Fótbolti

Sarpsborg mætir Rosenborg í bikarúrslitaleiknum í Noregi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jón Daði og félagar lutu í lægra haldi í undanúrslitunum í kvöld.
Jón Daði og félagar lutu í lægra haldi í undanúrslitunum í kvöld. mynd/viking
Það verður ekkert af íslenskum úrslitaleik í norsku bikarkeppninni en Viking tapaði 1-0 fyrir Sarpsborg 08 í seinni undanúrslitaleiknum í kvöld.

Indriði Sigurðsson, Jón Daði Böðvarsson og Steinþór Freyr Þorsteinsson voru allir í byrjunarliði Viking en sá síðastnefndi fór af velli eftir 68 mínútna leik.

Staðan var markalaus að loknum venjulegum leiktíma en leikmenn Sarpsborg komu ákveðnir til leiks í framlengingunni. Patrick Mortensen skaut í slána á 93. mínútu og fimm mínútum síðar kom hann Sarpsborg yfir þegar hann skallaði boltann í netið eftir fyrirgjöf frá hægri.

Leikmenn Viking sóttu stíft það sem eftir var framlengingarinnar en tókst ekki að jafna. Nígeríumaðurinn Samuel Adegbenro komst næst því að skora þegar hann skaut í stöngina á marki Sarpsborg í upphafi seinni hálfleiks framlengingarinnar.

Það verður því Sarpsborg sem mætir Hólmari Erni Eyjólfssyni, Matthíasi Vilhjálmssyni og félögum í Rosenborg í úrslitaleik á Ullevaal vellinum í Osló í nóvember.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×