Gagnrýni

Ævintýraljómi og náttúrustemning

Jónas Sen skrifar
Einsöngvarinn "Mezzósópraninn Jamie Barton söng einsöng og gerði það stórkostlega, röddin var þétt og hljómmikil, og túlkunin þrungin djúpri sannfæringu.“
Einsöngvarinn "Mezzósópraninn Jamie Barton söng einsöng og gerði það stórkostlega, röddin var þétt og hljómmikil, og túlkunin þrungin djúpri sannfæringu.“ Mynd/NordicphotosGetty
Tónlist:

Þriðja sinfónían

Gustav Mahler

Sinfóníuhljómsveit Íslands lék undir stjórn Osmo Vänskä. Einsöngvari: Jamie Barton. Einnig komu fram Vox feminae og Stúlknakór Reykjavíkur undir stjórn Margrétar Pálmadóttur. Föstudagur 23. maí í Eldborg, Hörpu.



Það var sko enginn slagari sem var á dagskránni á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands á Listahátíð á föstudagskvöldið. Heldur þriðja sinfónía Mahlers, sem er fyrir einsöngvara, tvo kóra og hljómsveit. Hún tekur næstum tvo klukkutíma og er magnaður skáldskapur í sex köflum.



Vafasamt er að fullyrða um hvað kaflarnir fjalla, enda er tónlist um eitthvað sem ekki er hægt að koma í orð. Fyrsti þátturinn er langlengstur, tekur næstum klukkutíma í flutningi. Hann einkennist af draumkenndri náttúrustemningu. Í fimmta kaflanum koma söngvarar til sögunnar, fyrst syngur mezzósópran um nóttina úr Svo mælti Zaraþústra eftir Nietszche, en síðan taka kórarnir við og syngja um himnaríki. Hinir kaflarnir eru líka um heiminn í kringum okkur, eftir því sem ég kemst næst. Sá síðasti er ofurhægur, en endar á þvílíkum vímukenndum hápunkti að það er engu líkt.



Náttúran hefur auðvitað annan tímaskala en maðurinn og þriðja sinfónía Mahlers er tvisvar sinnum lengri en venjuleg, stór sinfónía. Það merkilega er að á tónleikunum á föstudagskvöldið leiddist manni ekki eitt augnablik. Snilldin var þvílík að maður var bergnuminn allan tímann. Tónmál Mahlers er sérkennilegt, það er rómantískt án þess að vera yfirdrifið eða væmið, laglínurnar koma alltaf á óvart, raddsetningin er ávallt frumleg og yfir öllu er einhver ævintýraljómi og framandi andrúmsloft sem er óviðjafnanlegt.



Túlkun Osmo Vänskä var stórbrotin og lifandi og stjórnaði hann hljómsveitinni afar vel. Þar var margt einstaklega fallega leikið, og stóðu flestir hljóðfæraleikararnir sig frábærlega. Látum vera að málmblásturinn hafi ekki alltaf verið hreinn, það er varla hægt að ætlast til þess, svo mikið mæðir á hljóðfæraleikurunum í lengri tíma. Látum líka vera að einhver hafi rekið sig í míkrófón sem átti að vera slökkt á á viðkvæmu augnabliki í sinfóníunni. Það var sprenging sem maður hrökk við af. Þetta voru skuggar, örfáar snurður á annars fullkominni upplifun.



Mezzósópraninn Jamie Barton söng einsöng og gerði það stórkostlega, röddin var þétt og hljómmikil, og túlkunin þrungin djúpri sannfæringu. Vox feminae og Stúlknakór Reykjavíkur undir stjórn Margrétar Pálmadóttur stóðu sig líka prýðilega, heildarhljómurinn var hreinn og í góðu jafnvægi. Útkoman var tær snilld og maður gekk út í nóttina á eftir í sætri skáldavímu.

Niðurstaða: Stórfenglegur flutningur á þriðju sinfóníu Mahlers.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.