Bíó og sjónvarp

Barist um endurgerðarrétt á Ófærð fyrir Bandaríkjamarkað

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Aðalhlutverk í Ófærð er í höndum Ólafs Darra.
Aðalhlutverk í Ófærð er í höndum Ólafs Darra.
Fjórir aðilar berjast nú um að kaupa réttinn á að endurgera sjónvarpsþætti Baltasar Kormáks, Ófærð, fyrir bandarískan markað. Nú þegar er búið að selja sýningarréttinn í Bandaríkjunum.

Björn Sigurðsson hjá RVK Studios segir að það sé fáheyrt að barist sé um endurgerðarrétti á sjónvarpsþáttum fyrir Bandaríkjamarkað sem framleiddir hafi verið á öðru tungumáli en ensku áður en þeir séu sýndir í sjónvarpi.

Viðræður hófust í kjölfar þess að þættirnir voru forsýndir í Toronto 11. september sl. en kvikmyndaframleiðandinn þekkti Harvey Weinstein hefur þegar tryggt sér sýningarréttinn að íslensku útgáfu þáttanna fyrir Bandaríkjamarkað.

Gamma kom að fjármögnun þáttanna.

Íslenska fjármálafyrirtækið Gamma hjálpaði til við fjármögnun en Baltasar Kormákur gagnrýndi í dag fjármálafyrirtæki hér á landi fyrir að vilja ekki taka þátt í fjármögnun þáttana. Sagði Baltasar að Gamma hefði komið inn með um 500 milljónir til þess að fjármagna þættina.

Björn vildi ekki gefa upp hvaða aðilar væru að berjast um endurgerðarréttinn en gaf þó upp að tveir af þeim væru mjög þekktir og stórir.


Tengdar fréttir

Ófærð sýnd á RIFF

Lokamynd Alþjóðlegrar kvikmyndahátíðar í Reykjavík, RIFF, í ár verða fyrstu tveir þættirnir af Ófærð






Fleiri fréttir

Sjá meira


×