Verkfallið sem rændi læknisdraumnum Fanney Birna Jónsdóttir skrifar 15. mars 2014 09:00 Nú stefnir allt í að kennaraverkfall hefjist eftir helgi. Það vekur athygli að framhaldsskólanemar í dag virðast vera meðvitaðir um rétt kennara sinna og styðja þá í kjarabaráttunni. Flestir nemar sem hafa tjáð sig um verkfallið segjast vonast til að það verði ekki of langt og hafa áhyggjur af prófum og jafnvel námslokum. Þau segjast sum kvíðin og stressuð vegna framvindunnar. Þetta er hressandi innlegg í umræðuna um að unga kynslóðin sé á hraðleið til helvítis. Okkur sem eldri erum finnst hún stundum vita minna, hafa minni áhuga, vinna minna og vera almennt verri en þær sem á undan fóru. Það er hins vegar ljóst á framhaldsskólanemum landsins að því er þveröfugt farið. Þessi kjaradeilufrí hafa nefnilega skotið upp kollinum með reglulegu millibili í gegnum tíðina. Í mínu tilfelli var það verkfall framhaldsskólakennara sem veitti mér frelsi frá grámyglumorgnum í köldum skólastofum við tegrun og diffrun haustið 2000. Í minningunni var reynslan uppfull af sjónvarpsglápi, góðum stundum með vinum, mikilli viðveru á göngum Kringlunnar án nokkurs kaupmáttar og svefni fram eftir degi, stundum lengur. Ekki man ég eftir því að nokkur einasti maður hefði þessar áhyggjur á sínum tíma árið 2000, hvað þá að einhver væri að spá í hvort að Þórður stærðfræðikennari hefði í sig og á mánaðarlega. Að lokum fengu foreldrarnir nóg af hangsi og iðjuleysi hjá ómótuðum unglingnum og mér var gert að mæta til vinnu í verksmiðjunni hans pabba. Það var ekki alveg það sem „verkfallsfríið“ átti að fela í sér. Ég lærði þó að steypa handfærasökkur og álfórnarskaut á skip af miklum móð sem var meira en flestir gátu sagt. Það var nefnilega þannig að verkfallið 2000 fór illa með margan námsmanninn. Ég hef logið því að sjálfri mér síðan ég rétt slefaði í stærðfræðiprófinu vorið 2001 og skipti í kjölfarið yfir á minna tölulega braut í Verzlunarskólanum, að ef ekki hefði verið fyrir verkfallið væri ég læknir, verkfræðingur eða forritari í dag. Í staðinn er ég blaðamaður með mikla vannýtta hæfileika við málmsteypu. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Fanney Birna Jónsdóttir Kennaraverkfall Mest lesið Sagan að endurtaka sig í beinni Ingibjörg Þóra Haraldsdóttir Skoðun Hin heimtufreka kennarastétt Áslaug Pálsdóttir Ragnheiðardóttir Skoðun Er leikskólinn ekki meira virði? Bryndís Björk Eyþórsdóttir Skoðun Halldór 25.01.2025 Halldór Hinn vandrataði vegur að starfslokum Ástríður Þórey Jónsdóttir Skoðun Að hengja bakara fyrir smið Rakel Linda Kristjánsdóttir Skoðun Svar til lögmanns SFS Magnús Guðmundsson Skoðun Þingmaðurinn og spillingin á Veðurstofunni Sigurgeir Bárðarson Skoðun Þjóðarátak í umönnun eldra fólks Einar Magnússon ,Þráinn Þorvaldsson Skoðun Hvers virði eru vísindi? Heiða María Sigurðardóttir,Erna Magnúsdóttir Skoðun
Nú stefnir allt í að kennaraverkfall hefjist eftir helgi. Það vekur athygli að framhaldsskólanemar í dag virðast vera meðvitaðir um rétt kennara sinna og styðja þá í kjarabaráttunni. Flestir nemar sem hafa tjáð sig um verkfallið segjast vonast til að það verði ekki of langt og hafa áhyggjur af prófum og jafnvel námslokum. Þau segjast sum kvíðin og stressuð vegna framvindunnar. Þetta er hressandi innlegg í umræðuna um að unga kynslóðin sé á hraðleið til helvítis. Okkur sem eldri erum finnst hún stundum vita minna, hafa minni áhuga, vinna minna og vera almennt verri en þær sem á undan fóru. Það er hins vegar ljóst á framhaldsskólanemum landsins að því er þveröfugt farið. Þessi kjaradeilufrí hafa nefnilega skotið upp kollinum með reglulegu millibili í gegnum tíðina. Í mínu tilfelli var það verkfall framhaldsskólakennara sem veitti mér frelsi frá grámyglumorgnum í köldum skólastofum við tegrun og diffrun haustið 2000. Í minningunni var reynslan uppfull af sjónvarpsglápi, góðum stundum með vinum, mikilli viðveru á göngum Kringlunnar án nokkurs kaupmáttar og svefni fram eftir degi, stundum lengur. Ekki man ég eftir því að nokkur einasti maður hefði þessar áhyggjur á sínum tíma árið 2000, hvað þá að einhver væri að spá í hvort að Þórður stærðfræðikennari hefði í sig og á mánaðarlega. Að lokum fengu foreldrarnir nóg af hangsi og iðjuleysi hjá ómótuðum unglingnum og mér var gert að mæta til vinnu í verksmiðjunni hans pabba. Það var ekki alveg það sem „verkfallsfríið“ átti að fela í sér. Ég lærði þó að steypa handfærasökkur og álfórnarskaut á skip af miklum móð sem var meira en flestir gátu sagt. Það var nefnilega þannig að verkfallið 2000 fór illa með margan námsmanninn. Ég hef logið því að sjálfri mér síðan ég rétt slefaði í stærðfræðiprófinu vorið 2001 og skipti í kjölfarið yfir á minna tölulega braut í Verzlunarskólanum, að ef ekki hefði verið fyrir verkfallið væri ég læknir, verkfræðingur eða forritari í dag. Í staðinn er ég blaðamaður með mikla vannýtta hæfileika við málmsteypu.