Leikstjórinn Tim Burton staðfestir í viðtali við sjónvarpsstöðina MTV að framhaldsmynd hryllingsgrínmyndar hans Beetlejuice frá 1989 sé í bígerð.
„Ó já, ó já, ó já!“ svaraði Burton, aðspurður um myndina en stjarnan úr fyrstu myndinni, Winona Ryder, verður með í þeirri nýju. Ekki liggur fyrir hvort hin stjarnan, leikarinn Michael Keaton, verði með en hann hefur lýst yfir áhuga sínum á því.
Burton rakst aftur á Ryder á dögunum þegar hann leikstýrði tónlistarmyndbandi fyrir hljómsveitina The Killers. „Ég hafði ekki séð hana í einhvern tíma og hún var svo frábær,“ sagði Burton. „Ég var svo ánægður að sjá hana.“
