska liðið saman fyrir átökin í kvöld. „Það var nauðsynlegt, ég hefði ekki viljað byrja undankeppnina án þess að fá þennan æfingaleik,“ sagði landsliðsþjálfarinn sem fékk svör við ýmsum spurningum í Slóvakíu-leiknum.

„Við fengum svör varðandi það þegar við erum meira með boltann og töpum honum, þá þurfum við passa okkur á að falla ekki of aftarlega á völlinn. Það var stórt tæknilegt atriði sem mátti vera betra gegn Slóvakíu. Að sama skapi voru ýmis tæknileg atriði í uppspili sem voru mjög góð og svo voru einföld tæknileg atriði sem við gátum lagað á myndbandsfundi daginn eftir. Stundum er það þannig að maður þarf að reka sig á þessu litlu atriði, sýna þau, tala um þau og strax á næstu æfingu var þetta miklu betra.“

Hann segir að leikurinn í kvöld sé stór fyrir Margréti Láru sem skoraði eitt markanna gegn Slóvakíu. „Þetta er ótrúlega stór áfangi þegar maður hugsar út í það,“ sagði Freyr en leikirnir hjá Margréti hefðu getað verið enn fleiri en hún hefur misst talsvert út vegna þrálátra meiðsla og barneigna.

„Það er ótrúlega gott fyrir knattspyrnukonu að ná 100. landsleikjum og sýnir að ferilinn hjá þeim er að lengjast. Hún er í góðu standi núna og ég samgleðst henni og hennar fjölskyldu. Þetta verður stór stund fyrir hana.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×