Bíó og sjónvarp

„Myndin ekki tekin upp á Everest af sömu ástæðu og Gravity var ekki tekin upp í geimnum“

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
„Það er ógeðslega gaman að koma heim og frumsýna. Enn meira spennandi eftir að vel hefur gengið úti,“ sagði leikstjórinn Baltasar Kormákur í samtali við Andra Ólafsson og Sigrúnu Ósk Kristjánsdótturr er Ísland í dag kíkti á forsýningu Everest í Smárabíó í kvöld.

Myndin segir frá stærsta slysi í sögu Everest þar til í fyrra. Fjölmargar bækur hafa verið skrifaðar um atburðinn og ein sjónvarpsmynd en þetta er fyrsta kvikmyndin sem gerð hefur verið. „Ég hef verið spurður hví við tókum myndina ekki upp á Everest en það er einfaldlega af sömu ástæðu og Alfonso Cuaron gerði Gravity ekki í geimnum.“

Daði Einarsson sér um tæknibrellurnar í myndinni en hann hefur áður komið að fjórum myndum með Baltasar auk mynda á borð við Gravity og Harry Potter. Tæknivinnslan fór fram hér heima. Daði segir að mesta vesenið hafi verið að skipta um og búa til bakgrunn á skotum sem annað hvort voru tekin upp með aðstoð „greenscreen“ eða í ítölsku ölpunum.

Everest hefur nokkrum sinnum verið nefnd í sömu andrá og Óskarsverðlaunin að undanförnu en Baltasar segir að hann sé ekki farinn að hugsa um slíkt. „Ég geri ekki myndir með slíkt í huga. Þú pantar desertinn þegar þú ert búinn með aðalréttinn. Þetta er ekki nógu mikil Óskarsmynd, mögulega fyrir tæknibrellurnar, þar eigum við séns,“ segir hann.

Innslagið úr Ísland í dag má sjá hér að ofan en fyrir neðan má sjá gesti forsýningar áður en myndin hófst. Anton Brink, ljósmyndari Fréttablaðsins og Vísis, var á staðnum og fangaði stemninguna.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×