Spænskur framsóknarmaður Jón Sigurður Eyjólfsson skrifar 1. september 2015 07:00 Eftir því sem ég flyt oftar þeim mun meira álit fæ ég á Díógenesi, eignarlausa og alsæla heimspekingnum sem bjó í tunnu á torginu og átti aðeins eina larfa til skiptanna. Hann var svo sáttur að þegar Alexander mikli bauð honum hvað eina, bað hann um það eitt að sá mikli færði sig aðeins, enda var Díógenes í sólbaði en Makedóníukóngurinn stóð fyrir sólinni. Fæst erum við svo göfug. Við erum vís til að sanka að okkur öllum mögulegum hlutum sem við höfum akkúrat engin not fyrir. Nú í síðustu flutningum ætlaði ég aðeins að grynnka á mínum veraldlegu eigum svo ég tók mikið af kaupfélagsklæðnaði, þar á meðal sveitalegan jakka sem hver framsóknarmaður í framboði gæti verið fullsæmdur af, og hélt á fund útigangsmannsins sem býr undir brúnni við hraðbrautina í Fuengirola. Hann leit á fatnaðinn en þakkaði svo pent fyrir sig. Sagðist eiga nóg af klæðum í hjólbörunum sínum. Ég fór að velta því fyrir mér hvort þetta væri til vitnis um andleg auðæfi útigangsmannsins eða það hversu fátæklegur fatnaður minn væri. Ég velti því einnig fyrir mér hvort heimurinn væri ekki hrifinn af svona göfugu fólki. Nægir þar að nefna örlög þessa manns og svo erum við búin að svívirða minningu Díógenesar um alla eilífð með því að nefna eftir honum heilkenni það sem veldur því að menn sanka að sér rusli og valda nágrönnum sínum angri með illa lyktandi öskuhaugum sem þeir koma fyrir í heimkynnum sínum. Þvílík ósvinna, eða hvað þætti þér um það að komandi kynslóðir kölluðu minnimáttarkennd Gillzenegger sindrómið? Ég fór með fötin til einhverra samtaka og nokkrum dögum síðar sá ég annan útigangsmann í kunnuglegum jakka. Þá skildi ég hvað vakti fyrir félaga mínum undir brúnni. Það er ekkert spennandi að líta út eins og spænsk útgáfa af framsóknarmanni. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Jón Sigurður Eyjólfsson Mest lesið Þingmaðurinn og spillingin á Veðurstofunni Sigurgeir Bárðarson Skoðun Hvað gerðist þegar konan talaði? Jóna Hrönn Bolladóttir,Bjarni Karlsson Skoðun Heimatilbúið „tjón“ Landsvirkjunar Vala Árnadóttir Skoðun Fjölbreytileiki í íslensku skólakerfi: Erum við á réttri leið? Inga Sigrún Atladóttir Skoðun Sparnaður án aðgreiningar Davíð Már Sigurðsson Skoðun Geðheilsuskatturinn Halla Gunnarsdóttir Skoðun Holur í malbiki og tannlækningar Sigþór Sigurðsson Skoðun Hverjir munu búa á Blikastaðalandi? Aldís Stefánsdóttir Skoðun Sorg barna - leit að merkingu Matthildur Bjarnadóttir Skoðun Öðruvísi, fordæmd, útskúfuð en einnig ósigrandi Arna Magnea Danks Skoðun
Eftir því sem ég flyt oftar þeim mun meira álit fæ ég á Díógenesi, eignarlausa og alsæla heimspekingnum sem bjó í tunnu á torginu og átti aðeins eina larfa til skiptanna. Hann var svo sáttur að þegar Alexander mikli bauð honum hvað eina, bað hann um það eitt að sá mikli færði sig aðeins, enda var Díógenes í sólbaði en Makedóníukóngurinn stóð fyrir sólinni. Fæst erum við svo göfug. Við erum vís til að sanka að okkur öllum mögulegum hlutum sem við höfum akkúrat engin not fyrir. Nú í síðustu flutningum ætlaði ég aðeins að grynnka á mínum veraldlegu eigum svo ég tók mikið af kaupfélagsklæðnaði, þar á meðal sveitalegan jakka sem hver framsóknarmaður í framboði gæti verið fullsæmdur af, og hélt á fund útigangsmannsins sem býr undir brúnni við hraðbrautina í Fuengirola. Hann leit á fatnaðinn en þakkaði svo pent fyrir sig. Sagðist eiga nóg af klæðum í hjólbörunum sínum. Ég fór að velta því fyrir mér hvort þetta væri til vitnis um andleg auðæfi útigangsmannsins eða það hversu fátæklegur fatnaður minn væri. Ég velti því einnig fyrir mér hvort heimurinn væri ekki hrifinn af svona göfugu fólki. Nægir þar að nefna örlög þessa manns og svo erum við búin að svívirða minningu Díógenesar um alla eilífð með því að nefna eftir honum heilkenni það sem veldur því að menn sanka að sér rusli og valda nágrönnum sínum angri með illa lyktandi öskuhaugum sem þeir koma fyrir í heimkynnum sínum. Þvílík ósvinna, eða hvað þætti þér um það að komandi kynslóðir kölluðu minnimáttarkennd Gillzenegger sindrómið? Ég fór með fötin til einhverra samtaka og nokkrum dögum síðar sá ég annan útigangsmann í kunnuglegum jakka. Þá skildi ég hvað vakti fyrir félaga mínum undir brúnni. Það er ekkert spennandi að líta út eins og spænsk útgáfa af framsóknarmanni.