Matur

Matargleði Evu: Dýrindis páskalamb

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir skrifar

Að elda mat í ofni er einföld matargerð, það er algjör óþarfi að standa yfir henni þó svo að hún taki stundum langan tíma. Í staðinn er hægt að nýta tímann til góðra verka t.d. að útbúa gómsætan eftirrétt eða bara hafa það gott í sófanum með góða bók.

1 lambalæri, rúmlega 3 kg

Salt og nýmalaður pipar

Lambakjötskrydd 1 msk t.d. Bezt á Lambið

Ólífuolía

3 stórir laukar, grófsaxaðir

1 heill hvítlaukur, skorinn í tvennt, þversum

2 fenníkur (fennel), skornar í fernt

3 sellerístilkar, grófsneiddir

5 gulrætur

1 rauð paprika

700 ml grænmetissoð

3 greinar tímían

2 greinar rósmarín

Handfylli fersk steinselja

Smjör

Aðferð:

1. Hitið ofninn í 120°C.

2. Finnið til stóran steikarpott eða stórt eldfast mót.

3. Leggið lærið í steikingarpottinn eða mótið, veltið upp úr ólífuolíu og kyddið með salti, pipar og lambakjötkryddi.

4. Bætið grænmetinu í steikarpottinn/eldfasta mótið.

5. Hellið soði í pottinn. Lokið pottinum eða leggið álpappír þétt yfir mótið.

6. Bakið lærið í miðjum ofni í sjö klukkustundir.

7. Þegar 30 mínútur eru eftir af eldunartímanum er lokið eða álpappírinn tekinn af, fínsöxuðum kryddjurtum og smjöri er bætt út í pottinn og hitinn í ofninum hækkaður í 200°C. Þá verður puran dökk og stökk.

8. Það er mikilvægt að leyfa kjötinu að hvíla í lágmark 20 mínútur áður en þið berið það fram.

Ljúffengt kartöflugratín

8 dl rjómi

1 laukur, skorinn í strimla

1 kjúklingateningur

1 msk blandað krydd t.d. Bezt á allt

salt og pipar

rifinn ostur

Aðferð:

1. Kartöflurnar skolaðar vel og skornar í sneiðar ca. ½ cm

2. Laukur skorinn niður og steiktur upp úr smjöri í smá stund. Kartöflum, rjóma, kjúklingatening og kryddi er blandan saman í pottinum.

3. Sjóðið við vægan hita í 10-15 mínútur eða þar til kartöflurnar eru orðnar vel mjúkar.

4. Hellið þá kartöflublöndunni í eldfast mót, dreifið rifnum osti yfir og hitið í ofni við 200°C í ca. 20 mínútur eða þar til osturinn er bráðnaður og orðin gullinbrúnn.

Sveppasósa með piparosti

Smjör

250 g sveppir, skornir í sneiðar

1 – 2 tsk lambakjötskrydd t.d. Bezt á Lambið

1/2 l rjómi

1/2-1 piparostur, skorin í smáa bita

½ kjúklingateningur

Aðferð:

1. Bræðið smjör í potti. Látið sveppina malla við vægan hita í smjörinu í nokkrar mínútur. Kryddið til með lambakjötskryddi.

2. Hellið rjóma yfir og bætið piparosti saman við. Látið sjóða saman við vægan hita um stund. Hrærið í á meðan og passið að osturinn brenni ekki við.

3. Bætið tening í pottinn og leyfið sósunni að malla í nokkrar mínútur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×