Maður er manns gaman ...stundum Haukur Viðar Alfreðsson skrifar 17. mars 2014 11:00 Á föstudagskvöldið spilaði ég hið illfáanlega Sturlungaspil við fimm aðra menn. Ég var enginn annar en Snorri Sturluson og tapaði öllum mínum álnum vaðmáls í æsispennandi og blóðugum bardaga um Reykholt. Lakkrísreimar voru borðaðar og Mountain Dew var drukkið. Á laugardagskvöld fór ég svo í partí. Þetta var óvenju annasöm helgi hjá mér í samanburði við aðrar helgar. Ég er nefnilega einn af þeim sem kunna ákaflega vel við að vera einir og gera ekki neitt sérstakt. Ég er vissulega félagsvera og nýt mín vel í góðum hópi, en fyrir mér er föstudagskvöld ekkert síðra þó ég haldi mig heima, hlusti á djass og setji í nokkrar vélar. Einveran gerir mér gott og ég vakna eldhress daginn eftir. Mörgum kann að þykja þetta afar dapurlegt og sumir hafa meira að segja látið þá skoðun sína í ljós við mig. Þeir þurfa þó ekki að hafa áhyggjur af mér. Ég hef það fínt. Ég hef hins vegar eilitlar áhyggjur af þeim. Fyrir mér hljómar það hálf martraðarkennt að geta ekki notið þess að vera einn með sjálfum sér, hvort sem það er þriðjudags- eða laugardagskvöld. Að hafa aldrei farið einn í bíó af ótta við augngotur annarra. Að hafa aldrei sest einn inn á kaffihús með bók, blað eða eitthvert nýmóðins apparat, pantað sér mat eða kaffi og hangið þar í nokkra klukkutíma. Að hafa aldrei labbað aleinn í Þingholtunum að kvöldlagi í rigningu og skemmt sér konunglega við það. Vonast til að göngutúrinn klárist aldrei á meðan þú semur lag í hausnum, drög að skáldsögu sem aldrei verður skrifuð, nú eða hugsar um sæta stelpu (eða strák). Ef þetta er slæm tilhugsun er það líklega vegna þess að þú ert leiðinlegur. Ég meina þetta alls ekki illa, en ef þú værir skemmtilegri myndirðu örugglega þola laugardagskvöld með sjálfum þér. En fyrst svo er ekki, er þá nema von að ég kjósi frekar einveruna en félagsskap þinn? Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Haukur Viðar Alfreðsson Mest lesið Takk Björgvin Njáll, eða þannig Ólafur Þór Ólafsson Skoðun Aðför að réttindum verkafólks Aðalsteinn Árni Baldursson Skoðun Vilja Ísland í evrópskt sambandsríki Hjörtur J. Guðmundsson Skoðun Orkuverð og sæstrengir Anna Sofía Kristjánsdóttir Skoðun Veðurstofa Sjálfstæðisflokksins frestar fundi Daníel Hjörvar Guðmundsson Skoðun Ísland er ekki stjórntækt með verðtryggingu? Örn Karlsson Skoðun Halldór 28.12.2024 Halldór Er sjávarútvegur einkamál kvótakónga? Finnbjörn A. Hermannsson Skoðun Ó Palestína Arnar Eggert Thoroddsen Skoðun „Þetta er algerlega galið“ Hjörtur J. Guðmundsson Skoðun
Á föstudagskvöldið spilaði ég hið illfáanlega Sturlungaspil við fimm aðra menn. Ég var enginn annar en Snorri Sturluson og tapaði öllum mínum álnum vaðmáls í æsispennandi og blóðugum bardaga um Reykholt. Lakkrísreimar voru borðaðar og Mountain Dew var drukkið. Á laugardagskvöld fór ég svo í partí. Þetta var óvenju annasöm helgi hjá mér í samanburði við aðrar helgar. Ég er nefnilega einn af þeim sem kunna ákaflega vel við að vera einir og gera ekki neitt sérstakt. Ég er vissulega félagsvera og nýt mín vel í góðum hópi, en fyrir mér er föstudagskvöld ekkert síðra þó ég haldi mig heima, hlusti á djass og setji í nokkrar vélar. Einveran gerir mér gott og ég vakna eldhress daginn eftir. Mörgum kann að þykja þetta afar dapurlegt og sumir hafa meira að segja látið þá skoðun sína í ljós við mig. Þeir þurfa þó ekki að hafa áhyggjur af mér. Ég hef það fínt. Ég hef hins vegar eilitlar áhyggjur af þeim. Fyrir mér hljómar það hálf martraðarkennt að geta ekki notið þess að vera einn með sjálfum sér, hvort sem það er þriðjudags- eða laugardagskvöld. Að hafa aldrei farið einn í bíó af ótta við augngotur annarra. Að hafa aldrei sest einn inn á kaffihús með bók, blað eða eitthvert nýmóðins apparat, pantað sér mat eða kaffi og hangið þar í nokkra klukkutíma. Að hafa aldrei labbað aleinn í Þingholtunum að kvöldlagi í rigningu og skemmt sér konunglega við það. Vonast til að göngutúrinn klárist aldrei á meðan þú semur lag í hausnum, drög að skáldsögu sem aldrei verður skrifuð, nú eða hugsar um sæta stelpu (eða strák). Ef þetta er slæm tilhugsun er það líklega vegna þess að þú ert leiðinlegur. Ég meina þetta alls ekki illa, en ef þú værir skemmtilegri myndirðu örugglega þola laugardagskvöld með sjálfum þér. En fyrst svo er ekki, er þá nema von að ég kjósi frekar einveruna en félagsskap þinn?