Handbolti

Fótboltastjörnur mæta á HM í handbolta í Katar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pep Guardiola er með liðið sitt í æfingabúðum í Katar.
Pep Guardiola er með liðið sitt í æfingabúðum í Katar. Vísir/Getty
Heimsþekktar fótboltastjörnur verða meðal áhorfenda á HM í handbolta í Katar en liðsmenn Bayern München ætla meðal annars að mæta á setningarhátíð mótsins á morgun. Þetta kemur fram á heimasíðu IHF.

Menn eins og Manuel Neuer, Jerome Boateng, Bastian Schweinsteiger, Mario Götze, Thomas Müller, Arjen Robben, Dante, Franck Ribery og Xabi Alonso verða því allir í stúkunni þegar Katar spilar sinn fyrsta leik á mótinu sem er annað kvöld á móti Brasilíu.

Þjóðverjarnir Manuel Neuer, Jerome Boateng, Bastian Schweinsteiger, Mario Götze og Thomas Müller eiga allir góðar minningar frá HM í fótbolta sem fór fram í Brasilíu síðasta sumar enda varð þýska liðið heimsmeistari.

Bayern München liðið er í æfingabúðum í Katar en vetrarfrí er nú í þýsku úrvalsdeildinni í fótbolta og flest liðin freistast til að æfa í heitari löndum.

Danski þjálfarinn Michael Laudrup hefur einnig lofað að mæta á leiki í átta liða úrslitunum svo framarlega sem danska landsliðið verði enn með í keppninni en það eru mjög góðar líkur á því.

Michael Laudrup þjálfar lið Lekhwiya frá Katar en hann kemst ekki á leikina í riðlakeppninni þar sem að hann fer með liðið sitt í æfingabúðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×