„Þetta er frábært, við hlökkum mikið til og það er mikill heiður fyrir okkur að fá að koma fram þarna,“ segir Elísabet Eyþórsdóttir tónlistarkona og meðlimur í hljómsveitinni Sísý Ey, sem spila á Sónar-hátíðinni í Stokkhólmi dagana fjórtánda og fimmtánda febrúar á næsta ári.
Hljómsveitina skipa þrjár systur, þær Elísabet, Sigríður og Elín Eyþórsdætur, ásamt Friðfinni Oculus. Áður hafa listamenn á borð við Jon Hopkins, Paul Kalkbrenner og James Holden staðfest komu sína á hátíðina.
Red Bull er stærsti styrktaraðili Sónar Stockholm og hluti af því samkomulagi er að bjóða íslenskri hljómsveit að koma fram á hátíðinni. „Sísý Ey kom fram á Sónar í Barselóna og fékk frábærar viðtökur og ekki voru viðtökurnar síðri á Sónar í Reykjavík. Það er líka frábært að Sónar Reykjavík geti stutt íslenskar hljómsveitir við það að koma fram erlendis,“ segir Björn Steinbekk, framkvæmdastjóri Sónar Reykjavík.
Aðspurð um móralinn í hljómsveitinni segir Elísabet hann með eindæmum góðan. „Það er enginn rígur á milli okkar systra og það gengur allt rosalega vel,“ segir Elísabet, sem hefur þá komið fram á þremur Sónar-hátíðum á einu ári.
Sveitin vinnur nú að nýju efni en stefnt er á plötuútgáfu á nýju ári. Þá mun sveitin meðal annars koma fram á tónlistarhátíðunum Eurosonic í Hollandi og Bylarm í Noregi á næsti ári.
Tónlist